Beint í efni
En

Mjólkin hefur verndandi áhrif á tennurnar

Tennur eru, rétt eins og bein, lifandi vefur þar sem á sér stað stöðugt niðurbrot og uppbygging. Kalk og önnur steinefni mjólkurinnar eru því ekki síður mikilvæg til uppbyggingar tanna eins og beina.
Mjólk virðist hafa margs konar verndandi áhrif á tennur. Til dæmis hlutleysir hún sýrur í munninum og dregur úr leysanleika tannglerungs, auk þess sem hún stuðlar að uppbyggingu glerungsins. Þessi áhrif mjólkur virðast fyrst og fremst til komin vegna kalk og fosfórinnihalds hennar, en að auki koma prótein mjólkurinnar, sérstaklega fosfórprótein (e. caseinophosphopeptides – CPP) við sögu. Þessi prótein geta sest á tannglerunginn og átt þannig þátt í uppbyggingu (e. remineralization) frekar en niðurbroti (e. demineralization) tannglerungs. Ennfremur virðast þau geta haft vaxtarhindrandi áhrif á bakteríur í munninum sem eiga þátt í tannskemmdum, t.d. Streptococcus mutans, og stuðla þannig einnig að bættri tannheilsu.

Tennurnar okkar gegna því mikilvæga hlutverki að tyggja fæðuna og undirbúa hana fyrir meltinguna. Barnatennur gegna líka því hlutverki að mynda pláss fyrir komandi fullorðinstennur.

Það eru mikilvæg lífsgæði fyrir hvern einstakling að hafa heilbrigðar tennur og þar skiptir mestu að temja sér hollar neysluvenjur og góða tannhirðu.

Góð ráð til að viðhalda heilbrigðum tönnum

Burstaðu tennurnar kvölds og morgna.
Borðaðu hollan og góðan mat á matmálstímum.
Drekktu vatn sem svaladrykk.
Borðaðu sem minnst af sætindum.
Veldu þér ávexti, grænmeti eða popp til að borða á milli máltíða.
Farðu reglulega í tanneftirlit.

Sterkar tennur
Við 2ja ára aldur hafa börn venjulega tekið allar barnatennurnar.
Þær byrja að týna tölunni um 6 ára aldur. Þá hefst taka fullorðinstanna sem lýkur með því að endajaxlar koma í ljós um 20 ára aldur.

Harðasta efni líkamans
Glerungur tannanna er hálfgagnsær kalkríkur vefur sem þekur tannbeinið og ver það gegn sýklum og sliti. Hann er harðasta efni líkamans og endurkalkast afar hægt. Með réttri umhirðu, reglulegu eftirliti og góðu mataræði getur tannglerungurinn þó enst alla ævi.

Jafnvel harðasta efni líkamans eyðist sé það látið liggja langtímum saman undir sýruskán. Eftir hverja máltíð, og í hvert skipti sem við drekkum súra eða sykraða drykki, eykst sýrumagnið í munninum. Munngerlar, sem mynda skán á tönnunum, breyta sykri í mat og drykk í sýru sem vinnur smám saman á glerungi tannanna.

Tannslit og tanneyðing
Það er óhugnanleg staðreynd að hjá mörgum íslenskum unglingum er glerungur tannanna orðinn svo slitinn á stórum svæðum að tannbeinið stendur berskjaldað frammi fyrir öllu því álagi sem tennurnar þurfa að þola. Án glerungsins eiga sýklar greiða leið að tannbeininu sjálfu og þá eru tannskemmdir á næsta leiti. Og þar sem mjúku tannbeininu er ekki ætlað að þola álagið sem því fylgir að tyggja matinn er hröð tanneyðing óumflýjanleg þegar glerungsins, nýtur ekki lengur við. Þegar svo er komið getur þurft að smíða dýrar postulínskrónur sem koma í stað glerungsins en jafnast þó aldrei á við hann.