Beint í efni
En

Íslenskir kúabændur

Íslenskir bændur hafa alltaf borið gæfu til að standa sjálfir að mjólkurvöruvinnslu og sölu í gegnum samvinnufélög sín og er Mjólkursamsalan sprottin úr þeim jarðvegi. Hún hefur frá upphafi verið í eigu íslenskra kúabænda og fjölskyldna þeirra og má segja að MS sé stærsta fjölskyldufyrirtæki landsins en í dag eru starfrækt um 520 kúabú víðsvegar um landið.

Við erum gríðarlega stolt af þeirri miklu vinnu sem liggur að baki hvers mjólkurlítra og berum virðingu fyrir kraftmiklu starfi íslenskra kúabænda og fjölskyldna þeirra, en þessi hópur vinnur hörðum höndum að því að færa okkur holla, hreina, næringarríka og bragðgóða íslenska mjólk. Það eru engir tveir dagar eins hjá kúabændum en til að gefa ykkur smá innsýn í líf fólksins sem stendur að baki þeirra fjölmörgu vara sem Mjólkursamsalan framleiðir heimsóttum við bændur á Suður- og Norðurlandi og fengum að skyggnast aðeins á bakvið tjöldin.

Hjónin Gísli Hauksson og Jónína Einarsdóttir, bændur að Stóru-Reykjum í Flóahreppi.

Þau Gísli og Jónína hófu búskap á bænum árið 1985 og halda 55 árskýr í nýju 70 kúa fjósi sem byggt var 2015 og ári síðar var svo gamla fjósinu breytt í uppeldisfjós með legubásum fyrir kvígur. Gísli og Jónína kunna vel að meta fjölbreytileikann sem fylgir starfinu enda er enginn dagur eins og alltaf í mörg horn að líta. „Þau eru margbreytileg störfin sem fylgja búskap og ef við teljum upp nokkur má nefna ræktunarstarf, umhirðu skepna, öflun fóðurs og viðhald véla, húsa og girðinga,” segir Gísli og Jónína bætir við að eins þurfi að sinna bókhaldi og skýrslugerð ásamt mörgu sem til fellur, en hjónin sitja sjaldnast auðum höndum.

Í frítíma sínum njóta Gísli og Jónína þess að ferðast bæði innanlands og utan og þá grípur Jónína gjarnan í prjóna og Gísli spilar bridge einu sinni í viku. Umfram allt njóta þau samvista við fjölskyldu sína, börn og barnabörn, en börnin fjögur eru þau Haukur, Geir, Guðrún og Gunnhildur og barnabörnin stelpuskotturnar Bergþóra og Salka.

Hjónin Haraldur Jónsson og Vaka Sigurðardóttir eru bændur að Dagverðareyri við Eyjafjörð. Á Dagverðareyri búa þau hjónin ásamt sonum sínum fjórum, þeim Jóni Inga, Bjarka Jarli, Hlyn Atla og Heiðari Aroni, krútthundinum Kubb og Aussie tíkinni Hélu.

Haraldur og Vaka eru bæði fædd og uppalin í Reykjavík, annað í hundrað og einum og hitt í efra Breiðholti. Leið beggja lá í Bændaskólann á Hvanneyri (nú Landbúnaðarháskóla Íslands) og að loknu námi þvældust þau aðeins um landið í vinnumennsku. Lánið lék svo við þau þegar þau keyptu sér jörð og hófu þau búskap á Brattavöllum á Árskógsströnd árið 2001. Á Brattavöllum bjuggu þau til ársins 2013 þegar heppnin lék við þau í annað sinn og þau festu kaup á Dagverðareyri í Hörgársveit.

Haraldur og Vaka eru sammála um að það sé margt sem heillar við starf bóndans t.d. það hversu fjölbreytt og krefjandi starfið er og sú staðreynd að enginn dagur sé eins. Á Dagverðareyri eru um 75 kýr mjólkaðar í Tandem mjaltabás tvisvar á dag, þ.e. kvölds og morgna, og heyjaðir um 100 ha. En hvað gera bændur í frítíma sínum? „Frítíminn er aðallega notaður til að vera með fjölskyldunni og hitta góða vini. Hann er líka notaður til að ferðast um landið hvort sem það er gangandi, ríðandi eða á einhverju mótordrifnu. Einnig er gaman að fara erlendis og hitta kollega sína og viða að sér fróðleik úr öllum áttum,“ segja Haraldur og Vaka áður en þau halda út í fjós til mjalta.