
Gefum orðunum vængi með Fernuflugi - textasamkeppni grunnskólanema
Mjólkursamsalan hefur frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hafa mjólkurfernurnar t.a.m. verið nýttar sem vettvangur málræktar, tjáningar og sköpunar á fjölbreyttan og eftirminnilegan hátt.
Nú eru tvö ár liðin síðan textasamkeppnin Fernuflug var endurvakin meðal nemenda í 8.-10. bekk og er skemmst frá því að segja að þátttakan hafi farið fram úr okkar björtustu vonum. Yfir 1.200 textar bárust frá nemendum um land allt og voru 48 textar valdir til birtingar á mjólkurfernum okkar.
Við köllum nú eftir nýjum textum sem birtir verða á mjólkurfernum MS í upphafi árs 2026 og hvetjum grunnskólanema í 8.-10. bekk til að taka þátt og senda okkur sinn texta fyrir 30. september 2025.
Yfirskrift Fernuflugs 2025 er sú sama og síðast, eða „Hvað er að vera ég?“ en okkur þótti einstaklega dýrmætt að fá smá innsýn í líf unga fólksins og fá þau til að velta þessari stóru spurningu fyrir sér. Gert er ráð fyrir að allt að 50 höfundar fái viðurkenningu og efni birt á milljóna mjólkurferna.
Vegleg verðlaun verða veitt fyrir þrjá bestu textana að mati dómnefndar en 1. sæti hlýtur 300.000 kr., 2. sæti 200.000 kr. og 3. sæti 100.000 kr.
Með þessu verkefni vill MS halda áfram að stuðningi sínum við íslenska tungu um leið um leið og ungt, skrifandi fólk er hvatt áfram í viðleitni sinni til að fanga hugmyndir í texta, lýsa tilvist sinni og leyfa sér að bregða á leik með orðin.
Nánari upplýsingar hafa verið sendar í grunnskóla landsins og má enn fremur finna á vefsíðu verkefnisins ms.is/fernuflug