Beint í efni
En

Mjólkursamsalan styður íslenskt íþróttafólk á Special Olympics

Heimsleikar Special Olympics fara fram í Berlín dagana 17.-25. júní en um er að ræða stærsta íþróttamót ársins þar sem yfir 7.000 þroskahamlaðir einstaklingar taka þátt. 30 keppendur taka þátt fyrir Íslands hönd og ríflega 100 manna stuðningsmannahópur skipaður aðstandendum og velunnurum fylgir íþróttafólkinu okkar á leikana. Íslenski hópurinn keppir í 10 greinum og stefnir hátt í áhaldafimleikum, badminton, boccia, borðtennis, frjálsum íþróttum, golfi og golfi unified, keilu, lyftingum, nútímafimleikum og sundi.

Special Olympics samtökin voru stofnuð árið 1968 með það að markmiði að gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til æfinga og keppni í íþróttum. Árið 2023 eru skráðir iðkendur um 5 milljónir og viðmið byggir í dag á hvort einstaklingur þurfi aðstoð við nám eða í daglegu lífi. Óhætt er að segja að hér sé tækifæri fyrir alla til að sigrast á fjölbreyttum áskorunum, vera hluti af hópi, upplifa gleði og aukið sjálfstraust og fá að njóta sín á eigin verðleikum. Þátttaka hvers og eins er í raun og veru sannkölluð sigurför fyrir sjálfsmyndina.

Mjólkursamsalan styrkir á hverju ári fjölbreytt málefni tengd íþróttastarfi í landinu og erum við stolt að segja frá því að í ár hlaut Íþróttasamband fatlaðra 400.000 kr. styrk fyrir Special Olympics sem nemur þátttökukostnaði tveggja einstaklinga á mótið.

Við hlökkum til að fylgjast með íþróttafólkinu okkar og sendum baráttu- og stuðningskveðjur yfir hafið.

Frekari upplýsingar um íslenska hópinn má finna á vefsíðu Íþróttasambands fatlaðra sem og Facebook síðu hópsins.