Beint í efni
En

Fernuflug

MS hefur ákveðið að endurvekja íslenskuátakið Fernuflug og efnir nú til nýrrar samkeppni um texta á mjólkurfernur meðal nemenda í 8.-10. bekk í september. Gert er ráð fyrir að allt að 60 höfundar fái viðurkenningu og efni sitt birt á milljónum mjólkurferna. Vegleg verðlaun verða enn fremur veitt höfundum þriggja bestu textana að mati dómnefndar en 1. sæti hlýtur 300.000 kr., 2. sæti 200.000 kr. og 3. sæti 100.000 kr.

Síðasti skiladagur á textum er 30. september 2023.

Taktu þátt í samkeppni sem gæti komið þér á flug!

1. verðlaun: 300.000 kr.
2. verðlaun: 200.000 kr.
3. verðlaun: 100.000 kr.

Efni í keppnina skal skilað undir dulnefni. Dulnefnið skal skrifað skýrum stöfum aftan á bakhlið blaðsins með textanum. Efninu fylgi lokað umslag, merkt sama dulnefni og í því skulu vera upplýsingar um fullt nafn höfundar, aldur, skóla, símanúmer og/eða netfang kennara/forráðamanns. Textar skulu sendir á Mjólkursamsöluna, Bitruhálsi 1, 110 Reykjavík og umslögin merkt Fernuflugi.

Skilafrestur: 30. september 2023

Víða er lesmál sem grípur augað og hafa mjólkurfernur verið hluti af því sem landinn les af, gjarnan við matarborðið. Mjólkursamsalan hefur um langa hríð lagt íslenskri tungu lið og nýtt mörg tækifæri til að vekja athygli á því hvað það getur verið gaman að leika sér, skapa og nota íslenskt mál á sem fjölbreytilegastan máta.

Senn munu fernurnar frá Mjólkursamsölunni hefja sig til flugs á ný. Í upphafi árs 2024 taka að birtast framúrskarandi textar úr samkeppni sem haldin er meðal grunnskólanema. Þetta verður vonandi öllum til skemmtunar og fræðslu en ekki síður til eflingar málinu sem við eigum öll saman.

Fleyg orð er að finna í bókmenntaarfinum en í fernufluginu munu heyrast nýjar raddir. Enda er verkefnið hugsað sem hvatning til þess að fleiri gefi orðunum vængi og styrki þannig undirstöður þessa tungumáls sem er dýrmætt í sjálfu sér, meðal annars vegna þess hversu fágætt það er.

Vonast er til þess að textarnir eftir höfundana ungu veki lesendur til vitundar um hvernig viðhorf okkar til málsins hafa áhrif á hvernig það dafnar.

Með því að sem flest, skrifi, tali og skapi á íslensku á tungumálið okkar bjarta framtíð. Tungumál lúta nefnilega öðrum lögmálum en flest annað í veröldinni og eflast bara og styrkjast eftir því sem þau eru meira notuð.

Eva María Jónsdóttir, varaformaður Íslenskrar málnefndar

Þátttakendur eru beðnir að skrifa stuttan texta undir yfirskriftinni „Hvað er að vera ég?“ Hæfileg lengd samfellds texta er 60-80 orð en að hámarki 100 orð eða 15-20 línur í bundnu máli. MS áskilur sér rétt til að birta brot úr textunum á fernunum ef þeir rúmast ekki í heild sinni.

Textinn getur verið í því formi sem hverju og einu hentar: örsaga eða örleikrit, ljóð, óformleg hugleiðing eða hnitmiðuð yfirlýsing svo að nokkur dæmi séu tekin. Þátttakendur eiga ekki að skila inn myndefni með textunum sínum en búast má við að textarnir sem valdir verða til birtingar á fernunum verði myndskreyttir. Best er að textanum sé skilað með tölvuútprenti en sé skriftin skýr og læsileg má skila inn handskrifuðum texta.

Kennurum er velkomið að aðstoða nemendur við frágang efnisins, t.d. vegna réttritunar, málfars, uppbyggingar, frásagnar o.s.frv. Sérstaklega eru kennarar beðnir um að aðstoða þá nemendur sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Með því að gefa grunnskólanemum tækifæri til að velta fyrir sér og svara þessari spurningu vonumst við til að skapa megi skoðanaskipti milli nemenda, kennara, fjölskyldu og vina um það sem koma kann upp í hugann í leitinni að því svari sem hvert og eitt upplifir sem sitt rétta. Sömuleiðis má ætla að vinnan, sem lögð er í leit af þessu tagi, skili sér síðar í meiri meðvitund og skilningi á umhverfi sínu og öðru fólki. Vissulega eru engin svör röng eða rétt í samkeppni af þessu tagi og geta þau verið skemmtileg, sannfærandi, óvænt, hrífandi, einlæg, kröftug, lúmsk eða sláandi einföld, hvert á sínum forsendum. Umfram allt verða þau að vera sönn fyrir það sem skrifar.

Það hefur líklega aldrei verið mikilvægara en nú, á tímum ofgnóttar áreitis og samanburðar, að þekkja eitthvað til eiginleika sinna og áhugasviða. Með Fernufluginu viljum við gefa unga fólkinu okkar tækifæri til að leita inn á við og hvetja þau til að kynnast sjálfu sér í raunverulegu samhengi við umhverfi, náttúru og annað fólk.

Engar reglur eða rammi eru settar á nálgun nemendanna á verkefninu en það má leggja upp með ýmsar og ólíkar spurningar til að koma þeim af stað í textasmíðinni. Hér eru nokkur dæmi en vert er að taka fram að það þarf ekki að notast við neitt þeirra.

 • Hver var ég, hver er ég eða hver vil ég verða?
 • Hvaða hlutverki/um gegni ég í lífinu, er ég sama manneskjan í þeim öllum?
 • Hvernig er ég stundum og hvernig er ég alltaf?
 • Hvað höfum við í okkur núna sem gæti nýst okkur um alla framtíð?
 • Ef ég væri dýr, hvaða dýr væri ég og hvers vegna?
 • Hvað er annað fólk stór hluti af mér?
 • Hvar eru landamærin á milli mín og umhverfisins?
 • Er ég sá/sú/það sem ég sé í speglinum eða er ég kannski einhver/eitthvert sem ég hef aldrei hitt?

Við mat sitt mun dómnefnd einkum horfa til eftirfarandi:

 • Hvað er verið að segja? Er innihaldið áhugavert eða vekjandi, hrífandi, einlægt, djarft, óvænt? (Athugið að taka ekki slíka upptalningu of bókstaflega, hér er aðeins verið að gefa dæmi um þætti sem geta haft áhrif á mat dómnefndar en þeir eru vissulega misjafnir, allt eftir eðli textans.)
 • Einlægni. Notar nemandinn sína eigin rödd? Er um persónulega sýn að ræða, finnur lesandinn fyrir raunverulegu hjarta að baki textanum?
 • Skýrleiki. Skilar innihaldið sér á sannfærandi hátt? Er hugsunin skýr og tær?
 • Málnotkun. Er kröftugt krydd eða leikur í textanum, skemmtilegur snúningur, óvænt orðanotkun eða hrífandi einfaldleiki? Og allt á íslensku?

Efni í keppnina skal skilað undir dulnefni. Dulnefnið skal skrifað skýrum stöfum aftan á bakhlið blaðsins með textanum. Efninu fylgi lokað umslag, merkt sama dulnefni og í því skulu vera upplýsingar um fullt nafn höfundar, aldur, skóla, símanúmer og/eða netfang kennara/forráðamanns. Textar skulu sendir á Mjólkursamsöluna, Bitruhálsi 1, 110 Reykjavík og umslögin merkt Fernuflugi.

Gert er ráð fyrir að innan hvers skóla verði efni nemenda safnað saman og því skilað til MS, Bitruhálsi 1, 110 Reykjavík, eigi síðar en 30. september 2023 en þátttakendum er einnig heimilt að senda efni sitt til MS án milligöngu skóla eða kennara. Tíminn er stuttur og knappur og því ekki eftir neinu að bíða.

Þátttakendum er heimilt að senda inn ótakmarkaðan fjölda texta en MS áskilur sér rétt til að takmarka fjölda viðurkenninga handa hverjum höfundi og sömuleiðis það efni sem eftir hann birtist. Efni, sem valið er til notkunar á mjólkurfernum, verður birt ásamt nafni höfundar, skóla og sveitarfélagi.

Úrslit verða tilkynnt á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og stefnt er að því að efnið birtist fyrst á mjólkurfernum MS í byrjun árs 2024.

Höfundar þess efnis, sem valið verður til birtingar á mjólkurfernum, hljóta viðurkenningu en að auki verða vegleg peningaverðlaun veitt fyrir þrjá bestu textana að mati dómnefndar þar sem 1. sæti hlýtur 300.000 kr., 2. sæti 200.000 kr. og 3. sæti 100.000 kr. Vert er að taka fram að verðlaunaféð rennur óskipt til höfundanna.

Sérstakur verndari keppninnar er Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra Íslands og á hann jafnframt sæti í dómnefnd ásamt fulltrúum frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Íslenskri málnefnd og starfsfólki í markaðsdeild Mjólkursamsölunnar.

Mjólkursamsalan hefur frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hafa stærstu og sýnilegustu verkefni okkar verið íslenskuátökin á mjólkurfernum MS. Mjólkurfernurnar hafa þannig verið nýttar sem vettvangur málræktar, tjáningar og sköpunar og er það okkar einlæg von að nýtt Fernuflug ýti undir sköpunargleði grunnskólanema og verði til þess að skapa lifandi umræðu um tungumálið sem er okkur öllum svo kært.