Skyrland - ný upplifunarsýning um skyr og matarmenningu Íslands hefur opnað

Skyrland, ný upplifunarsýning um skyr og matarmenningu Íslands, var opnuð í Mjólkurbúinu í miðbæ Selfoss á dögunum og
Meðfylgjandi er frétt sunnlenska.is um opnunina:
Á sýningunni reynir á öll skilningarvit gesta – sjón, heyrn, snertingu, ilm og bragð – með frumlegri hönnun fjölbreyttra atriða sem meðal annars fjalla um Auðhumlu, íslenska sumarið, mjólkurvinnslu kvenna, kynslóð eftir kynslóð, í torfbæjum liðinna alda, mjólkurbúin og margt fleira. Skyrið, þessi afurð íslenskrar menningar og náttúru, hefur nú slegið í gegn víða um heim og í Skyrlandi er saga þess rakin.
Sýningin hefur verið í undirbúningi í þrjú ár en aðalhönnuður hennar er Snorri Freyr Hilmarsson, leikmynda- og sýningahönnuður. Skyrland er í eigu Skyrheima, félags sem Mjólkursamsalan og Sigtún Þróunarfélag stofnuðu utan um verkefnið. „Stefna MS er sú að koma því enn betur á framfæri að Ísland er upprunaland skyrsins og þegar þessi hugmynd kom upp, að skapa skyrinu heimili í endurbyggðu fyrsta Mjólkurbúinu á Selfossi, þá vildum við taka þátt í því,“ segir Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri MS.
Saga Selfoss er nátengd skyrgerð og mjólkuriðnaði á Íslandi. Fljótlega eftir stofnun Mjólkurbús Flóamanna og byggingu gamla mjólkurbúsins 1929 hófst fyrir alvöru iðnaðarframleiðsla ýmissa mjólkurafurða hér á landi og þar á meðal skyrsins. Staðsetning mjólkurbúsins skammt frá Ölfusárbrú dró til sín fjölda starfsmanna sem voru meðal frumbyggja hins nýja bæjar sem stækkaði hratt í kjölfarið.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, segir að með Skyrlandi verði til nýr áfangastaður fyrir ferðafólk á svæðinu. „Með þessari metnaðarfullu og skemmtilegu sýningu hér í hjarta Selfoss verður til nýr áfangastaður fyrir alla þá fjölmörgu ferðamenn, íslenska og erlenda, sem eiga leið um bæinn,” segir Gísli. „Skyrland er ákveðin undirstaða í þessu fallega matarmenningarhúsi sem Mjólkurbúið er orðið og með því er að rætast gamall draumur heimamanna um sýningu sem heiðrar sögu og hlutverk staðarins”.

450-1111.
mán-fim 8-16 og fös 8-15.
sala@ms.is
Athugið að vöruafgreiðsla MS er lokuð alla virka daga milli kl. 12 og 13.