Beint í efni
En

Gerum vel við bragðlaukana og njótum osta í Ostóber

Besti tíminn til að gera vel við bragðlaukana er á íslenskum ostadögum í október en Mjólkursamsalan hefur í sjö ár haldið októbermánuð hátíðlegan undir yfirskriftinni Ostóber – tími til að njóta osta. Lögð er rík áhersla á að fagna gæðum og fjölbreytileika íslenskra osta og eru landsmenn hvattir til að borða sína uppáhaldsosta, smakka nýja, para osta saman við alls kyns meðlæti og prófa sig áfram með osta í matargerð.

„Ostóber er án efa einn af uppáhaldsmánuðum okkar í MS því hvað er betra en að hafa það huggulegt heima í haustlægðunum og njóta osta með fjölskyldu og vinum,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri MS. „Ostóber er eins konar uppskeruhátíð ostagerðar og vöruþróunar hjá MS og leggjum við mikla áherslu á að bjóða ostaunnendum landsins eitthvað nýtt og spennandi á hverju ári.“

Ostabakkar eru ómissandi þegar halda skal veislu.
Ostabakkar eru ómissandi þegar halda skal veislu.

Spennandi ostanýjungar
Í Ostóber kynnir MS til leiks spennandi ostanýjungar þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, enda eins ólíkar og þær eru margar. „Fyrst ber að nefna tignarlega ostinn Dala Lávarð sem er þéttur og bragðgóður hvítmygluostur sem minnir einna helst á Brie en er þéttari í sér og því skeranlegur með ostaskera. Úr Ostakjallaranum kemur svo Eldur með chili en þar er á ferðinni kröftugur ostur sem sameinar mýkt og mikið bragð. Næst ber að nefna Gotta ostastangir sem eru hollar og bragðgóðar ostastangir, fullar af næringu og orku fyrir fólk á öllum aldri og skornar þannig að þær eru tilvaldar beint í munninn eða í nestisboxið,“ segir Gréta.

Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri MS
Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri MS

„Þessu til viðbótar viljum við vekja sérstaka athygli á ostum sem komu á markað fyrr á árinu en það eru rjómaostur með hvítu súkkulaði og litlar burrata kúlur sem koma tvær saman í dós. Rjómaosturinn er silkimjúkur og rjómakenndur og tilvalinn á kökur og kanilsnúða og hentar frábærlega í ostakökur og litlu burrata kúlurnar eru dásamlegar ofan á pizzur og smakkast einstaklega vel með tómötum, pestó og fíkjum. Þá má ekki gleyma Dala Auði með chili sem vakti mikla lukku í Ostóber síðustu tvö ár og er nú komin í fast vöruúrval hjá okkur.“ Áhugasamir geta kynnt sér vörunýjungar og fjölbreytt úrval osta á ms.is

Ljúffengir ostar henta við hin ýmsu tilefni.
Ljúffengir ostar henta við hin ýmsu tilefni.

Ostasmakk vekur víða lukku

MS býður upp á sérstakar ostakynningar í fjölda fyrirtækja og völdum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri í Ostóber þar sem gestir og gangandi geta gætt sér á bragðgóðum ostum og fengið aðstoð við að velja hvað er best að para með ólíkum ostum þegar setja á saman ostabakka. Bjarki Long, sölufulltrúi hjá MS og sérlegur ostasérfræðingur segir Ostóber án efa vera einn af hápunktum ársins hjá teyminu. „Sérstökum ostakynningum í fyrirtækjum hefur fjölgað jafnt og þétt í Ostóber síðustu ár en þar er starfsfólki boðið upp á ostasmakk og fróðleiksmola um íslenska osta,“ segir Bjarki. „Heimsóknirnar eru gríðarlega vinsælar og stutt í að mánuðurinn verði fullbókaður í fyrirtækjaheimsóknir en okkur þykir ótrúlega skemmtilegt að kynna ostana okkar fyrir fólki á þennan hátt og er alls staðar vel tekið.“ Fjöldi veitingastaða tekur enn fremur þátt í ostahátíðinni með MS og nota margir hverjir tækifærið og bjóða upp á sérstaka ostarétti á matseðlum sínum sem vekja jafnan mikla lukku hjá viðskiptavinum.

Harpa Hrönn Gunnarsdóttir, sölufulltrúi MS
Harpa Hrönn Gunnarsdóttir, sölufulltrúi MS

Ostakarfa er gómsæt gjöf sem gleður

Í Ostóber opnum við enn fremur ostakörfuverslun MS en ostakörfur eru gómsætar gjafir sem henta einstaklega vel þegar gleðja á starfsmenn, viðskiptavini, fjölskyldu og vini í aðdraganda jólanna. Harpa Hrönn Gunnarsdóttir, sölufulltrúi hjá MS, hefur yfirumsjón með ostakörfugerðinni og á milli þess sem hún kynnir nýja osta í Ostóber er hún farin að huga að jólunum. „Það er alltaf gaman að fá nýjan ostakörfubækling í hendurnar og setja ostakörfuverslunina okkar í loftið en það þýðir einfaldlega að við getum byrjað að telja niður dagana til jóla,“ segir Harpa. „Við bjóðum nú sem fyrr upp á fjölbreytt úrval ostakarfa til fyrirtækja og einstaklinga en gjafakarfa með íslenskum ostum og sérvöldu meðlæti er gómsæt gjöf sem gleður í aðdraganda jólanna og hægt er að skoða allt úrvalið okkar á ms.is.“ Þá hefur færst í aukana að fyrirtæki og einstaklingar vilji bæta við annarri matvöru, víni eða gjafavöru í körfurnar og tekur Harpa það sérstaklega fram að það sé meira en sjálfsagt að verða við slíkum óskum og slík viðbótarþjónusta sé viðskiptavinum að kostnaðarlausu. „Það er tilvalið að huga tímanlega að jólagjöfum starfsmanna því jólin verða komin áður en við vitum af og þá eru sölufulltrúar MS ætíð tilbúnir til að svara fyrirspurnum í síma 450-1111 eða á netfanginu ostakorfur@ms.is,“ segir Harpa.

Ostakörfur MS eru sannkallaðar sælkeragjafir
Ostakörfur MS eru sannkallaðar sælkeragjafir

Mjólkursamsalan hvetur landsmenn til að fagna fjölbreytileika og gæðum íslenskrar ostagerðar með því að taka þátt í Ostóber því nú er svo sannarlega rétti tíminn til að njóta osta.