Beint í efni
En

Úrslit ráðast í Mjólkurbikar karla 1. október

Eftir æsispennandi fótboltasumar er loksins komið að úrslitum í Mjólkarbikar karla. FH og Víkingur Reykjavík mætast á Laugardalsvelli laugardaginn 1. október og er nokkuð ljóst að framundan er hörkuspennandi leikur tveggja af sterkustu liðum landsins þar sem bæði lið ætla sér sigur. Víkingur Reykjavík er núverandi Mjólkurbikarmeistari og FH-ingar eiga harma að hefna frá árinu 2020 þegar keppnin var blásin af vegna Covid-19 en liðið var þá eitt af fjórum sem komið var í undanúrslit keppninnar.

Úrslitaleikurinn hefst á slaginu 16:00 og er miðasala er í fullum gangi á tix.is en þar er hægt að kaupa miða annars vegar á svæði FH og hins vegar á svæði Víkings. Leikurinn verður jafnframt sýndur í beinni útsendingu á RÚV og verður spennandi að sjá hvaða lið lyftir hinum eftirsótta Mjólkurbikar í leikslok.