Beint í efni
En
Úrslit í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema liggja fyrir

Úrslit í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema liggja fyrir

Nú liggja þau loksins fyrir, úrslitin í teiknisamkeppni 4. bekkinga fyrir skólaárið 2021-2022 en um er að ræða árlega teiknisamkeppni sem haldin er í tengslum við Alþjóðlega skólamjólkurdaginn. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók þátt í vali á verðlaunamyndunum og þótti honum mikið til myndanna koma og átti vart til orð yfir hæfileikum og hugmyndaflugi nemendanna.

Rétt tæplega 1.300 myndir bárust í keppnina að þessu sinni frá 51 skóla víðsvegar um landið og er óhætt að segja að úrslitanna hafi verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda til mikils að vinna fyrir nemendur. Tíu myndir hafa nú verið valdar úr þessum mikla fjölda og hafa skólastjórnendur í viðkomandi skólum verið færðar gleðifréttirnar. Verðlaunahöfum eru veitt viðurkenningarskjöl fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá MS. Verðlaunaféð rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi og getur bekkurinn nýtt þá upphæð í að gera sér glaðan dag saman og efla liðsheild í samráði við umsjónakennara og skólastjórnendur.

Verðlaunamyndirnar í ár eru eins ólíkar og þær eru margar en eiga það sameiginlegt að á þeim öllum má sjá kú eða vísun í kýr, en kýr og mjólkurfernur eru án efa vinsælustu viðfangsefni nemenda þó myndefnið sé frjálst. „Ein verðlaunamyndin að þessu sinni er frá nemendum í Reykholtsskóla sem lærðu um norræna goðafræði í myndmennt í haust. Nemendur gerðu í sameiningu fallega myndskreytingu í formi klippiverks þar sem sjá má Auðhumlu gefa Ými mjólk úr fjórum spenum og með þeim á myndinni er Búri, sonur Auðhumlu,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, ritstjóri vef- og samfélagsmiðla MS og einn af fulltrúum í dómnefnd keppninnar.

Vinningshafar í teiknisamkeppninni skólaárið 2021-2022 eru:

  • Aleta Von M. Ríkarðsdóttir, Eyja Dröfn Svölu Pétursdóttir og Svandís Svava Halldórsdóttir, Grunnskólanum Borgarnesi
  • Dís Júlíusdóttir, Grunnskóla Vestmanneyja
  • Einar Máni Þrastarson, Síðuskóla
  • Filip Adrian Gaciarski, Hólabrekkuskóla
  • Hrafnkell Darri Steinsson, Grunnskóla Vestmanneyja
  • Kristófer Davíð Georgsson, Fellaskóla
  • Nemendur í 4. bekk í Reykholtsskóla
  • Rakel Líf Einarsdóttir, Sæmundarskóla
  • Sigurbjörn Árni Guðmundsson, Hrafnagilsskóla
  • Viktor Hákonarson, Árbæjarskóla

Dómnefndin þakkar 4. bekkingum kærlega fyrir þátttökuna og óskar vinningshöfum og skólunum þeirra innilega til hamingju.

Meðfylgjandi er mynd af dómnefndinni og vinningsmyndum ársins en allar myndir er jafnframt að finna á vef verkefnisins skolamjolk.is

Steinunn Þórhallsdóttir, Guðlín Ósk Bragadóttir, Gréta Björg Jakobsdóttir og Ásmundur Einar Daðason með verðlaunamyndirnar.