Beint í efni
En

MS sem vinnustaður

Mjólkursamsalan er fjölbreyttur vinnustaður og óhætt að segja að ein helsta auðlind MS sé mannauðurinn. Hjá okkur starfa um 450 starfsmenn um land allt sem mynda marga ólíka en samheldna hópa sem eiga það sameiginlegt að búa yfir mikilli reynslu, færni og þekkingu í sínum störfum.

Mjólkursamsalan er fjölbreyttur vinnustaður og þar starfar samheldinn hópur sem býr hvort tveggja yfir mikilli þekkingu og færni í sínu starfi. Alls eru starfsmenn fyrirtækisins tæplega 450 en starfsstöðvar fyrirtækisins eru á fimm stöðum á landinu: Reykjavík, Selfossi, Akureyri, Búðardal og Egilsstöðum. Meginmarkmið okkar er ánægt starfsfólk sem hefur skýra ábyrgð og góða sérþekkingu á sínu sviði sem saman vinnur sem ein liðsheild að markmiðum fyrirtækisins.

Við þurfum fjölbreyttan hóp starfsfólks með hæfileika, menntun og reynslu á ýmsum sviðum því það þarf að sinna margskonar störfum til að koma mjólkurvörum á markað til dæmis; mjólkurfræðinga, sérfræðinga í gæðaeftirliti, bílstjóra, verkstæðis- og viðhaldsfólk, lagerstarfsfólk, sölufulltrúa, vörukynna, markaðsfólk, þjónustufulltrúa, verkafólk við framleiðslu og pökkun, skrifstofufólk og aðra sérfræðinga. Við leggjum jafnframt áherslu á fjölbreytta samsetningu starfsfólks en þjóðerni starfsmannahópsins eru um 20 talsins sem auðgar vinnustaði og -umhverfi til mikilla muna.

Til að hlúa að starfsfólki okkar höfum við sett fram skýrar stefnur í starfsmannamálum. Vellíðan og öryggi starfsfólksins er okkur hugleikið og því höfum við einnig markað okkur stefnu um öryggi og vinnuvernd og um forvarnir gegn einelti og kynferðislega áreitni.

Mannauðs-og jafnréttisstefna Mjólkursamsölunnar lýsir hvernig fyrirtækið sér fyrir sér þróun mannauðsmála hjá fyrirtækinu. Hún hefur þann tilgang að vísa okkur veginn þannig að afstaða fyrirtækisins í mikilvægum málaflokkum tengdum starfsfólkinu sé skýr. Hún felur í sér ákveðin skilaboð til starfsmanna, stjórnenda, stjórnar, eigenda og samfélagsins. Helstu áherslur hennar eru:

LIÐSHEILD OG GILDI: Við erum ein samstíga liðsheild með metnað sem leysir málin saman með jákvæðni að leiðarljósi og á samfélagslega ábyrgan hátt.

RÁÐNINGAR OG FJÖLBREYTNI: Lögð er áhersla á fjölbreytta samsetningu starfsfólks. Við ráðningar veljum við hæfustu einstaklingana í starfið með metnað, samvinnu, jákvæðni og ábyrgð að leiðarljósi. Tryggt er að laus störf standi konum jafnt sem körlum opin.

MÓTTAKA NÝLIÐA: Við tökum vel á móti nýliðum og veitum þeim markvissa, samræmda þjálfun og stuðning umsjónaraðila.

ÞJÁLFUN OG FRÆÐSLA: Lögð er áhersla á að starfsfólk fái þjálfun og fræðslu við hæfi og eftir því sem þörf er á (tryggt er að konur og karlar njóti sömu tækifæra). Fræðsluáætlun fyrirtækisins beri mið af alhliða þörfum hvað varðar nýliðafræðslu, símenntun, endurmenntun starfsfólks og stjórnendafræðslu.

STJÓRNUN OG ENDURGJÖF: Stjórnendur skulu gæta að góðum stjórnunarháttum og sýna fyrirmynd í orðum og verki. Stjórnendur leiðbeina starfsfólki eftir því sem við á með reglulegri endurgjöf þar sem markmiðið er að hrósa fyrir það sem vel er gert og koma skýrt á framfæri því sem betur má fara og styðja starfsfólk við að ná árangri. Allt starfsfólk fer í gegnum árleg starfsmannasamtöl með næsta yfirmanni.

ÖRYGGI OG VINNUVERND*: Lögð er áhersla á að skapa sterka öryggismenningu og byggja upp öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi til að stuðla að vellíðan og góðri heilsu starfsfólks og koma þannig í veg fyrir slys og lágmarka veikindi. Allir þurfa að vera meðvitaðir um eigin ábyrgð á vinnustaðnum til að tryggja að lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi sé fylgt. MS er tóbakslaust fyrirtæki þar sem starfsfólk notar ekki tóbak á vinnusvæði, í húsnæði, á lóð eða í merktum bifreiðum.

EINELTI KYNFERÐISLEG ÁREITNI KYNBUNDIN ÁREITNI OG OFBELDI*: Við umgöngumst hvert annað af virðingu og líðum ekki hegðun á vinnustaðnum sem leiðir til vanlíðunar annarra m.a. einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti eða ofbeldi. Ef upp koma tilvik vegna kvörtunar eða ábendingar sem leiðir til að rökstuddur grunur er um slíkt áskiljum við okkur rétt til að grípa til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skv. reglugerð nr.1009/2015.

ÞEKKINGAR- OG UPPLÝSINGAMIÐLUN: Við höfum frumkvæði að því að miðla þekkingu og upplýsingum í tölvupóstum, í samtölum, á reglulegum upplýsingafundum, í fréttabréfum og á innri vef, eftir því sem við á og við teljum að gagnist samstarfsfólki okkar sem best.

JAFNVÆGI MILLI VINNU OG EINKALÍFS: Haft er að leiðarljósi hið gullna jafnvægi þ.e. sveigjanleika í starfi þar sem því er við komið til að stuðla að jafnvægi milli vinnu og einkalífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Einnig er lögð áhersla á að starfsfólk taki sér verðskuldaða hvíld frá störfum og nýti sér áunnið orlof á hverju ári. Orlofsdagar sem ekki hafa verið nýttir falla niður þegar nýtt orlofsár hefst.

JAFNRÉTTI: Lögð er áhersla á jafnrétti starfsfólks og jafnan rétt kynjanna skv. lögum nr. 10/2008. Jafnlaunastefna MS fylgir jafnréttislögum nr. 10/2008 og einnig öðrum lögum og reglum um að ekki skuli mismuna eftir kyni. Karlar og konur skulu fá greidd jöfn laun fyrir sömu vinnu eða jafn verðmæt störf. Til þess að fylgja eftir jafnlaunastefnunni er farið eftir íslenska staðlinum ÍST 85:2012. Fyrirtækið skuldbindur sig til að skapa umgjörð þannig að launaákvarðanir mismuni ekki eftir kyni, þjóðerni, kynþætti, kynhneigð eða trúarbrögðum.

Til að viðhalda jafnlaunastefnunni og tryggja eftirfylgni hefur fyrirtækið ákveðið að forstjóri muni halda rýnifund árlega. Á fundinum verður farið yfir árlega launagreiningu og umbætur gerðar ef þess er þörf til að viðhalda jafnlaunastefnunni. Fyrirtækið skuldbindur sig til að tryggja stöðugar umbætur eftirlit og viðbrögð og fylgja viðeigandi lagalegum og öðrum kröfum um jafnréttismál.

SVEIGJANLEG STARFSLOK: Eftirlaunaaldur er 67 ár og almenna reglan er að ráðningu hjá MS lýkur við 67 ára aldur starfsmanns. Ef starfsgeta og áhugi beggja er fyrir hendi, geta fyrirtækið og starfsmaður framlengt ráðningarsambandið allt til 70 ára aldurs. Þannig er horft á starfslok sem sveigjanlegt ferli þar sem tekið er tillit til aðstæðna hvers og eins.

Mjólkursamsalan (MS) leggur metnað sinn í að skapa sterka öryggismenningu og byggja upp öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Markmiðið er að koma í veg fyrir slys en einnig að stuðla að vellíðan og góðri heilsu starfsfólks og um leið að lágmarka fjarvistir vegna veikinda. Til að þetta verði að veruleika þurfa allir að vera meðvitaðir um eigin ábyrgð hvað varðar öryggi og vinnuvernd á vinnustaðnum hvort sem um er að ræða stjórnendur, verkstjóra, starfsfólk eða öryggisnefndir.

Starfsemi MS snýst að stórum hluta um söfnun mjólkur frá bændum, framleiðslu, pökkun og dreifingu mjólkurafurða. Meirihluti starfsfólks sinnir störfum þar sem vélakostur eða ökutæki koma við sögu. Á öllum starfsstöðvum skal vera til staðar uppfært áhættumat og starfræktar virkar öryggisnefndir sem sinna eftirfylgni í öryggismálum starfsmanna og miðla þekkingu og upplýsingum sín á milli. Öryggisteymi MS, með fulltrúum allra öryggisnefnda, skal hafa yfirsýn yfir stöðu fyrirtækisins í heild og gegna hlutverki samræmingaraðila öryggismála og tryggja að lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé fylgt. Til þess að auka virkni alls starfsfólks í að fylgja stefnu fyrirtækisins og tryggja gagnsæi og skýrleika, hafa markmið verið sett og ábyrgðaraðilar skilgreindir.

Við umgöngumst hvert annað af virðingu og líðum ekki hegðun á vinnustaðnum sem leiðir til vanlíðanar annarra s.s.. eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundins áreitis eða ofbeldis. Ef upp koma tilvik vegna kvörtunar eða ábendingar sem leiðir til að rökstuddur grunur er um slíkt áskiljum við okkur rétt til að grípa til aðgerða í samræmi við skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skv. reglugerð nr.1009/2015.

HVAÐ ER EINELTI, ÁREITNI OG OFBELDI?

Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til eða gæti leitt til, líkamslegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis.

Skylda hvers atvinnurekanda er að skipuleggja starfsemi þannig að dregið sé úr hættu á að einelti eða að önnur ótilhlýðileg háttsemi geti þrifist innan fyrirtækisins. Að sama skapi skal bregðast tafarlaust við ef grunur leikur á slíku og kanna málavexti. Ef rétt reynist þarf að koma í veg fyrir að slíkt viðgangist og þá mögulega í samráði við vinnuverndarfulltrúa á vinnustaðnum, utanaðkomandi ráðgjafa eða aðra er málið varðar.

Skylda starfsmanns sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreiti eða ofbeldi á vinnustað felur í sér að upplýsa atvinnurekanda eða vinnuverndarfulltrúa vinnustaðarins um það. Skal starfsmaðurinn ávallt vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til.

Áætlun þessi lýsir hvernig Mjólkursamsalan ætlar að stuðla að forvörnum og aðgerðum gegn einelti, áreiti og ofbeldi innan fyrirtækisins og þ.m.t. öllum starfsstöðvum þess.

  • Fræða starfsfólk um stefnu fyrirtækisins, upplýsingaskyldu starfsfólks og viðbrögð ef grunur leikur á einelti eða ámælisverðri hegðun.
  • Tengja gildi fyrirtækisins MS JÁ við hegðun sem dregur úr líkum á einelti, áreiti eða ofbeldi. Safna saman upplýsingum og setja á innri vef og í starfsmannahandbók.
  • Stuðla að sameiginlegum viðburðum meðal starfsfólks til að efla samkennd og góð samskipti.
  • Skilgreina verklagsreglur sem lýsa viðbrögðum við einelti, áreiti og ofbeldi og ábyrgð stjórnenda og starfsfólks til að samræmi sé í vinnubrögðum innan fyrirtækisins.
  • Ef grunur leikur á einelti, áreiti eða ofbeldi innan fyrirtækisins ber stjórnendum skylda að setja í gang aðgerðaplan skv. verklagsreglu þar sem sérfræðingur er kallaður til ef þörf er á