Beint í efni
En

Ísey skyr verðlaunað í Hollandi

Hróður Ísey skyrs hefur farið vaxandi undanfarin ár og er nú selt í um 20 löndum víðs vegar um heiminn. Við fyllumst miklu stolti þegar Ísey skyr hlýtur verðlaun og viðurkenningar á alþjóðavettvangi enda eru vörurnar okkar ekki einungis að keppa í bragði og gæðum, heldur há þær enn fremur harða keppni um hillupláss í verslunum.

Ísey skyr í Hollandi hlaut í vor verðlaun fyrir Bestu vörunýjung ársins 2021 fyrir Ísey skyr með sítrónuostaköku en það var fagtímaritið Levensmiddelenkrant sem stóð fyrir samkeppninni.

Fyrirtæki geta tilnefnt nýjar vörur á hverju ári og í dómnefnd sitja smásöluaðilar og fulltrúar frá stórverslunum og er þá horft til veltuhraða varanna, nýsköpunar, stuðning framleiðenda og fleiri þátta. Alls voru 116 vörur tilnefndar árið 2021 og síðan dæmdar og var það Ísey skyr með sítrónuostaköku (Isey Skyr Lemon Cheesecake) sem stóð uppi sem sigurvegari með meðaleinkunnina 7,9.

Við óskum vinum okkar í Hollandi innilega til hamingju með verðlaunin sem hvetja okkur til að halda áfram á sömu braut og framleiða íslenskt hágæðaskyr af alúð og fagmennsku.