Beint í efni
En

MS leggur sitt af mörkum í orkuskiptum þungaflutninga

Mjólkursamsalan er eitt fimm íslenskra fyrirtækja sem hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup á vetnisknúnum vöruflutningabílum. Um er að ræða MAN hTGX dráttarbíla af stærstu gerð, 44/49 tonn og verða bílarnir knúnir vetni sem framleitt er af Orku náttúrunnar á Hellisheiði og dreift af Blæ, Íslenska vetnisfélaginu, en drægni nýju bílanna er allt að 600 km. Hér er um að ræða eitt stærsta orkuskiptaverkefni í þungaflutningum á landi þar sem sameinast framleiðandi og innflytjandi bílanna, viðskiptavinir og fyrirtækin sem framleiða og dreifa orkugjafanum.

„MS leggur höfuðáherslu á verndun náttúru og sjálfbærni í sínum rekstri og vill vera í fararbroddi í orkuskiptum frá jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega og ómengandi orkugjafa. MS fagnar því að eiga nú þess kost að knýja flutningabíla sína með vetni sem framleitt er úr endurnýjanlegri íslenskri orku og veldur ekki mengun við notkun,“ segir Pálmi Vilhjálmsson forstjóri MS og bætir við að um sé að ræða rökrétt næsta skref hjá fyrirtækinu sem nú þegar er með í notkun tvo flutningabíla knúna metani og 10 rafmagns- og tvinnbíla sem sölumenn fyrirtækisins nota við störf sín.

Fyrirtækin sem kaupa fyrstu bílana eru auk MS, BM Vallá, Colas, Samskip og Terra og er það von allra sem að verkefninu koma að fleiri fyrirtæki muni fylgja í framhaldinu og kjósa að taka í notkun losunarfría vörubíla af stærstu gerð.

Mynd við frétt: Eggert Jóhannesson/mbl.is