Beint í efni
En
Framleiðsla á kaseini og framkvæmdir hjá MS

Framleiðsla á kaseini og framkvæmdir hjá MS

Mjólkursamsalan undirbýr fullvinnslu á mjólkurpróteini með framleiðslu á kaseini sem mun leysa af hólmi framleiðslu á undanrennuosti og draga úr þörf fyrir framleiðslu á undanrennudufti. Hærra verð fæst fyrir kaseinið á heimsmarkaði og markaðir eru tryggari. Verður þessi nýja vinnsla á Sauðárkróki. Jafnframt er MS að undirbúa stækkun aðstöðu sinnar á Selfossi og Akureyri. Meðfylgjandi er frétt Helga Bjarnasonar blaðamanns hjá Morgunblaðinu um málið, en greinin birtist í Morgunblaðinu 6. janúar 2021 og er hér birt með góðfúslegu leyfi blaðamanns.

Mjólkursamsalan undirbýr fullvinnslu á mjólkurpróteini með framleiðslu á kaseini sem mun leysa af hólmi framleiðslu á undanrennuosti og draga úr þörf fyrir framleiðslu á undanrennudufti. Hærra verð fæst fyrir kaseinið á heimsmarkaði og markaðir eru tryggari. Verður þessi nýja vinnsla á Sauðárkróki. Jafnframt er MS að undirbúa stækkun aðstöðu sinnar á Selfossi og Akureyri.

Lengi hefur verið unnið að undirbúningi þessarar breytingar. Ástæðurnar eru nokkrar, að sögn Pálma Vilhjálmssonar, forstjóra MS. „Við teljum okkur geta fengið betra verð fyrir það mjólkurprótein sem er umfram sölu á innanlandsmarkaði og flutt úr landi,“ segir Pálmi. Hann vísar til svokallaðs efnahalla í mjólkurframleiðslunni sem hefur verið að aukast á undanförnum árum.

Til að eiga næga fitu í mjólkurafurðir fyrir innlenda markaðinn þarf framleiðslan að miðast við fituhlutann þar sem meira selst af fituríkum afurðum en próteinríkum. Þá verður til afgangsprótein sem flytja þarf út í einhverju formi. Efnahallinn svarar nú til um 20 milljón lítra. Pálmi segir að neyslubreytingar á innlenda markaðnum valdi þessu en einnig hafi komið í ljós við athugun Mjólkursamsölunnar að fluttir hafi verið inn mjólkurostar sem ranglega hafi verið tollaðir á lægri tollum sem jurtaostar. Þetta hafi verið 250 til 300 tonn á ári en stjórnvöld séu að færa málið til réttari vegar.

Umframpróteinið hefur verið selt á erlenda markaði í formi undanrennuosta og undanrennudufts. Mest af duftinu hefur verið selt til Sýrlands og osturinn eingöngu til Úkraínu og Tyrklands. Segir Pálmi að stjórnmálaástand í þessum löndum sé í ójafnvægi og viðskiptaumhverfið erfitt. Því sé ekki ásættanlegt fyrir sölufyrirtæki bænda að eiga mikla hagsmuni undir við sölu á þessa markaði.

Tilboð um föst viðskipti

Athuganir á vegum fyrirtækisins hafa beinst að því að koma í staðinn upp vinnslu á kaseini úr undanrennu. Möguleikar eru til framleiðslu á nokkrum afbrigðum sem gott verð fæst fyrir á heimsmarkaði. Segir Pálmi að þessi vara fari mest á markaði í Bandaríkjunum og Asíu. Þar er kasein notað í matvælaiðnaði, meðal annars við framleiðslu á morgunkorni og brauði. Einnig í efnaiðnaði, til að mynda í málningu, plast og glanspappír. Pálmi segir að MS muni nýta sér nýjan tækjabúnað og gott hráefni til að framleiða hágæðakasein. Hafi fyrirtækið þegar fengið tilboð um hagstæð föst viðskipti.

MS framleiðir undanrennuduft á Selfossi fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. Tækin eru orðin gömul og úrelt. Hefur verið ákveðið að endurnýja þau. Til athugunar kom að auka afköstin til að framleiða duft úr öllu umframpróteini. Það þótti ekki skynsamlegt þar sem mikið af undanrennunni fellur til við ostagerð á Akureyri og Sauðárkróki. Ef framleiða ætti duft úr öllu umframpróteininu þyrfti að flytja umtalsvert magn undanrennu að norðan til þurrkunar á Selfossi. Segir Pálmi að það þyki ekki skynsamlegt, meðal annars vegna kolefnisfótspors við flutninga.

Á Sauðárkróki er nánast tilbúið hús þar sem MS og KS reka fyrirtækið Heilsuprótein til framleiðslu á afurðum úr mysu. Ákveðið hefur verið að hefja þar framleiðslu á kaseini. Pálmi tekur fram að þegar framleiðslan verður komin í góðan gang verði hugað að því að koma upp annarri slíkri einingu á Akureyri. Stofnkostnaður við kaseinframleiðsluna á Sauðárkróki er áætlaður 400 milljónir en til samanburðar má geta þess að það myndi kosta 1,5 til 2 milljarða að koma upp nýrri og afkastameiri duftlínu á Selfossi, fyrir alla framleiðsluna. Auk þess er minni orkukostnaður við kaseinframleiðsluna. Nýja framleiðslulínan verður í sérstöku fyrirtæki sem alfarið verður í eigu MS en leigir húsnæði af KS.

Hærra verð fyrir umframmjólk

Pálmi segir stefnt að því að hefja framleiðslu á kaseini fyrrihluta næsta vetrar. Húsnæðið sé nánast tilbúið og ekkert að vanbúnaði að hefja framleiðslu þegar vélarnar hafa verið settar upp. Hefur hann þó þann fyrirvara á að reynslan sýni að vegna kórónuveirunnar geti orðið tafir á afhendingu véla og tækja og að koma þeim í notkun.

Framleiðsla á kaseini skapar ekki grundvöll til að auka mjólkurframleiðslu í landinu. Hún er er bundin í lögum og samningum og grundvallast á innanlandsmarkaði. Pálmi segir þó að alltaf berist einhver mjólk sem bændur framleiði umfram kvóta og hana beri að flytja út. Hægt verði að greiða hærra verð fyrir þessa mjólk þegar kaseinvinnslan verður komin af stað, ef allt gengur samkvæmt áætlun.

Umskipti í rekstri

Grundvöllurinn fyrir fjárfestingum Mjólkursamsölunnar er umskipti í rekstri fyrirtækisins. Fjárhagsstaðan hefur batnað mjög undanfarin tvö ár og nú stefnir í að afkoman í ár verði sú besta frá stofnun félagsins, árið 2007. MS hefur gengið í gegn um endurfjármögnun. Segir Pálmi að sú vinna hafi gengið vel enda augljóst að fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi færst til betri vegar.

Hann segir að bætt fjárhagsstaða sé grunnur þess að mögulegt er að ráðast í endurnýjun búnaðar sem lengi hafi verið þörf á sem og stækkun húsnæðis sem nauðsynleg sé vegna aukinnar starfsemi. Fjárfestingarnar leiði síðan til aukinnar hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins.

Undirbúa stækkun á Selfossi og Akureyri

MS er að undirbúa fleiri fjárfestingar en kaseinvinnsluna á Sauðárkróki og endurnýjun tækjabúnaðar duftframleiðslunnar á Selfossi. Húsnæði starfsstöðvanna á Selfossi og Akureyri verður stækkað verulega til þess að mæta aukinni starfsemi.

Starfsstöðin á Selfossi verður stækkuð umtalsvert með fyrirhugaðri sjö þúsund fermetra viðbyggingu. Pálmi segir að fyrirtækið þurfi sárlega á auknu húsnæði þar að halda til pökkunar og meðhöndlunar á afurðum, geymslu, afgreiðslu og kæli- og frystiaðstöðu. Hluti starfseminnar fer fram í leiguhúsnæði víða um bæinn. Það mun því skapa nýja möguleika að bæta við húsplássi og spara fjármuni sem nú fari í leigu.

Byrjað verður á því að byggja þjónustubyggingu og vonast Pálmi til að hægt verði að hefjast handa við verklegar framkvæmdir á vormánuðum.

Jafnframt verður unnið að undirbúningi stækkunar húsnæðis á lóð fyrirtækisins á Akureyri. Vegna nýtingar á lóðinni er fyrirhugað að byggja hús á tveimur hæðum, samtals um fimm þúsund fermetra að stærð. Þar fæst aukið rými fyrir framleiðslu og geymslu afurða. Pálmi segir að hönnun og annar undirbúningur hefjist á þessu ári.

Fyrirhuguð stækkun hjá MS Selfossi. Í nýbyggingunni næst (B) verður þjónustu- og stoðrými og vinnslu- og geymslurými í væntanlegu húsi sem sýnt er með dökku þaki á mynd (A). Núverandi húsnæði er fjærst (ómerkt).

Fyrirhuguð nýbygging hjá MS Akureyri verður á tveimur hæðum, samtals um fimm þúsund fermetrar. Með því bætist við framleiðslu- og geymslurými.



Helgi Bjarnason, helgi@mbl.is