Beint í efni
En

Ostóber – tími til að njóta osta

Þá er hann loksins mættur, uppáhalds mánuður íslenskra ostaunnenda – Ostóber - íslenskir dagar í október. Mjólkursamsalan hleypti verkefninu af stað fyrir sex árum síðan og sífellt fjölgar fyrirtækjum og veitingahúsum sem taka þátt í Ostóber hátíðarhöldum þar sem ostum er veitt sérstök athygli og óhætt að segja að ostamánuðurinn mikli hafi fest sig rækilega í sessi.

Ostóber er góður tími til að fagna fjölbreytileika og gæðum íslenskrar ostagerðar. Mjólkursamsalan hvetur alla landsmenn og sérstaklega ostaunnendur til að borða sína uppáhaldsosta, smakka nýja og prófa sig áfram með notkun þeirra á fjölbreyttan hátt.

Eitt það skemmtilega við Ostóber er að þá eru kynntir nýir ostar sem oft hafa verið mánuði og ár í vöruþróun. Þannig hefst nú í fyrstu viku október sala á fjórum ostum sem eru einskiptis framleiðsla í tilefni ostadaganna og því einungis til í takmarkaðan tíma. Dala Auður með chili sem sló í gegn í fyrra er væntanleg í verslanir, einnig Frostós frá Ostakjallaranum sem var í sölu fyrir tveimur árum en þessir tveir ostar unnu hjarta og bragðlauka fólks. Síðan eru tveir glænýir ostar sem við hlökkum mikið til að kynna til leiks. Þetta er Hektor með jalapeno frá Ostakjallaranum og síðast en ekki síst Dala Stout gráðaostur sem er þroskaður í Garúnu Imperials stout frá Borg brugghúsi. Allir þessir ostar eru einstakir og frábær upplifun hver á sinn hátt og því um að gera að grípa þá meðan þeir verða til.

Við hlökkum til að færa ykkur fréttir og glænýjar uppskriftir og hvetjum ykkur til að fylgjast vel með hér á ms.is og gottimatinn.is þar sem finna má stórt og mikið uppskriftasafn með íslenskum ostum. Einnig munum við taka saman yfirlit yfir alla veitingastaði sem verða með sérrétti og uppákomur tengt Ostóber. Nú er sannarlega tími til að hóa í vini og ættingja og njóta samverustunda og osta.

Nánar um Ostóber