Beint í efni
En

Sögulegur sigur og Víkingur R. Mjólkurbikarmeistari kvenna

Úrslitaleikur í Mjólkurbikar kvenna fór fram á Laugardalsvelli 11. ágúst en þar mættust lið Víkings R. sem situr í efsta sæti í Lengjudeild kvenna og lið Breiðablik sem er í titilbaráttu Bestu deildarinnar. Breiðablik þótti sigurstranglegra fyrir leikinn en Víkingskonur mættu á völlinn fullar sjálfstrausts og leikgleðin skein úr hverju andliti. Víkingsliðið var gríðarlega vel stemmt og gerði sér lítið fyrir og vann leikinn 3-1. Með sigrinum skrifaði Víkingur nafn sitt í sögubækurnar en þetta er í fyrsta skipti sem liðið hampar bikarmeistaratitli kvenna og í fyrsta sinn sem lið utan efstu deildar lyftir bikarnum eftirsótta. Til að toppa daginn var áhorfendamet í bikarúrslitum kvenna slegið á leiknum en stuðningsmenn beggja liða voru til mikillar fyrirmyndar og héldu uppi frábærri stemningu í stúkunni.

Á sama tíma og við óskum Víkingi til hamingju með sögulegan sigur viljum við þakka öllum liðunum sem tóku þátt í Mjólkurbikar kvenna fyrir frábæra fótboltaveislu í allt sumar. Mjólkurbikarinn er stærsta einstaka samfélagsverkefni Mjólkursamsölunnar og við gætum ekki verið stoltari af öllum þeim stóra hópi fólks sem kemur að verkefninu um allt land með einum eða öðrum hætti.

Mjólkin gefur styrk.