Beint í efni
En

Rjómaostur með hvítu súkkulaði

Mjólkursamsalan setur nú í fyrsta sinn á markað sannkallaðan sælkera rjómaost en um er að ræða rjómaost með hvítu súkkulaði sem verður aðeins á markaði í takmarkaðan tíma.

Rjómaostur með hvítu súkkulaði er silkimjúkur, rjómakenndur og einstaklega góður á bragðið og notkunarmöguleikarnir eru ótæmandi. „Hægt er að nota nýja rjómaostinn eins og hefðbundið rjómaostakrem og setja á kökur og kanilsnúða, kex, hrís- og maískökur svo dæmi séu nefnd, og þá hentar hann enn fremur frábærlega í ostakökur," segir Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri hjá MS. „Svo er um að gera að prófa sig áfram með rjómaostinn í matargerð því hver veit hvað gerist þegar rjómaostur með hvítu súkkulaði hittir fyrir hefðbundið lasanja eða góða súpu."

Ef rjómaostur er í uppáhaldi er upplagt að verða sér út um dós af þessari nýjung og smakka því hér er um að ræða fyrsta íslenska rjómaostinn með hvítu súkkulaði og óvíst hvenær svona góðgæti verður aftur í boði.

Hér fyrir neðan fylgir uppskrift frá Völlu Gröndal að litlum ostakökum með hvítu súkkulaði þar sem nýi rjómaosturinn er aðalstjarnan.

Innihald:

125 g heilhveitikex
40 g brætt smjör
100 g flórsykur
250 ml rjómi frá Gott í matinn
2 tsk. vanilludropar
200 g rjómaostur með hvítu súkkulaði frá MS
50 g hvítt súkkulaði, brætt
fersk ber – jarðarber, brómber, bláber og hindber

Aðferð:

  1. Setjið kexið í poka og rúllið yfir það með kökukefli. Einnig er hægt að vinna það í matvinnsluvél en fyrir þessar kökur er gott ef kexmylsnan er ekki of smátt mulin.
  2. Hellið mylsnunni í skál og blandið bræddu smjörinu saman við.
  3. Setjið rjóma, flórsykur og vanillu í skál og stífþeytið. Bætið rjómaostinum saman við og þeytið þar til allt hefur blandast vel saman.
  4. Bræðið súkkulaðið, leyfið mesta hitanum að rjúka úr því. Setjið þá 1-2 msk. af ostakökublöndunni saman við súkkulaðið til að tempra það. Bætið svo þeirri blöndu út í ostakökublönduna og blandið varlega með sleikju.
  5. Takið fram lítil glös, það skiptir ekki öllu máli af hvaða stærð þau eru, því minni glös þeim mun fleiri ostakökur.
  6. Setjið fyrst mylsnu í botninn og því næst ostakökublöndu. Endurtakið en setjið þykkara lag af ostakökublöndunni efst. Skreytið með ferskum berjum.
  7. Hægt er að gera ostakökurnar með góðum fyrirvara og geyma í kæli. Skreytið þá með berjum rétt áður en þær eru bornar fram.