Beint í efni
En

MS efnir til textasamkeppni meðal grunnskólanema

Mjólkursamsalan hefur frá árinu 1994 beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins með fjölbreyttum leiðum og hafa stærstu og sýnilegustu verkefni okkar verið sérstök íslenskuátök á mjólkurfernum MS. Markmið átakanna hefur ávallt verið að rækta móðurmálið og draga fram fjölbreytileika íslenskunnar á skemmtilegan hátt og er því gaman að segja frá því ákveðið hefur verið að blása lífi í textasamkeppnina Fernuflug meðal nemenda í 8.-10. bekk nú í upphafi nýs skólaárs en keppnin var síðast haldin árið 2006.

Yfirskrift Fernuflugsins er „Hvað er að vera ég?“ og geta þátttakendur skrifað ljóð, örsögu, óformlega hugleiðingu eða hnitmiðaða yfirlýsingu svo dæmi séu tekin.

Veitt verða vegleg peningaverðlaun fyrir þrjá bestu textana að mati dómnefndar en 1. sæti hlýtur 300.000 kr., 2. sæti 200.000 kr. og 3. sæti 100.000 kr. og rennur verðlaunaféð óskipt til höfunda textanna.
Í heild verða 60 textar valdir til birtingar á mjólkurfernunum ásamt nöfnum höfunda en við áskiljum okkur rétt til að birta brot úr textunum á fernunum ef þeir rúmast ekki í heild sinni.

Nánari upplýsingar hafa verið sendar í grunnskóla landsins og má enn fremur finna á vefsíðu verkefnisins ms.is/fernuflug