Beint í efni
En

Umhverfismál

Mjólkursamsalan einsetur sér að starfa í sátt við umhverfi sitt og náttúru landsins hverju sinni. Með stefnu sinni leitast fyrirtækið við að endurspegla umhverfisvæn sjónarmið í öllum skrefum virðiskeðjunnar og leggja þar með ríka áherslu á bestu umgengni til verndar umhverfinu og náttúru landsins.

Mjólkursamsalan leggur áherslu á gæðaframleiðslu í sátt við náttúruna og umhverfið og eru umhverfismál meðal forgangsmála fyrirtækisins. Við hönnun og val á umbúðum er þetta sérstaklega haft í huga og er fyrirtækið sífellt að taka fleiri skref með umhverfisvernd að leiðarljósi.

Árið 2017 varð Mjólkursamsalan einn fyrsti mjólkurvöruframleiðandi í heimi til þess að skipta út öllum mjólkurfernum sínum fyrir nýjar, umhverfisvænni fernur. Þær fernur bera 66% minna kolefnisfótspor en áður og eru umhverfisvænustu mjólkurfernur sem völ er á. Samhliða nýju umbúðunum var settur aukinn kraftur í að hvetja neytendur til endurvinnslu þar sem lögð var áhersla á að fernurnar okkar eigi sér framhaldslíf. Svo það verði þurfa neytendur að flokka og skila umbúðunum til endurvinnslu en til að einfalda sorpflokkun má tappinn fara með fernunni beint í endurvinnslutunnuna.

MS hefur tekið mörg skref til þess að draga úr plasti í umbúðum. Fyrir nokkrum árum voru rörin fjarlægð af G-mjólkinni, öllum plastdósum undir drykki var skipt út fyrir pappafernur og rörum og skeiðum úr plasti var skipt út fyrir pappa. Nú hefur eitt skref til viðbótar verið tekið og plastlok með skeiðum verið tekin af af nokkrum skyrtegundum. Hvert skref í rétta átt skiptir máli og hafa neytendur tekið þessum breytingum vel.

Mjólkursamsalan horfir ekki eingöngu á umbúðir þegar kemur að umhverfismálum. Á undanförnum árum hefur fyrirtækið ráðist í miklar fjárfestingar og endurnýjun á tækjabúnaði sem tryggir betri nýtingu á mjólkinni og lengri líftíma varanna. Því er framleiðslan umhverfisvænni en áður.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að einfalda söfnun mjólkur og samnýta betur ferðir mjólkurbíla sem keyra um landið. Með þetta að markmiði hafa verið keyptir bílar sem gegna tvöföldu hlutverki; að keyra vörur til viðskiptavina og sækja mjólk til bænda. Hafa þessar breytingar orðið til þess að minni olíu þarf fyrir hvern unninn lítra af mjólk en áður. Þá höfum við einnig keypt metabíl sem hefur reynst vel til vöruafhendingar innan höfuðborgarsvæðisins og endurnýjað bílaflota söludeildar með kaupum á rafmagnsbílum.

Aðgerðir MS til að draga úr kolefnisfótspori framleiðslunnar eru á þremur sviðum: Flutningur, framleiðsla og umbúðir. Þær sem skila okkur hvað mestum árangri snúa að framleiðslunni sjálfri. Árið 2017 opnaði ný verksmiðja á Sauðárkróki, Íslenskar mysuafurðir, þar sem próteinduft er unnið úr mysunni sem fellur til við framleiðslu osts. Þar er nú framleitt úr um 50 milljón lítrum af mysu sem áður voru ónýttar. Við stefnum svo á að etanólframleiðsla hefjist síðar á þessu ári og þá erum við farin að fullnýta hráefnið og eina sem fellur til er vatn.

Í lok árs 2020 voru síðustu skrefin tekin í orkuskiptum hjá fyrirtækinu í gufuframleiðslu. Slökkt var á síðasta olíukatli fyrirtækisins þá um haustið og því markmiði loks náð að öll gufa, sem nauðsynleg til mjólkurvöruframleiðslu, er nú framleidd með endurnýjanlegri orku. MS er eina fyrirtækið í mjólkurframleiðslu í heiminum sem nýtir alfarið umhverfisvæna orku í vinnslu á mjólkurafurðum, svo vitað sé.

MS var fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar í heiminum til að skipta í umhverfisvænar mjólkurfernur sem bera 66% minna kolefnisspor en þær sem áður voru í notkun auk þess sem að í dag eru allir skyrdrykkir okkar komnir í pappafernur í stað plastdósa. Við hvetjum neytendur til að skila tómum umbúðum til endurvinnslu því tómar umbúðir eru ekki rusl, heldur efniviður til að framleiða nýjar umbúðir.

MS kaupir hluta af plastdósum sínum frá innlendum framleiðanda en með því höldum við innflutningi á plasti í lágmarki. Í stað þess að flytja inn um 9 gáma af tilbúnum dósum fyrir ákveðnar vörur þurfum við einungis 1 gám af plastperlum sem dósirnar eru svo framleiddar úr hérlendis, þar sem framleiðslan er knúin áfram af grænni raforku. Þannig styðjum við bæði við innlenda framleiðslu og drögum verulega úr kolefnissporinu.

Einn liður í umhverfismálum er að draga úr matarsóun og hefur MS til að mynda merkt mjólkurfernur og fleiri vörur með merkingunni: "Best fyrir - oft góð lengur". Matvörur sem eru merktar með 'best fyrir' eru oft í lagi eftir þá dagsetningu, svo lengi sem lykt og bragð er í lagi og ef varan hefur verið rétt geymd.

Áfastir tappar

Frá og með 3. júlí 2024 verður lögfest á Íslandi skilyrði um áfasta tappa og lok á einnota drykkjarílátum og -umbúðum úr plasti sem sett eru á markað hér á landi. Um er að ræða innleiðingu á ákvæði frá Evrópuþingi og ESB* þar sem leitast er við að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.

Þegar tilskipunin tekur gildi má einungis setja einnota drykkjarílát og –umbúðir úr plasti með tappa eða lok úr plasti á markað ef tappinn eða lokið er áfast vörunni á meðan fyrirhuguð notkun hennar stendur yfir. Tilgangurinn með ákvæðinu er að koma í veg fyrir að tappar og lok af einnota drykkjarílátum og -umbúðum endi á víðavangi og úti í umhverfinu.

Umhverfisuppgjör MS hefur að geyma allar helstu upplýsingar um umhverfisþætti fyrirtækisins og er það unnið í samstarfi við Klappir grænar lausnir. MS vinnur að því hörðum höndum að tileinka sér lausnir sem lágmarka áhrif neikvæðra umhverfisþátta af völdum starfsemi fyrirtækisins og má lesa um áherslur og áfanga sem náðst hafa í umhverfisskýrslum fyrirtækisins.