Beint í efni
En

Kjöt, mjólk og egg einstök uppspretta ýmissa næringarefna

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu Þjóðanna (FAO) gaf nýverið út skýrslu um framlag landdýra til heilbrigðs mataræðis og er um að ræða umfangsmikla greiningu á ávinningi og áhættu af neyslu á dýraafurðum. Í skýrslunni er áætlað að 18% af orku í mat sem mannkyn neytir komi frá landdýrum og um 34% af próteinneyslunni. Bent er á mikilvægi kjöts, mjólkur og eggja á helstu lífsstigum eins og á meðgöngu og við brjóstagjöf, í barnæsku, á unglingsárum og þegar fólk fer að eldast. Í skýrslunni er þess sérstaklega getið að matvælin séu einstök uppspretta ýmissa örnæringarefna sem torvelt sé að fá úr matvælum úr jurtaríkinu og talað um að hágæðaprótein, fjöldi lífsnauðsynlegra fitusýra, járn, kalsíum, sink, selen, B12-vítamín, kólín og lífvirk efnasambönd eins og karnitín, kreatín og taurín komi úr dýraafurðum og hafi mikilvæga heilsu- og þroskavirkni.

Í skýrslunni er fjallað um vísbendingar um tengsl á milli mjólkur-, eggja-, og alifuglaneyslu hjá heilbrigðum fullorðnum einstaklingum við sjúkdóma eins og kransæðasjúkdóma, heilablóðfall og háþrýsting ófullnægjandi eða ekki marktækar. Í framhaldinu hefur landbúnaðarnefnd FAO hvatt ríkisstjórnir landa til að uppfæra innlendar næringarleiðbeiningar um mataræði og leggja áherslu á hvernig kjöt, mjólk og egg geta stuðlað að sértækum næringarþörfum á lífsferlum manna.

Nánar er fjallað um skýrslu FAO á vef Bændasamtakanna.

Skýrsla FAO: Contribution of terrestiral animal source food to healthy diets for improved nutrition and health outcomes