Beint í efni
En

Mjólkursamsalan styður landslið Íslands í utanvegahlaupum

Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum fer fram í Tælandi, laugardaginn 5. nóvember en í hópi keppenda eru 10 íslenskir hlauparar og ljóst að þeirra bíður verðugt verkefni í hitanum og rakanum þar í landi.

Keppt verður í tveimur vegalengdum í fjalllendi Chiang Mai þ.e. 40 km (short trail) og 80 km (long trail) utanvegahlaupi með u.þ.b 2500 og 5000m hækkun og munu allir sterkustu utanvegahlauparar heims taka þátt. Árangur undanfarinna ára sýnir að Ísland hefur á að skipa mjög öflugum hlaupurum sem geta veitt þeim allra bestu í heimi verðuga keppni. Utanvegahlaup eru vaxandi íþrótt um allan heim og ánægjulegt að sjá hversu eftirtektarverður árangur íslenskra utanvegahlaupara er orðinn.

Landsliðshópur Íslands er gífurlega sterkur þetta árið en liðið skipa:

Andrea Kolbeinsdóttir, Halldór Hermann Jónsson, Íris Anna Skúladóttir, Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir og Þórólfur Ingi Þórsson sem keppa í 40 km hlaupinu. Elísabet Margeirsdóttir, Rannveig Oddsdóttir, Sigurjón Ernir Sturluson, Þorbergur Ingi Jónsson og Þorsteinn Roy Jóhannsson sem keppa í 80 km hlaupinu.

Hægt verður að fylgjast með ferðalagi liðsins og keppninni á Facebook síðu landsliðsins og einnig á vefsíðu Frjálsíþróttasambandsins

Keppni í 80 km hlaupinu hefst kl. 23:30 4. nóvember að íslenskum tíma og í 40 km hlaupinu kl. 00:30 aðfaranótt 5. nóvember