Fréttir

Umferð og heimsóknir til MS takmarkaðar

31.07.2020 | Umferð og heimsóknir til MS takmarkaðar

Kæru viðskiptavinir vegna hertra aðgerða stjórnvalda vegna COVID-19 hefur verið ákveðið að takmarka aftur umferð viðskiptavina og gesta á starfsstöðvar MS. Tilgangur þessara aðgerða er að takmarka áhrif kórónaveirunnar á starfsemi fyrirtækisins.

Við hvetjum viðskiptavini til að sleppa heimsóknum á starfsstöðvar MS sé þess kostur og bendum á að flest mál má leysa með símtali eða tölvupósti. Símanúmer MS er 450-1100 og netfang ms@ms.is

Viðskiptavinir sem eru að sækja vörur í vöruafgreiðsla hringja á undan sér eða þegar þeir eru komnir í síma 450-1310 og fá vörur afhentar fyrir utan húsið.

Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þessar ráðstafanir kunna að hafa í för með sér.

Gamli rjómaosturinn frá MS er nú fáanlegur á ný

16.07.2020 | Gamli rjómaosturinn frá MS er nú fáanlegur á ný

Rjómaosturinn frá MS nýtur mikilla vinsælda en hann hentar frábærlega í matargerð og bakstur svo eitthvað sé nefnt. Til að koma til móts við sem flesta neytendur var ákveðið að setja gamla rjómaostinn aftur á markað og verður hann fáanlegur í verslunum samhliða þeim nýja. Gamli rjómaosturinn er stífari en sá nýi og hentar einkar vel í eðlur, ídýfur og aðra heita rétti. Gamli rjómaosturinn kemur í 250 g umbúðum og vonum við að neytendur sem hafa saknað þess gamla geti nú tekið gleði sína á ný.

MS styður Team Rynkeby og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna um 400.000 kr.

15.07.2020 | MS styður Team Rynkeby og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna um 400.000 kr.

Mjólkursamsalan styrkir á hverju ári ýmis góðgerðarfélög og góð málefni og eitt af þeim félögum sem hlaut styrk í ár er hjólahópurinn Team Rynkeby. Team Rynkeby er samnorrænt góðgerðastarf þar sem þátttakendur frá nokkrum löndum hjóla frá Danmörku til Parísar og styrkja gott málefni í leiðinni en söfnunarfé íslenska hópsins rennur óskipt til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Mjólkursamsalan er einn af Gullstyrktaraðilum í ár og lagði verkefninu lið með 400.000 kr. fjárframlagi sem verður afhent forsvarsmönnum SKB þegar söfnuninni lýkur formlega í september, en þá verður heildarupphæð söfnunarinnar enn fremur opinberuð.

Mjólkursamsalan styrkir áframhaldandi uppbyggingu í Dalabyggð

10.07.2020 | Mjólkursamsalan styrkir áframhaldandi uppbyggingu í Dalabyggð

Formleg opnun á Vínlandssetrinu í Búðardal fór fram í byrjun júlí en þar gefur að líta einstaka sýningu sem fjallar á fjölbreyttan hátt um landafundi Eiríks rauða og Leifs heppna Eiríkssonar en sýningin samanstendur af myndverkum tíu þekktra íslenskra myndlistarmanna. Mjólkursamsalan er stoltur styrktaraðili Vínlandsseturs og hefur sent öllum Dalamönnum boðskort á sýninguna sem veitir þeim ótakmarkaðan aðgang að sýningunni til ársloka 2021.

Rifinn Heimilisostur á tilboði

09.07.2020 | Rifinn Heimilisostur á tilboði

Rifinn Heimilisostur er nú á sérstöku tilboði í verslunum landsins í sérmerktum tilboðspokum. Um er að ræða 100% íslenskan ost sem samanstendur af Mozzarella- og Goudaosti - blanda sem er ómissandi á pizzuna, ofn- og pastarétti eða bara út á salatið.

G-mjólk er frábær í ferðalagið

24.06.2020 | G-mjólk er frábær í ferðalagið

G-mjólk frá MS er frábær í ferðalagið. Hún geymist í 6 mánuði utan kælis og hentar sérstaklega vel á ferðalögum.

MS breytir nöfnum á Fetaosti

12.06.2020 | MS breytir nöfnum á Fetaosti

Í framhaldi af bréfi frá MAST í byrjun vikunnar mun MS hætta notkun á nafninu Feta á nokkrum ostum og taka í stað þess upp nafnið Salatostur, Ostakubbur og Veisluostur.

Ákvörðun verðlagsnefndar um hækkun heildsöluverðs og lágmarksverðs til framleiðenda

02.06.2020 | Ákvörðun verðlagsnefndar um hækkun heildsöluverðs og lágmarksverðs til framleiðenda

Af vef stjórnarráðsins: Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða sem nefndin verðleggur. Eftirfarandi verðbreytingar munu taka gildi þann 1. júní 2020:

Lágmarksverð 1.fl. mjólkur til bænda hækkar um 5,5%, úr 92,74 kr./ltr í 97,84 kr./ltr.
Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækkar um 4,28%, nema smjör sem hækkar um 12%. Vegin hækkun heildsöluverðs er 4,69%.
Verðhækkunin er til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu og vinnslu mjólkur, en síðasta verðbreyting fór fram 1. janúar 2020. Við síðustu verðlagningu var gengið skemur en þróun verðlagsgrundvallar kúabús og gjaldaliða hjá afurðastöðvum gaf tilefni til. Verðhækkun 1. júní 2020 byggist á uppsafnaðri hækkun frá verðlagningu 1. september 2018, að frádreginni verðhækkun 1. janúar 2020.

Bragðbættir rjómaostar sem beðið hefur verið eftir

14.05.2020 | Bragðbættir rjómaostar sem beðið hefur verið eftir

Nú eru komnir á markað nýir bragðbættir rjómaostar frá MS. Fimm tegundir eru í boði, hver annarri betri.Hreinn rjómaostur og rjómaostur með pipar eru endurbættar útgáfur rjómaosta sem áður voru á markaði en hinar þrjár tegundirnar eru glænýjar. Þetta eru rjómaostur með grillaðri papriku og chilli, rjómaostur með karamellíseruðum lauk og rjómaostur með graslauk og lauk. Rjómaostarnir passa við hvaða til­efni sem er, hvort held­ur ofan á kex, í sós­ur, í ofn­bakaða rétti, á pítsur og svo auðvitað í sós­urn­ar.

Útlitsgallar á mygluostum skaðlausir neytendum

14.05.2020 | Útlitsgallar á mygluostum skaðlausir neytendum

Eins og einhverjir viðskiptavinir hafa tekið eftir þá hefur örlítið borið á því að blá mygla hafi vaxið fram á hvítmygluostum frá MS, en þetta á t.d. við um osta á borð við Dala Camenbert, Dala Brie, Auði og Dala hring. Búið er koma í veg fyrir vandamálið en ennþá gætu einhverjir ostar verið í verslunum sem fá á sig bláa bletti þegar líður á stimpilinn.

Um er að ræða samskonar blámyglu og er í ostunum Ljót, Bláum Kastala og öðrum blámygluostum en því miður varð smit frá þeim yfir í hina. Gallinn er með öllu hættulaus og fyrst og fremst sjónrænn. Mjólkursamsalan biður neytendur innlega velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

Aðstoð

Hvernig getum við aðstoðað?