Beint í efni
En

Mjólkursamsalan styrkir hjálparsamtök um 2,5 milljónir

Mjólkursamsölunni er umhugað um samfélagið sitt og erum við sífellt að leita leiða til að gera meira og betur í þeim efnum. Fyrirtækið hefur til margra ára lagt hjálparsamtökum lið í aðdraganda jólahátíðarinnar og hefur 2,5 milljónum nú verið úthlutað í formi vöruinneigna hjá fyrirtækinu.

Samtökin sem hljóta styrk að þessu sinni eru Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefnd Kópavogs, Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Sjóðurinn góði í Árnessýslu.

„Oft hefur verið þörf fyrir stuðning til handa skjólstæðingum okkar en nú er hann nauðsyn,“ segja fulltrúar félaganna og eru sammála um að þörfin fyrir aðstoð sé og verði mikil þetta árið. Með þessum styrk vill Mjólkursamsalan leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á þeim hópi einstaklinga sem leitar aðstoðar í formi matarúthlutunar hjá félögunum sjö fyrir hátíðarnar.

Mjólkursamsalan þakkar stjórnendum og sjálfboðaliðum hjálparsamtakanna fyrir óeigingjarnt starf og sendir þeim og skjólstæðingum þeirra sínar bestu óskir um gleðileg jól.