Fréttir

17.01.2020 | MS svarar kalli Ketó-aðdáenda með rifnum cheddar osti

Lágkolvetna- og Ketó-mataræði hefur verið sérstaklega vinsælt á Íslandi síðustu misseri og þar leika hinir ýmsu ostar stór hlutverk því þeir eru alla jafna án kolvetna. Einn af þeim ostum sem eru í uppáhaldi hjá stórum hluta þessa hóps er Óðals Cheddar og er því gaman að segja frá því að MS hefur svarað kalli neytenda með því að bjóða nú upp á rifinn cheddar ost í 200 g pokum.

16.01.2020 | Vikumatseðlar og vinsælar uppskriftir á gottimatinn.is

Ertu alltaf að elda sömu réttina og langar að prófa eitthvað nýtt? Vantar þig hugmyndir og innblástur að góðum mat sem hentar stórum sem smáum? Ertu ástríðukokkur og leggur mikið á þig til að finna nýjar og spennandi uppskriftir? Heimsókn á uppskrifasíðu MS, gottimatinn.is, er í öllum tilvikum góður staður til að byrja á, en þar er að finna stærsta uppskriftasafn landsins og í hverri viku bætast nýjar við. Kíktu í heimsókn!

20.12.2019 | Jólakveðja frá Mjólkursamsölunni

Mjólkursamsalan og eigendur hennar, íslenskir kúabændur, óska landsmönnum öllum árs og friðar. Við þökkum fyrir viðskiptin á árinu sem er að líða og vonum að þið njótið hátíðanna í faðmi fjölskyldu og vina. 🎄

17.12.2019 | Ostakörfur eru góð gjöf

Ostakarfa frá MS gómsæt gjöf sem gleður. Ostakörfurnar henta vel sem starfsmannagjafir og sem gjafir til þeirra "sem eiga allt". Kynntu þér úrvalið á ms.is/ostakorfur/korfur

16.12.2019 | Mjólkin gefur styrk

Mjólkursamsalan hefur í ár líkt og undanfarin ár lagt hjálparsamtökum lið fyrir jólin. Að þessu sinni úthlutaði fyrirtækið 2 milljónum króna í formi vöruúttektar til fimm góðgerðarfélaga en félögin sem hlutu styrk í ár voru Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og Fjölskylduhjálp Íslands. Rúmlega þúsund matargjafir fara frá félögunum fyrir jól en það er meðal annars mjólk, smjör og ostar sem fer í gjafirnar. Mikið og þarft starf er unnið á fjölmörgum stöðum á landinu og er það von Mjólkursamsölunnar að styrkirnir nýtist sem best.

21.11.2019 | Ísey skyr skákhátíð

Ísey skyr skákhátíðin fer fram á Selfossi dagana 19.-29. nóvember, en eins og nafnið gefur til kynna er Mjólkursamsalan stoltur styrktaraðili hátíðarinnar. Aðalviðburður hátíðarinnar er skákmót tíu heimsmeistara, karla og kvenna, en allir þátttakendur hafa orðið heimsmeistarar í skák í einhverjum flokki. Í hópnum eru þrír íslenskir heimsmeistarar og sjö erlendir. Íslensku keppendurnir eru þeir Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Helgi Áss Grétarsson. Meðal erlendu keppendanna eru ungu skákkonurnar Dinara Saduakassova frá Kasakstan og Sarasadat Khademalsharieh frá Íran en þær eru taldar meðal bestu skákkvenna í heimi.

15.11.2019 | Til hamingju með dag íslenskrar tungu

Mjólkursamsalan sendir landsmönnum öllum hamingjuóskir í tilefni dags íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Dagurinn er haldinn hátíðlegur ár hvert og er hann fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, eins ástsælasta ljóðskálds Íslendinga. Í ár heiðrum við sérstaklega nokkra af þeim fjölmörgu rithöfundum, tónlistarmönnum og -konum sem gera íslensku hátt undir höfði í listsköpun sinni og hvetjum um leið aðra til að leggja rækt við móðurmálið og nota íslenskuna sem víðast, því henni eru engin takmörk sett.

15.11.2019 | Hátíðardagskrá á degi íslenskrar tungu

Áhrifarík hátíðardagskrá í Gamla bíó á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember þar sem listamenn á öllum aldri beina athyglinni að tungumálinu. Húsið opnar klukkan 15 en dagskráin hefst kl. 15.30. Andi Jónasar Hallgrímssonar svífur yfir vötnum en meðal þeirra sem fram koma eru Jakob Birgisson, uppistandari, tónlistarmennirnir GDRN, Auður og Hundur í óskilum, samfélagsmiðlastjarnan Villi Netó og leikkonan Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Hátíðardagskránni lýkur með því að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra afhendir sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir

12.11.2019 | Landstilboð á Góðosti 26%

Hafið er landstilboð á Góðosti 26% í kg bitum og sneiðum. Verðlækkunin er 20% og verður afsláttarmiði á öllum pakkningum á meðan birgðir endast.