Beint í efni
En
Niðurstaða Hæstaréttar í samkeppnismáli

Niðurstaða Hæstaréttar í samkeppnismáli

Með dómi Hæstaréttar í dag í máli nr. 26/2020 er leiddur til lykta ágreiningur um túlkun á samspili ákvæða búvörulaga og samkeppnislaga, sem hefur verið til meðferðar fyrir stjórnvöldum og dómstólum í tæpan áratug. Þar hefur legið fyrir allan tímann að Mjólkursamsalan var í góðri trú og taldi sig vera að vinna í samræmi við lög.

Það er líka ljóst að Mjólkursamsalan átti von á því að Hæstiréttur myndi staðfesta niðurstöðu Áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem hafði úrskurðað að starfshættir Mjólkursamsölunnar væru málefnalegir og samkvæmt lögum.

Fyrirtækið mun fara nánar yfir röksemdir Hæstaréttar fyrir niðurstöðunni áður en það tjáir sig frekar efnislega um dóminn.

Þegar þetta mál kom upp fyrir tæpum áratug síðan var skipulagi og framkvæmd á samstarfi afurðastöðva í mjólkuriðnaði og sölu á hrámjólk til aðila utan samstarfsins breytt, til að mæta þeim athugasemdum og ábendingum sem komið höfðu fram. Dómsniðurstaðan snýr því að afmörkuðum ágreiningi um túlkun laga í liðnum tíma, en hefur ekki bein áhrif á starfsemina í dag.

Við blasir að hagræðing í mjólkuriðnaði hefur náð þeim markmiðum sem að var stefnt með lagabreytingum sem heimiluðu verkaskiptingu og samstarf afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Þær breytingar eru forsenda framleiðniaukningar sem skilað hefur milljarða króna ávinningi til samfélagsins á hverju ári.

Reykjavík 4. mars 2021