Úr fórum meistarans
Óðalsostar eru íslenskir gæðaostar sem eiga uppruna að rekja til alþjóðlegra framleiðsluhefða en þeir eiga erlenda samheitaosta sem teljast flestir til bragðmeiri osta eða eru með önnur sérkenni í bragði en aðrir bragðmildir brauðostar. Þeir eru fjölbreyttir og fullkomnaðir með besta hráefni sem völ er á, hágæða íslenskri kúamjólk. Óðalsostar eru fjölbreyttir að lit, byggingu og kúltúr sem henta fyrir fjölbreytta notkun og tilefni.
Ostagerð er mikilvægur hluti af matarmenningu heimsins og flest nágrannalönd okkar státa af sínum einstöku og sérstöku ostum. Þó íslensk ostagerð hafi verið stunduð frá landnámi þá náði hún seint að komast til þroska og menningar hér á landi en það var einfaldlega ekki til næg mjólk í landinu til að búa til séríslenska osta lengi vel.
Vissir þú ...
... að Óðalsostar eru eins og gott vín. Sömu lögmál gilda um rauðvín og osta. Við lengri lageringu verða flest vín og ostar betri. Ostur er "lifandi afurð" og því þroskast ostur og verður bragðmeiri með aldrinum. Misjafn smekkur fólks segir til um hvenær því finnst osturinn bragðast best.
... að allir ostar eru merktir með síðasta söludegi en í flestum tilvikum endast Óðalsostar mikið lengur en dagsetningin segir til um í vel lokuðum umbúðum.
... að ef þú ert að fara að nota allan ostinn á einum degi t.d. á ostabakka þá er mjög gott að taka hann út úr kæli 1-2 klukkustundum og leyfa honum að ná stofuhita í lokuðum umbúðum áður en hann er borinn fram. Osturinn verður mýkri og bragðmeiri.
BÚRI
Búri er einstaklega ljúfur og mjúkur ostur. Hann er smjörkenndur með vott af ávaxtasætu, ljúfum sítrustón í lokin og langvarandi eftirbragði. Erlend fyrirmynd Búra er danskur rjóma Havartí ostur sem athafnakonan Hanne Nielsen þróaði um miðja 19. öld á býli sínu "Havarthigaard" fyrir norðan Kaupmannahöfn. Rjómakennd einkenni hans parast vel með sætum ölrítið sýrðum ávöxum, berjum og kryddsultum. Mjög gott er að bræða hann í fondue, raclette og ostaídýfur. Berðu hann t.d. fram með dísætum ananas, þurrkuðum trönuberjum og möndlum. Hráskinkuvafnir bitar af Búra með basil henta vel með fordrykknum og renna ljúflega saman svo bragðlaukarnir dansa.
CHEDDAR
Cheddar er laglegur ostur sem kinkar kumpánlega kolli til bróður síns sem nefndur er eftir samnefndum bæ í Somerset á Englandi. Vinsældir Cheddar osts eru slíkar að í dag er hann mest seldi ostur í heimi. Óðals Cheddar er þéttur í sér, kornóttur, eilítið þurr í munni en mildur á bragðið með vott af beikon- og kryddjurtabragði. Í lokin laumast fersk, eilítið sýrð ávaxtasæta fram í munninum í lokin. Cheddar er mjög skemmtilegur matargerðarostur, sérstaklega í bakstur og á hamborgara en hann passar einnig á ostabakka með kjötmeti.
HÁVARÐUR
Hávarður er einstaklega fjölhæfur ostur og því afar vinsæll. Hann er íslensk útgáfa af Havarti sem er einn þekktasti ostur Dana. Hann var þróaður um miðja 19. öld af hinni frægu dönsku ostagerðarkonu Hanne Nielsen og nú hafa Danir fengið upprunaverndun á ostinum og nafninu svo nú heitir hann Hávarður. Hávarður er einstaklega mildur, ljúfur og svolítið smjörkenndur ostur. Hann verður skarpari með aldrinum og örlar á votti af sætu heslihnetubragði. Fjölhæfni hans er mikil. Hann er góður sem álegg og í matargerð, en einnig einstaklega ljúfur með góðum fordrykk eða á desertbakka með mjúkum ferskum döðlum og grænum og gulum eplaskífum. Prufaðu einnig að smyrja sinnepi á hann og velta upp úr valhnetum og ferskjum. Hann er ljúfur á samlokur og bráðnar fallega.
HÁVARÐUR KRYDD
Hávarður með kryddi er fjörugri og litríkari en eldri nafni hans, enda tekinn skrefinu lengra og bragðbættur með sætri papriku og smá piparaldin. Hann er því einnig náskyldur hinum danska Havarti. Þessi ostur er í senn ljúfur, mildur og smjörkenndur en kryddin lyfta honum síðan upp svo hann er skemmtilegur og vinsæll í partíum, með nachos og á steikarsamlokur. Einnig sómir hann sér einstaklega vel skorinn í teninga ofan á kartöflusalati.
GOUDA STERKUR
Íslenskur Gouda-ostur hefur verið á boðstólum á Íslandi frá árinu 1961. Fyrirmynd ostsins er hinn frægi Gouda, frá samnefndum bæ í suðurhluta Hollands. Gouda sterkur er látinn þroskast í sex mánuði áður en honum er pakkað. Hann er í senn mjúkur, bragðmikill og þroskaður ostur með skörpu bragði, sveppatónum og kryddkeimi með langvarandi eftirbragði. Sterkur Gouda hentar við flest öll tækifæri, hvort sem er á ostabakkann eða til að setja punktinn yfir i-ið í matargerðinni. Berðu hann fram með þurrkuðum apríkósum og fíkjum eða apríkósusultu.
ÍSBÚI
Ísbúi er herralegur fyrir þá sem hafa þroskaðri bragðlauka og fellur vel í kramið hjá flestum sem elska bragðmikla erlenda osta. Hann er bragðmikill með flauelsmjúka áferð og afar margslungið bragð sem er í senn grösugt og kjötkennt með ávaxtasætu í endann. Erlend fyrirmynd Ísbúa er hinn vinsæli Danbo ostur í Danmörku. Ísbúi parast jafnvel með sætu og söltu meðlæti þannig er milt hunang, hnetur og púrtvínssoðnar perur sælgæti með Ísbúa. Ísbúi er virkilega skemmtilegur í partíum og veislum en gæta þarf að því að hann getur lyktað svolítið. Hann er einnig vinsæll í raclette með súrum gúrkum, nýsoðnum kartöflum, skinku og ólífum auk þess sem hann er ómissandi í kartöflugratín tartiflette að hætti Frakka með kartöflum, rjóma og beikonbitum.
MARIBÓ
Maribó er þéttur og bragðmildur ostur með vott af valhnetukeim. Hann þekkist gjarnan á hlýlega appelsínugula litnum sem á uppruna að rekja í annatto fræ sem eru mikið notuð í suður-ameríska matargerð. Maribó fer ungur á markað og er því mjög bragðmildur en er afar vinsæll á hamborgara og heitar samlokur. Þetta er frábær ostur í kartöflugratín eða á hádegishlaðborðið. Á Íslandi er hann vinsælli í matargerð en sem álegg og er t.a.m. frábær sem fylling í kjúkling með stökku beikoni, í ostabrauðbollur og á "antipasti" bakka.
ÓÐALSOSTUR
Óðalsostur er tignarlegur ostur sem er mildur á bragðið en skynja má sætan möndlukeim og skarpa grösuga tóna. Oft á tíðum er osturinn með stórum götum og því er hann oft mjög vinsæll í myndatökur þegar ímynd osta er í fyrirrúmi. Óðalsostur er frábær á morgunverðarborðið, hádegishlaðborð, í bitum t.d. með smá dijon sinnepi en einnig góður einn og sér. Óðalsostur hefur verið á borðum landsmanna frá árinu 1972 en fyrirmynd hans er Jarlsberg, þekktasti ostur Norðmanna. Óðalsostur er tilvalinn fyrir dögurði og hádegisboð og upplagt bera fram með niðursneiddu kjötmeti, perpperóní, grilluðu grænmeti, góðu salati og brauði. Ef þú kýst einfaldleikann þá er um að gera að setja tvö lög af Óðalsosti á ristaða beyglu með sólþurrkuðum tómötum og ferskri basilíku.
TINDUR
Tindur er höfðinglegur ostur sem hefur heillað þjóðina en hann er framleiddur í Skagafirði og sækir nafn sitt til fjallsins Tindastóls. Tindur er einstakur ostur sem hefur fengið drjúgan þroskunartíma til að lagerast þar til hinu einkennandi þétta en sæta bragði hefur verið náð. Óðals Tindur er sérstaklega bragðmikill, hæfir við ýmis tækifæri og er dásamlegur einn og sér. Hann parast vel með sterku bragði þar sem hann lætur fátt yfirgnæfa sig. Tindur er vinsæll með fordrykknum og á ostabakka með hunangsristuðum möndlum eða kryddaðri hnetublöndu og þroskuðum perum. Það er mjög gott að rífa hann fyrir alls kyns matargerð, bræða hann í fondue og nota hann á steikarsamlokur og hamborgara.
Minna er stundum meira. Oft er gott að bera fram einn ost með viðeigandi meðlæti svo bragðið fái að njóta sín. - Ekki vanmeta einfaldleikann.
Val á víni og bjór með Óðalsostum
Óðalsostar parast einstaklega vel með víni og bjór og góð pörun getur orðið hin ánægjulegasta upplifun. Vínráðgjafar hafa tekið saman góðan lista sem hægt er að styðjast við en gott er að hafa í huga að það er um að gera að prufa sig áfram því það er aldrei að vita nema maður uppgötvi nýja og frábæra pörun.
- Búri
Miðlungssætt freyðivín eða ávaxtaríkt Sauvignon Blanc frá Nýja Sjálandi.
Ávaxtabættir bjórar s.s. Kriek, Lambic frá Belgíu og hinn íslenski Sæmundur - Gouda sterkur
Bragðmikill osturinn bragðast vel með víni. Hann þolir kröftug og bragðmeiri vín en mildari ostar. Í hvítu deildinni má nafna Viognier, Chenin Blanc og þurrt Riesling. Góð rauðvín eru til að mynda Beaujolais og Cote du Rhones, en einnig er tilvalið að prufa ykkur áfram með Shiraz þrúgum.
Pörun með bjór reynist góð með vönduðum pilsnerum og hveitibjórum. - Ísbúi
Létt og sæt Gewürztraminer, Riesling og jafnvel Pinot Gris parast einstaklega vel með honum. Prufaðu einnig að smakka hann með sætu desertvíni eða púrtvínsdreitli við hátíðleg tækifæri. Chianti og Pinot Noir rauðvín smakkast vel með honum.
IPA bjórar (Indian pale ale) sem hafa sterkan humlakarakter eru bragðgóðir með Ísbúa. Einnig má prufa stout eða porter en við mælum ekki með Imperial stout þar sem hann hefur of mikið áfengi og bragðstyrk sem myndi yfirgnæfa ostinn. - Óðalsostur
Hann passar vel með hvítum vínum eins og Sauvignon Blanc, Chenin Blanc, Grüner Veltliner og þurru Riesling. Af rauðvíni má mæla með Chianti, Cotes-Du-Rhone og Beaujolais.
Þýskir Bock-bjórar með sína nettu hunangstóna en einnig allir aðrir maltmiklir lagerbjórar.
- Tindur
Chardonnay, Pinot Gris frá Alsace og Riesling parast vel með margslungnu bragði ostsins. Rauðvín eru meðal annars Beaujolais og Pinot Noir og þegar osturinn eldist og bragðið verður enn kröftugra má einnig prófa Syrah og Merlot.
Óðals Tindur parast afar vel með bjór, sérstaklega hefðbundnum Bock og Trippel bjórum. Einnig er gott a prófa cider með honum, t.d. þurran epla- eða peru cider.