Beint í efni
En

Íslenska er okkar mál

Hvort sem við höfum talað íslensku frá blautu barnsbeini eða numið hana síðar er ræktun málsins lífstíðarverkefni. Að rækta tungumál, aga hugsun sína og skerpa tjáningu er besta leiðin til betri samskipta og gagnkvæms skilnings. Við erum ólík að uppruna en tengjumst í gegnum tungumálið.

Á íslensku má alltaf finna svar

Frá árinu 1994 hefur Mjólkursamsalan beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins á grundvelli samstarfssamnings við Íslenska málnefnd. Það er ljóst að samstarf MS og Íslenskrar málnefndar um íslenska málrækt er verðmætt og mikilvægt verkefni, þar á MS að bakhjarli úrvalssveit fagmanna á þessu sviði.

Fernuflug

Mjólkursamsalan hefur frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hafa stærstu og sýnilegustu verkefni okkar verið íslenskuátökin á mjólkurfernum MS. Mjólkurfernurnar hafa þannig verið nýttar sem vettvangur málræktar, tjáningar og sköpunar og því var ákveðið að endurvekja textasamkeppni grunnskólanema, Fernuflug, á haustmánuðum 2023.

Íslensk náttúra í ljóðum

Árið 2007 voru 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og heiðraði Mjólkursamsalan minningu ástsælasta ljóðskálds Íslendinga með sérstökum ljóðavef. Ljóð Jónasar skipa stærstan sess á vefnum, en þar má finna alls 443 ljóð eftir 119 höfunda frá 19. og 20. öld. Jónasarvefurinn svokallaði er langviðamesta safn íslenskra náttúruljóða sem nokkru sinni hefur verið tekið saman.

Málshættir og orðtök

Með einum smelli getur þú skoðað lista yfir nokkra vel valda málshætti sem notaðir voru í tengslum við íslenskuátakið Fernuflug frá árinu 2004 þegar þátttakendur teiknuðu myndir við íslensk orðtök og málshætti.

Myndir og textar á mjólkurfernum

Mjólkurfernur eru á borðum a.m.k. einhvern hluta dags á flestum heimilum og vinnustöðum landsins, og koma því fyrir augu þúsunda manna daglega. MS hefur í gegnum tíðina notað fernurnar til að koma á framfæri léttum og skemmtilegum skilaboðum um íslenska tungu og frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að textar og myndskreytingar höfði til fólks á öllum aldri og efnið sé aðgengilegt börnum frá 10 ára aldri. Meðal efnis sem prýtt hefur fernurnar eru bókmenntatextar, gátur og orðatiltæki og nú síðast textar eftir nemendur í 8.-10. bekk.

Örnefni á Íslandi

Árið 2015 var sjónum beint að örnefnum á Íslandi og vöktum við athygli landsmanna á uppruna þeirra á skemmtilegan hátt með myndum og stuttum textabútum. Með einum smelli getur er hægt að fræðast um hin ýmsu örnefni, skoða kort af landinu og mögulega hvetja fólk til að ferðast um landið og kynna sér nýja og áhugaverða áfangastaði.