Stout gráðaostur snýr aftur
Ostóberveisla Mjólkursamsölunnar hefur fært landsmönnum ýmsar spennandi ostanýjungar síðustu ár og er Stout gráðaostur þar á meðal. Osturinn kom tímabundið á markað í kringum þorrann en seldist hratt upp og er því gaman að segja frá því að osturinn góði er nú kominn aftur í sölu. Stout gráðaostur er þroskaður í Stout bjórnum Garúnu frá Borg Brugghúsi og er hér um skemmtilegt samstarfsverkefni að ræða. Bragðið er sætt og litað bragðtónum af mildum gráðaosti, brögðóttu súkkulaði, kaffi og lakkís. Hér er á ferðinni forvitnilegur ostur sem unnendur bjórs og blámygluosta ættu ekki að láta fram hjá sér fara.