Beint í efni
En

Mjólkursykursóþol

Þeir einstaklingar sem ekki geta melt mjólkursykur teljast vera með mjólkursykursóþol. Mjólkursykur eða laktósa er að finna í flestum mjólkurvörum, en hann er tvísykra sem samanstendur af einsykrunum glúkósa og galaktósa. Auk kúamjólkur er mjólkursykur einnig að finna í móðurmjólk og mjólk annarra spendýra. Nokkuð mismunandi er hve mikla mjólk þeir þola sem hafa mjólkursykursóþol, en þó ættu flestir að geta neytt mjólkur að einhverju marki án óþæginda, eins og fram kemur hér að neðan.

Mjólkursykurinn er brotinn niður af ensíminu laktasa í smáþörmum í einsykrurnar glúkósa og galaktósa, sem eru auðveldlega frásogaðar úr þörmum í líkamann. Sé ensímið ekki til staðar eða ekki í nægilega háum styrk í smáþörmum fer mjólkursykurinn allur eða að hluta til ómeltur niður meltingarveginn í ristil þar sem þarmabakteríur gerja hann. Við gerjunina getur myndast mikið af sýrum, vetnisgasi og metangasi, og óþægindi geta skapast fyrir einstaklinginn og hann fengið uppþembu og vindverki, og jafnvel niðurgang og magakrampa.

Tíðni mjólkursykursóþols

Mjólkursykursóþol er afar algengt í heiminum, talið er að 70% mannkyns sé með mjólkursykursóþol á einhverju stigi. Tíðnin er mjög mismunandi eftir kynþáttum, t.d. er hún talin vera nánast 100% meðal fullorðinna í mörgum löndum Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Tíðnin er lægri í Evrópu og lægst hjá fólki af norrænum uppruna. Af Norðurlöndunum er tíðnin hæst í Finnlandi, eða 6,4%, en lægri í Svíþjóð og Danmörku. Reikna má með að tíðni mjólkursykursóþols sé hvað lægst á Íslandi, en engin rannsóknagögn eru til hérlendis um raunverulega tíðni. Erfðarannsóknir hafa sýnt að gen, sem er að finna í einstaklingum sem eiga ættir að rekja til víkinga, tengist því hve mikið af ensíminu laktasa myndast. Er þess sérstaklega getið að á Íslandi sé hlutfall þessa gens hæst, en hlutfall þess fari síðan landfræðilega minnkandi eftir því sem sunnar dregur í Evrópu. Þetta gen, eða skortur á því, er líklega helsta ástæða þess að stór hluti jarðarbúa á í vandræðum með að melta mikið magn mjólkurmatar í einni máltíð.

Flest ungbörn í heiminum eiga ekki í neinum vandræðum með að melta mjólkursykur og þrífast því vel bæði á móðurmjólk og ungbarnaþurrmjólk. Meðfæddur skortur á laktasa er þó þekktur en afar sjaldgæfur. Hjá þeim sem hafa mjólkursykursóþol minnkar laktasaframleiðslan yfirleitt strax á barnsaldri og er oft komin niður í 5-10% af framleiðslu á fyrsta aldursári hjá börnum við 5 ára aldur.

Greining mjólkursykursóþols

Hægt er að greina mjólkursykursóþol klínískt ef einstaklingur hefur haft vindverki og uppþembu eftir mjólkurneyslu. Staðfesting á að um mjólkursykuróþol sé að ræða með því að láta einstakling neyta ákveðins magns af mjólkursykri og fylgjast með blóðsykri. Hækki hann ekki marktækt eru allar líkur á að um mjólkursykursóþol sé að ræða. Mjólkursykursóþol er einnig hægt að greina með því að mæla vetnisgas í útöndunarlofti sem myndað er af bakteríum í þörmum við niðurbrot á ómeltum mjólkursykrinum.

Mjög misjafnt er hve mikla mjólkurneyslu einstaklingar með mjólkursykursóþol geta leyft sér án óþæginda og má segja að hver og einn verði að prófa sig áfram. Nýlegar rannsóknir sýna þó að flestir hafa mjólkursykursóþol á tiltölulega vægu stigi og þola sem samsvarar ½ til 1 glasi af mjólk með hverri af þremur aðalmáltíðum dagsins. Þó eru til einstaklingar sem þola mjög litla neyslu mjólkursykurs.

Sýrðar mjólkurafurðir innihalda mjólkursýrugerla, sem brotið hafa niður hluta mjólkursykursins, og gætu því verið auðmeltari af þeim sökum. Einnig eru nú á boðstólum ýmsar mjólkurvörur þar sem megnið af mjólkursykri er sérstaklega klofið í einsykrurnar glúkósa og galaktósa og má finna lista yfir þær vörur hér.

Þeir einstaklingar sem ekki geta melt mjólkursykur teljast vera með mjólkursykursóþol. Mjólkursykur eða laktósa er að finna í flestum mjólkurvörum, en hann er tvísykra sem samanstendur af einsykrunum glúkósa og galaktósa.

Allir fastir ostar sem MS framleiðir eru laktósalausir frá náttúrunnar hendi og er þá átt við osta í bitum og sneiðum. Rjómaostar, smurostar og Mysingur innihalda hins vegar mjólkursykur og falla því ekki undir þann flokk. Erlendir ostar sem MS flytur innihalda margir hverjir laktósa og mælum við alltaf með að fólk lesi innihaldslýsingar vel til að vera viss.
Sjá yfirlit yfir laktósalausar vörur MS.