Fréttir

14.05.2020 | Bragðbættir rjómaostar sem beðið hefur verið eftir

Nú eru komnir á markað nýir bragðbættir rjómaostar frá MS. Fimm tegundir eru í boði, hver annarri betri.Hreinn rjómaostur og rjómaostur með pipar eru endurbættar útgáfur rjómaosta sem áður voru á markaði en hinar þrjár tegundirnar eru glænýjar. Þetta eru rjómaostur með grillaðri papriku og chilli, rjómaostur með karamellíseruðum lauk og rjómaostur með graslauk og lauk. Rjómaostarnir passa við hvaða til­efni sem er, hvort held­ur ofan á kex, í sós­ur, í ofn­bakaða rétti, á pítsur og svo auðvitað í sós­urn­ar.

14.05.2020 | Útlitsgallar á mygluostum skaðlausir neytendum

Eins og einhverjir viðskiptavinir hafa tekið eftir þá hefur örlítið borið á því að blá mygla hafi vaxið fram á hvítmygluostum frá MS, en þetta á t.d. við um osta á borð við Dala Camenbert, Dala Brie, Auði og Dala hring. Búið er koma í veg fyrir vandamálið en ennþá gætu einhverjir ostar verið í verslunum sem fá á sig bláa bletti þegar líður á stimpilinn. Um er að ræða samskonar blámyglu og er í ostunum Ljót, Bláum Kastala og öðrum blámygluostum en því miður varð smit frá þeim yfir í hina. Gallinn er með öllu hættulaus og fyrst og fremst sjónrænn. Mjólkursamsalan biður neytendur innlega velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

27.04.2020 | Starfsfólk MS lætur gott af sér leiða

Undanfarnar vikur hafa verið krefjandi og einkennst af fjölmörgum áskorunum bæði hér á landi og erlendis. Til að létta aðeins undir hafa starfsmenn Mjólkursamsölunnar dreift vörum frá fyrirtækinu til fjölda fólks, bæði þeirra sem starfa í framlínustörfum en einnig til eldri borgara sem hætt er við að fái ekki viðeigandi næringu þegar samfélagið lamast og samskipti minnka. Við erum þakklát þeim fjölmörgu sem hafa lagt líf og sál í verkefni síðustu vikna og erum um viss um að þegar upp er staðið verðum við sterkari – saman.

21.04.2020 | Fjörmjólk í nýjar umbúðir

Sala er hafin á Fjörmjólk í nýjum umbúðum. Nýju umbúðirnar vekja athygli á hollustu Fjörmjólkur og þeim fjölmörgu vítamínum og steinefnum sem eru í mjólkinni. Samhliða umbúðabreytingunum er Fjörmjólkin orðin laktósalaus og hentar því þeim sem hafa laktósaóþol eða vilja sneiða hjá laktósa. Fjörmjólkin er frískandi og bragðgóð og hentar ágætlega í ýmsa kaffidrykki þar sem hún freyðir vel.

16.04.2020 | Létt Smjörvi í smærri umbúðum

Léttur Smjörvi er nú í smærri umbúðum en áður, 200 g í stað 400 g. Umbúðirnar henta vel smærri heimilum og þeim sem leita eftir fituminna viðbiti.

15.04.2020 | Takk Vigdís

Frú Vigdís Finnbogadóttir fagnar 90 ára afmæli sínu í dag, 15. apríl 2020 og vill starfsfólk Mjólkursamsölunnar nýta þennan vettvang til að senda henni hamingjuóskir í tilefni dagsins og um leið þakka henni fyrir störf sín í þágu þjóðarinnar. Takk Vigdís, fyrir framlag þitt til jafnréttismála. Takk Vigdís, fyrir að standa vörð um íslenska tungu. Takk Vigdís, fyrir baráttu þína í umhverfismálum. Takk Vigdís, fyrir að sameina þjóðina í blíðu og stríðu. Takk Vigdís.

31.03.2020 | Sala er hafin á Ísey skyri í Japan

Í dag, 31. mars 2020, hófst sala á Ísey skyri í um 50.000 verslunum í Japan og líklega er þetta ein víðtækasta dreifing sem um getur á íslenskri vöru í erlendri smásölu til þessa. Þrátt fyrir að vera ein dýrasta mjólkurvara í Japan þá hefur Ísey Skyr fengið frábæra uppstillingu eða staðsetningu í flestum þessara verslana. Ísey skyri er stillt upp við hlið mest seldu mjólkuvara Japans sem sýnir að trú verslananna á skyrinu er mikil. Viðbrögðin hafa verið mjög góð og hefur varan nú þegar klárast í mörgum þessara verslana, skv. samstarfsaðilum MS í Japan. Það er fyrirtækið Nippon Luna í Kyoto sem framleiðir Ísey skyr í Japan eftir uppskrift og framleiðsluaðferð MS og er íslenski skyr gerilinn ennfremur lykilþáttur við framleiðslu vörunnar. Þessi árangur er mikil viðurkenning fyrir Ísey skyr og Mjólkursamsöluna og sýnir enn og aftur mikilvægi þess að varðveita, þróa og markaðssetja þekkingu Íslendinga í landbúnaði.

30.03.2020 | Um nýjan rjómaost

Undanfarið hafa staðið yfir breytingar á framleiðslulínunni á rjómaostinum og er markmiðið að koma með mýkri og betri rjómaost. Osturinn átti ekki að tapa neinum af eiginleikum þess gamla heldur að bæta við. Ný vél var keypt í framleiðsluna enda var sú sem fyrir var komin vel á aldur og úrelt á marga vegu. Nýja framleiðsluaðferðin tryggir mun betri nýtingu á mjólkinni og framleiðsla á rjómaosti er því mun umhverfisvænni en áður.

27.03.2020 | Opnunartími og dreifing yfir páska hjá Mjólkursamsölunni

Senn líður að páskum og þá tekur í gildi sérstakur opnunartími í söludeild og vöruafgreiðslu Mjólkursamsölunnar. Skírdagur 9. apríl, opið 8-13. Föstudagurinn langi 10. apríl, lokað. Laugardagur 11. apríl, opið 8-13. Páskadagur 12. apríl, lokað. Annar í páskum 13. apríl, lokað. Beint símanúmer söludeildar er 450-1111 og netfangið er sala@ms.is. Nánari upplýsingar um dreifingu yfir páskahátíðina má finna þegar smellt er á fréttina.

12.03.2020 | Mjólkursamsalan virkjar aðgerðaráætlanir vegna COVID-19

Kæru viðskiptavinir Vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í samfélaginu vegna COVID-19 vilja stjórnendur MS koma því á framfæri að gripið hefur verið til sérstakra öryggisaðgerða og fyrirbyggjandi ráðstafana á öllum sviðum starfseminnar til að tryggja framleiðslu og dreifingu mjólkurvara frá fyrirtækinu. Farið hefur verið eftir tilmælum Embætti landlæknis og Almannavara við þessa framkvæmd og er tilgangurinn að takmarka áhrif kórónaveirunnar á starfsemi fyrirtækisins, starfsmenn og viðskiptavini. Samkvæmt viðbragðsáætlun almannavarna við heimsfaraldri er mikilvægt fyrir matvælabirgja og -framleiðendur að sjá til þess að dreifing nauðsynja nái fram að ganga og miða allar öryggisaðgerðir og ráðstafanir hjá MS að því. Viðskiptavinir þurfa ekki að óttast vöruskort á íslenskum mjólkurvörum og munu þær halda áfram að berast í verslanir í dag, á morgun og áfram.