Beint í efni
En

Vegna umfjöllunar um endurvinnslu ferna

Í ljósi umræðu um endurvinnslu ferna vill Mjólkursamsalan koma eftirfarandi á framfæri:

Árið 1997 hófst samstarfsverkefni Mjólkursamsölunnar og Sorpu um söfnun mjólkurferna til endurvinnslu. Mjólkursamsalan hvatti til flokkunar á fernum og Sorpa sá til þess að þær færu í endurvinnslu þar sem plast og ál var aðskilið frá pappírnum hjá samstarfsaðila Sorpu á þeim tíma. Þannig hefur möguleikinn á réttri meðhöndlun ferna til endurvinnslu verið til staðar í áratugi.

Árið 2017 skipti Mjólkursamsalan út öllum mjólkurfernum sínum fyrir nýjar, umhverfisvænni fernur sem bera 66% minna kolefnisspor en áður og eru umhverfisvænustu mjólkurfernur sem völ er á. Samhliða nýju umbúðunum var settur aukinn kraftur í að hvetja neytendur til endurvinnslu.

Endurvinnslufarvegur fernanna er skýr en aðskilja þarf pappa og plast í endurvinnsluferlinu. Er það gert í þar til gerðum endurvinnslustöðvum sem staðsettar eru víða um heim.

Mjólkursamsalan, líkt og aðrir notendur umbúða, greiða úrvinnslugjald til Úrvinnslusjóðs en úrvinnslugjald er lagt á hvert kg af umbúðum úr pappa, pappír og plasti. Samkvæmt heimasíðu Úrvinnslusjóðs skal úrvinnslugjaldið notað til að greiða fyrir meðhöndlun umbúðanna og endurnýtingu eftir að þær hafa þjónað upphaflegum tilgangi sínum.

Þeir aðilar sem annast úrvinnslu úrgangs á vegum sjóðsins skulu ganga úr skugga um að úrgangi sé ráðstafað til viðurkennds ráðstöfunaraðila samkvæmt samningi við Úrvinnslusjóð og fá greitt fyrir það. Samkvæmt ársskýrslu Úrvinnslusjóðs fyrir árið 2021 tóku 6 þjónustuaðilar á móti pappa- og pappírsumbúðum. Þessir aðilar gera samning við ráðstöfunaraðila sem tekur við úrgangi til endanlegrar ráðstöfunar.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Sorpu er sléttur pappi (þ.m.t. fernur) „…pressað og baggað og síðan flutt til Hollands til frekari flokkunar og endurvinnslu.“ Þar kemur fram að „úr endurunnum pappír og pappa er t.d. framleiddur salernispappír, eldhúspappír, dagblaðapappír og karton sem notað er til að búa til nýjar umbúðir.“ Sé fernum beint í réttan endurvinnslufarveg er því sannarlega hægt að veita þeim framhaldslíf. Mjólkursamsalan verslar til að mynda salernispappír sem unninn er úr gömlum fernum.

Með greiðslu úrvinnslugjalds hefur Mjólkursamsalan treyst á að þessir ferlar séu í lagi og eftirlit sé haft með því að svo sé.

Mjólkursamsalan harmar mjög að þeir endurvinnsluferlar sem í boði eru fyrir blandaðar drykkjarumbúðir séu ekki nýttir sem skyldi. MS leggur mikla áherslu á að velja umhverfisvænar umbúðir og þær eigi sér framhaldslíf en endi ekki í óumhverfisvænni ferlum og endurvinnslueiginleikar þeirra fari þar með forgörðum.

Mjólkursamsalan hvetur stjórnvöld til að taka þessi mál föstum tökum svo hægt sé að tryggja að endurvinnslufarvegur ferna sem og annars úrgangs sé með sem bestum hætti.