Beint í efni
En

Mjólk er góð vörn gegn beinþynningu

Þó mjólk sé almennt mjög næringarrík felst sérstaða mjólkurmatar aðallega í því að vera ein besta uppspretta kalks sem völ er á. Kalk er einnig að finna í grænmeti, heilum kornvörum og smáfiski þar sem beinin eru borðuð með, en þessi matvæli veita þó mun minna kalk en mjólkurvörur. Í landskönnun á mataræði Íslendinga frá árinu 2002 sést að tæp 70% af kalkneyslunni kemur frá mjólkurvörum (ostar meðtaldir). Mjólkursykur (laktósi) eykur einnig nýtingu á kalki úr þörmum og má því með sanni segja mjólkurvörur besta kalkgjafann.


Magn kalks í líkamanum er í heildina rúmlega 1 kg og er 99% alls kalkforða líkamans að finna í beinum. Bein er lifandi vefur þar sem sífellt á sér stað niðurbrot og uppbygging. Framan af ævinni er uppbygging beina í fyrirrúmi, bein þéttast og styrkjast og er hámarksbeinstyrk eða -beinþéttni náð um eða upp úr tvítugu þegar við höfum náð fullum vexti. Síðan fer beinmassi að minnka og beinin gisna smám saman, mishratt eftir einstaklingum. Hjá sumum verður þessi beingisnun veruleg og er þá talað um að viðkomandi sé með beinþynningu. Konum er mun hættara við beinþynningu en körlum, meðal annars vegna þess tiltölulega hraða niðurbrots á beinvef sem verður í nokkur ár eftir tíðahvörf þegar ekki nýtur lengur við þeirra verndandi áhrifa sem kvenhormónið estrógen hefur á beinagrindina, en framleiðsla þess minnkar mikið við tíðahvörf. Miklu máli skiptir að ná sem mestri beinþéttni á unglingsárum og reyna svo að halda þeirri beinþéttni út ævina. Mataræði er mikilvægur þáttur í forvörnum gegn beinþynningu og er mjólkin þar fremst í flokki þar sem hún er aðalkalkgjafi fæðunnar. D-vítamín er einnig mikilvægur þáttur beinverndar og vinnur náið með kalki í líkamanum. D-vítamín er samt óvíða að finna í matvælum, en helsta uppspretta þess og nánast eina er lýsi. Lýsi er notað af um það bil fjórðungi Íslendinga, en nú er D-vítamíni bætt í ýmsar mjólkurvörur, svo sem Fjörmjólk. Þessi næringarefni er mikilvægt að fá alla ævina, á barnsaldri og unglingsárum til að ná hámarksbeinþéttni og eftir það til að fyrirbyggja beingisnun.


Íslensku ráðleggingarnar um inntöku kalks hljóða upp á 800 mg/dag fyrir börn frá eins árs aldri. Frá 10-17 ára eru ráðleggingarnar 1000 mg/dag, sem og fyrir þungaðar konur og með barn á brjósti. Annars eru ráðleggingarnar 800 mg á dag fyrir fullorðna. Í nýrri íslenskri rannsókn á mataræði 9 og 15 ára barna og unglinga kemur fram að tæplega helmingur 15 ára stúlkna nær ekki ráðlögðum dagskammti í kalki og ennfremur er D-vítamínneysla flestra þeirra langt undir RDS, en D-vítamín er mikilvægt fyrir upptöku kalks. Í ljósi þess að unglingsárin eru mikilvægustu beinmyndunarárin og að konum er hættara við beinþynningu en körlum, er afar mikilvægt að snúa þessari þróun við hjá unglingsstúlkum og almennt að tryggja næga kalk- og D-vítamínneyslu barna og unglinga. Fyrir ungling myndu tvö glös af undanrennu eða Fjörmjólk og 17% ostur ofan á tvær brauðsneiðar fullnægja áætlaðri dagsþörf kalks, og ein teskeið af lýsi myndi fullnægja D-vítamínþörf. Þess má geta að ef ætlunin væri að fá sama magn af kalki eingöngu úr brauðmeti þyrfti að borða tæp 2 kílógrömm, eða 67 brauðsneiðar, og af kartöflum myndi þurfa 30 kílógrömm til að ná upp í ráðlagðan dagskammt af kalki.

Hvað er beinþynning?

Beinþynning er sjúkdómur sem lýsir sér þannig að þéttleiki og gæði beinvefjar minnkar og leiðir til þess að beinagrindin veikist og hætta á beinbrotum eykst, sérstaklega í hrygg, mjaðmagrind og úlnið. Sjúkdómurinn og beinbrotin sem fylgja honum eru ein helsta orsök heilsuleysis og dauðsfalla milljóna manna um allan heim.

Bein eru lifandi vefur sem byggir styrk sinn að stórum hluta á kalki. Beinin byrja að myndast strax á fósturskeiði. Æsku – og unglingsárin skipta sköpum fyrir myndun beinmassa. Á þessum æviskeiðum er nýmyndun beins hraðari en eyðing, sem skapar stærri og þéttari bein. . Þessi þróun heldur áfram fram til um 25 ára aldurs þegar mesta beinmassa er náð. Beinin endurnýjast þriðja hvert ár í börnum og á 7-10 ára fresti í fullorðinni manneskju.
Heilsusamleg og margbreytileg fæða sem samanstendur af bæði aðal næringarefnunum (próteini, fitu og kolvetnum) og snefilefnum (vítmínum og steinefnum), ásamt nægilegri orku er frumskilyrði fyrir eðlilegri þróun og viðhaldi beinagrindarinnar.
Hnignun beinvefjar hefst yfirleitt eftir fertugt þegar beinvefur hættir að endurnýjast jafnhratt og hann tapast. Hjá konum eykst beinþynning verulega á árunum eftir tíðahvörf þegar framleiðsla á estrógeni stöðvast og beinin hætta að njóta verndar þess. Karlar tapa einnig beinvef eftir fimmtugt en hnignunarhraðinn er hægari en hjá konum. Á þessu æviskeiði hjálpar það að gera varúðarráðstafanir s.s. að tryggja alhliða og heilsusamlegt mataræði sem minnkar hættuna á beinþynningu og beinbrotum af hennar völdum bæði hjá körlum og konum.

Við beinþynningu verður rýrnun á beinvef og styrkur beina minnkar, beinin verða stökk og hætta á brotum við minnsta átak eykst. Beinþynning er algengust í hryggjarliðum, mjaðmarbeini, lærlegg og beinum í framhandlegg og upphandlegg. Talið er að í það minnsta þriðja hver kona hljóti beinbrot vegna beinþynningar einhvern tíma á ævinni en beinþynning er mun algengari meðal kvenna en karla. Á ári hverju má líklega rekja fleiri en 1000 beinbrot til beinþynningar hér á landi.

Allir, bæði konur og karlar, eiga á hættu að verða fyrir afleiðingum beinþynningar síðar á ævinni svo að hver og einn þarf að huga að vernd beina sinna allt frá barnæsku. Reglubundin líkamsáreynsla, nægilegt kalk, sem helst er að finna í mjólkurmat, og D-vítamín í fæðu eða frá sólarljósi skipta máli á öllum aldri.

Kalk er eitt aðal byggingarefni beinagrindarinnar og er nauðsynlegt beinheilsu alla ævi. D-vítamín er einnig nauðsynlegt til myndunar og viðhalds beina vegna þess að það hjálpar til við að vinna kalk úr fæðunni og til að tryggja næga endurnýjun og kalkmyndun í beinvef. Prótein er einnig mikilvægur hluti beinvefs og þar af leiðandi þarf að hafa nóg af því í fæðunni. Með því að „fjárfesta í beinum“ á æsku- og unglingsárum með góðu fæði og lifnaðarháttum verða beinin sterkari og síður fórnarlömb beinþynningar seinna á ævinni

Góð næring, sérstaklega prótein, kalk og D-vítamínrík, er einnig mikilvæg til viðhalds beinmassa hjá fullorðnum og öldruðum.

Áhættuþættir beinþynningar

Kyn: Konur eru í þrefalt meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar. Það er m.a. vegna þess að hámarks beinþéttni kvenna er minni en karla og eftir tíðarhvörf eykst niðurbot beina til muna hjá konum. Þær þurfa því að huga sérstaklega að mataræði sínu og hreyfingu. Konur sem fara snemma í tíðarhvörf eru í aukinni hættu, svo og konur sem gengist hafa undir legnám.

Aldur: Bein gisna með aldrinum, kvenna mun meira en karla. Beinþynning hefst oft hjá konum eftir tíðahvörf og er beintapið oft mikið fyrsta áratuginn eftir. Eftir sjötugt er beintapið svipað hjá körlum og konum.

Erfðir: Líklegt er talið að hámarksbeinstyrkur sem næst, sé að hluta til bundinn erfðum og hugsanlega stjórna erfðir einnig beintapi. Þessi erfðaþáttur er m.a. skýringin á því, að hafi móðir eða faðir fengið beinþynningu, eykur það líkur á að afkomandi fái sjúkdóminn.

Lífsstíll/umhverfi: Beinin þarfnast bæði næringar og áreynslu til að haldast sterk og heilbrigð.

Næring. Næring skiptir máli fyrir heilbrigði beina á öllum aldri. Þess vegna er heilbrigt mataræði mikilvægt. Ýmsar kalkríkar fæðutegundir t.d. mjólk og mjólkurvörur innihalda þau næringarefni sem eru hvað mikilvægust fyrir beinin. D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist beinunum. Við fáum D-vítamín úr fæðutegundum eins og lýsi.

Sjúkdómar: Sjúkdómar sem hafa áhrif á kalkbúskapinn geta valdið beinþynningu. Þeir eru: ofstarfsemi skjaldkirtils, liðagigt, dreifðir illkynja sjúkdómar í beinagrind eða langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar.

Lyf: Eftirtalin lyf eru talin geta valdið beinþynningu.
Sykursterar, t.d. prednisolon, notað við asthma og bólgusjúkdómum og flogaveikilyf.