Beint í efni
En
Nýr og umhverfisvænn metan bíll tekinn í notkun

Nýr og umhverfisvænn metan bíll tekinn í notkun

Nýr metan bíll hefur verið tekinn í notkun hjá Mjólkursamsölunni en um er að ræða Scania P340 sem er 100% knúinn metani (CNG) og umhverfisvænsti kosturinn sem í boði er í dag þegar kemur að vörubílum af þessari stærð. Kolefnisspor bílsins er allt að 90% minna en af sambærilegum dísel bíl og þar sem orkugjafinn er innlendur er um stórt skref að ræða fyrir fyrirtækið sem er eitt stærsta dreifingarfyrirtæki landsins. Hávaði frá vél bílsins er jafnframt um 50% minni en frá dísel bílunum og uppfyllir hann til að mynda sérstaka Evrópuvottun um dreifingu á vörum að nóttu til þar sem hann er nógu hljóðlátur.

Nýi bíllinn er allur hinn glæsilegasti og mjög vel búinn 340 hestafla vél með miklum togkrafti, 12 gíra Opticruise sjálfskiptingu ásamt Scania Retarder vökvahemil. Loftpúðafjöðrun er á öllum öxlum ásamt vigt sem segir til um þyngd á hverjum tíma en heildarþyngd bíls ásamt farmi getur verið allt að 26 tonn. Húsið er jafnframt það rúmbesta sem býðst í þessum flokki og vinnuhagræði fyrir ökumann eins og best gerist.

Það var því glatt á hjalla fyrir utan höfuðstöðvar Kletts á dögunum þegar bíllinn var afhentur og á meðfylgjandi mynd má sjá þá Halldór Inga Steinsson, vöruhúss- og dreifingarstjóra MS, Bjarna Arason, framkvæmdastjóra sölusviðs hjá Kletti og Marek Marzec, bílstjóra hjá MS fyrir stilla sér upp fyrir framan bílinn.