Beint í efni
En

Vörumerki MS efst í huga landsmanna

Landsmenn nefna oftast hið gamalgróna vörumerki MS þegar þeir eru beðnir um að nefna vörumerki úr sínu daglega lífi sem þeim dettur fyrst í hug. Það er eina íslenska vörumerkið sem kemst á topp-fimm lista þeirra vörumerkja sem eru efst í huga Íslendinga. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Maskína gerði fyrir Hugverkastofuna nýlega og voru kynntar á ÍMARK deginum á föstudaginn 24. mars.

23% svarenda nefndu MS í könnuninni. Næst á eftir MS á lista yfir best þekktu vörumerkin eru: Apple, Nike, Samsung og Coca Cola. Greinilegur munur var á svörum eftir aldri. Meðal 60 ára og eldri nefndu 34% MS en tæp 13% í yngsta hópnum, 18-29 ára. Í þeim hópi nefndu flest Apple, eða 36%. Hver svarandi gat nefnt allt að fimm vörumerki. Önnur íslensk vörumerki sem voru meðal tíu efstu eru Bónus, Krónan og 66°N.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem valinn er með tilviljunarkenndum hætti úr Þjóðskrá. Könnunin fór fram á netinu og voru svarendur 18 ára og eldri af öllu landinu. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar til þess að hópurinn endurspeglaði þjóðina út frá kyni, aldri, búsetu og menntun. Könnunin fór fram 13. - 18. janúar 2023 og svarendur voru 954 talsins.

Heimild: fréttatilkynning um niðurstöður skoðanakönnunar Hugverkastofunnar meðal almennings um þekktasta vörumerkið í mars 2023.