Beint í efni
En

Gott handbragð úr Dölunum

Dalaostar eru handgerðir í Búðardal. Að búa til góðan mygluost er flókið ferli og þarfnast bæði sérþekkingar ostameistara og ástríðu hans fyrir starfinu. Hráefnið er viðkvæmt og þarfnast nákvæmni og virðingu er það er meðhöndlað. Aðaláskorun í ostagerð er að búa til ost og endurtaka svo leikinn aftur og aftur þannig að þeir næstu verði sem líkastir þeim fyrri. Það er mjög mikil áskorun með lifandi afurð eins og ostar eru. Trúlega er engin fæðutegund til í eins mörgum tegundum og afbrigðum og ostur. Fer það allt eftir færni ostameistaranna og gæði hráefnisins hver útkoman verður. Þannig eru Dalaostarnir meðhöndlaðir af alúð svo þeir njóti sín á gleðistundum landsmanna. Sumir segja að það sé ekki veisla ef vantar ostabakka og þá koma Dalaostar sterkir inn.

Ómissandi á ostabakkann

Ostabakkar henta fullkomnlega í hvers kyns boð og veislur enda einfalt að aðlaga eftir fjölda gesta hverju sinni. Hvort sem þú býður upp á einn ost eða fleiri er upplagt að prófa sig áfram með meðlæti en leggja upp með að hafa kex, ber, kjötmeti og grænmeti í bland.

Dala Camembert

Dala Camembert á rætur sínar að rekja til samnefnds bæjar í Frakklandi. Sagan segir að kona að nafni Marie Harel hafi átt heiðurinn að honum og að vinsældir ostsins hafi komið eftir að sjálfur Napoleon hafi fengið að smakka á honum. Íslenskur Camembert á fullkomnu stigi hefur mjúka áferð og létta bragðtóna sem minna á smjörsteikta sveppi og vott af hvítum pipar sem klípur í kinnar.

Dala Brie

Dala Brie er klassískur Brie ostur, mildur í grunninn en verður sterkari og meira afgerandi með hækkandi aldri. Hann er ómissandi á ostabakkann með ferskum berjum, þurrkuðum apríkósum og jafnvel heimagerðu rifsberja- og koníakshlaupi. Hann passar vel á brunch bakkann með ólífum, pylsum og bragðmikilli kryddsultu eða mjólkursýrðu grænmeti.

Dala Höfðingi

Höfðingi er auðþekkjanlegur vegna sporöskjulegs útlits. Hann er rjómabættur sem gerir hann sérstaklega kremaðan í áferð og ljúfan í bragði. Aðalhættan er að hann getur orðið ávanabindandi. Hugmynd: Vefjið Höfðingja með hráskinku og bakið í 12-14 mínútur í 180° heitum ofni. Algjört lostæti sem bræðir bragðlauka allra fjölskyldumeðlima.

Dala kastali hvítur og blár

Hvítur kastali er rjómabætt gersemi sem er bragðmeiri og skarpari ostur en hinir í Dalaostafjölskyldunni þar sem hvítmyglan vex jafnt að utan og að innan. Ómissandi ostur á bakkann sem parast vel með bragðmeira meðlæti. Blár Kastali er mjúkur ostur með vel völdu hlufalli af hvít- og blámyglu. Hann er kremkenndur með mildum gráðaostakeim sem kemur frá blámyglunni og verður hann bæði kröftugri og bragðmeiri með hækkandi aldri.

Dala Stóri Dímon

Stóri Dímon er virðulegur herra í Dalaostafjölskyldunni. Vel valið hlutfall milli hvít- og blámyglu gefa honum bæði einkennandi útlit og einstakt bragð. Ef vel er að gáð líkist bragðið svolítið smjörsteiktum sveppum og ljúffeng smjörkennd áferð er af honum sem svíkur engan.

Dala Auður

Dala Auður er skírður í höfuð Auði djúpúðgu sem var landnámskona í Dölunum og ættmóðir Laxdæla. Auður er framleiddur úr nýmjólk og þar af leiðandi er hann feitari og mýkri en aðrir hvítmygluostar, 33% í stað 26% Ostur sem gerir hann rjómakenndari og með munnþekjandi áferð. Hann er einstaklega bragðmildur og því ostur sem byrjendum í mygluostasmökkun og börnum hugnast best. Það er gott að para hann með fersku og sýruríku meðlæti t.d. ananas, suðrænum ávöxtum, ferskum berjum, kryddsultum eða súrsuðu grænmeti.

Dala Gullostur

Gullostur er göfugur og glæsilegur ostur. Hann er bragðmeiri en þó með milda undirtóna vegna þess að hvítmyglan vex á yfirborði ostsins en einnig inni í ostinum. Mjög mjúk og kremuð áferð og nettir pipartónar.

Dala Bónda Brie

Bónda Brie er mildur en verður bragðsterkari með aldri. Hann er minnstur í Dala fjölskyldunni og passar einkar vel á bæði brunch- og eftirréttabakkann með kryddsultum eða bragðmiklu hlaupi. Einnig er einstaklega gott að kljúfa hann í tvennt og grilla á hamborgara.

Dala Ljótur

Ljótur ber nafn með réttu en ekki hræðast hrjúfótt og margskonar útlit hans þar sem undir yfirborði er að finna gómsætan, bragðmikinn gráðaost með mjúka smjörkennda áferð. Bragðið er mildara en þú álítur, en þó ákveðið. Berið fram með þroskaðri peru og hunangsdreitli sem eftirrétt. Einnig er dökkt súkkulaði einstaklega ljúffengt með honum.

Dala hringur

Dala hringur er hringlaga hvítmygluostur þar sem búið er að fjarlægja miðjuna sem breytir þroskunarferli hans þannig að hann osturinn þroskast hraðar og verður fyrr tilbúinn til neyslu en aðrir sambærilegir ostar. Gatið í honum er fullkomið að fylla með góðgæti eins og sultum og hnetum, hunangi eða hverju sem þú kannt við og baka síðan í ofni í um 15-20 mínútur.

Tengdar vörur