Beint í efni
En
Mjólkursamsalan styrkir áframhaldandi uppbyggingu í Dalabyggð

Mjólkursamsalan styrkir áframhaldandi uppbyggingu í Dalabyggð

Formleg opnun á Vínlandssetrinu í Búðardal fór fram í byrjun júlí en þar gefur að líta einstaka sýningu sem fjallar á fjölbreyttan hátt um landafundi Eiríks rauða og Leifs heppna Eiríkssonar á Grænlandi, Kanada og í Bandaríkjunum löngu fyrir daga Kristófers Kólumbusar. Sýningin samanstendur af myndverkum tíu þekktra íslenskra myndlistarmanna og ferðast gestir um söguna með hljóðleiðsögn um leið og töfraheimur sýningarinnar er skoðaður.

Mjólkursamsalan er stoltur styrktaraðili Vínlandsseturs og hefur sent öllum Dalamönnum boðskort á sýninguna sem veitir þeim ótakmarkaðan aðgang að sýningunni til ársloka 2021. Um er að ræða áframhaldandi styrkveitingu við uppbyggingu sögulegra menningarverkefna í Dölunum en á síðasta ári voru afhjúpuð fjögur söguskilti frá MS við hinn svokallaða Gullna söguhring sem nær frá Búðardal, út fyrir Klofning og að Saurbæ.

Það var glatt á hjalla þegar Vínlandssetrið var opnað á Bæjarhátíðinni Heim í Búðardal og á meðfylgjandi myndum má sjá forsætisráðherra og forsvarsmenn setursins við opnunina sem og glaðan Dalamann að heimsækja setrið í fyrsta, en vonandi ekki síðasta sinn.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra klippir á borða og opnar Vínlandssetur formlega.
(Ljósm. Steina Matt.)

Pálmi Vilhjálmsson, aðstoðarforstjóri MS, Reynir Guðbrandsson, Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Pálmi Jóhannsson og Anna Sigríður Grétarsdóttir. (Ljósm. Steina Matt)

Jóhann Margeir Guðmundsson með boðskortið góða.