Beint í efni
En
Þátttökumet slegið í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema - úrslit liggja fyrir

Þátttökumet slegið í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema - úrslit liggja fyrir

Þátttökumet slegið í árlegri teiknisamkeppni grunnskólanema
Myndmenntarkennsla blómstrar og mikill spenningur meðal 4. bekkinga

Loksins, loksins liggja þau fyrir – úrslitin í teiknisamkeppni 4. bekkinga sem beðið hefur verið eftir. Keppnin er haldin í tengslum við Alþjóðlega skólamjólkurdaginn ár hvert en mikill spenningur hefur verið meðal nemenda undanfarnar vikur enda úrslitanna beðið með mikilli eftirvæntingu. Líkt og undanfarin ár naut dómnefnd liðsinnis mennta- og menningarmálaráðherra en Lilja Dögg Alfreðsdóttir tók þátt í valinu á verðlaunamyndunum fjórða árið í röð. Að sögn Lilju Daggar báru myndirnar vott um öflugt og faglegt myndmenntarstarf í skólum landsins og hrósaði hún bæði nemendum og kennurum fyrir að leggja svona hart að sér og senda einstaklega fjölbreyttar og fallegar myndir í keppnina.

Tæplega 2.000 myndir bárust í keppnina í ár frá 89 skólum og ljóst að öll fyrri þátttökumet hafa verið slegin en að jafnaði hafa innsendar myndir verið um 1.000-1.500 talsins. Tíu myndir voru valdar úr þessum mikla fjölda og hafa skólastjórnendur í viðkomandi skólum verið færð gleðitíðindin. Verðlaunahöfum eru veitt viðurkenningarskjöl fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá Mjólkursamsölunni. Verðlaunaféð rennur óskipt í bekkjarsjóð viðkomandi og getur bekkurinn nýtt þá upphæð í að gera sér glaðan dag saman og efla liðsheild í samráði við umsjónakennara og skólastjórnendur.

„Myndefnið er frjálst en ákveðin hefð hefur skapast í gegnum árin og óhætt að segja að kýr, íslenska sveitin og mjólkurfernur og séu vinsælustu viðfangsefnin hjá nemendum,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðsfulltrúi MS og einn af fulltrúum í dómnefnd keppninnar. „Í ár er ein verðlaunamyndin innblásin af verknum listamannsins Andy Warhols, sem nemendur höfðu lært um, og einstaklega gaman að sjá hvernig stíllinn hans blandast saman við hugmyndir teiknaranna.“

Vinningshafar í teiknisamkeppninni skólaárið 2020-2021 eru:

Áróra Nielsen, Breiðagerðisskóla
Ellen Amina Ingadóttir, Fellaskóla Reykjavík
Hekla María Þórhallsdóttir, Vatnsendaskóla
Helena Emma Árnadóttir
og Leanne Yslah G. Leósdóttir, Ísaksskóla
Kolbrún París Kristjánsdóttir, Sæmundarskóla
Milena Mihaela Patru, Grunnskóla Vestmannaeyja
Mía Bjarný Haraldsdóttir
og Hlín Huginsdóttir, Grunnskóla Vestmannaeyja
Óskar Gunnar Styrmisson, Mýrarhúsaskóla
Unnur Amalía Sverrisdóttir, Fossvogsskóla
Ylfa Kristín Bjarnadóttir, Álfhólsskóla

Dómnefndin þakkar 4. bekkingum kærlega fyrir þátttökuna og óskar vinningshöfum og skólunum þeirra innilega til hamingju.

skolamjolk.is.

Steinunn Þórhallsdóttir, Guðlín Ósk Bragadóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir
og Gréta Björg Jakobsdóttir með verðlaunamyndirnar.

Hekla María Þórhallsdóttir, Vatnsendaskóla


Helena Emma Árnadóttir og Leanne Yslah G. Leósdóttir, ÍsaksskólaMilena Mihaela Patru, Grunnskóla VestmannaeyjaÓskar Gunnar Styrmisson, Mýrarhúsaskóla