
Engjaþykkni í nýjum umbúðum
Engjaþykkni hefur lengi vel verið ómissandi partur af deginum á mörgum heimilum enda tilvalinn kostur sem sparimorgunverður, gómsætur millibiti eða ljúffengur eftirréttur. Nú er svo komið að þessi klassíska vara sem svo margir þekkja úr eftirréttalínu MS er komin í nýjar tveggja hólfa umbúðir með plastloki í stað álloks áður og við breytingarnar þótti upplagt að blása nýju lífi í útlit umbúðanna.
Auglýsingastofan Hvíta húsið fékk það skemmtilega hlutverk að hanna útlitið á Engjaþykkninu og er óhætt að segja að litagleði og léttleiki einkenni nýjar umbúðir. Helga Valdís Árnadóttir, yfirumsjónarhönnuður hjá Hvíta húsinu, á heiðurinn að nýju umbúðunum. Hún er alvön í þessum efnum, hefur hannað umbúðir síðan 2004 og gert fjöldamargar vöruumbúðir fyrir Mjólkursamsöluna.
„Við hönnun á Engjaþykkninu gátum við leyft okkur smá leik, þar sem markhópurinn er fólk, oft í yngri kantinum, sem leyfir sér eftirrétti. Bragðið er ferskt og það er ákveðinn stemning í að hella kurlinu yfir í jógúrtina, svo það kallar á glaðlegar, bjartar og leikandi umbúðir. Það var frábært að MS voru tilbúin til að skipta alveg um merki Engjaþykknis, og þannig náðum við að setja ákveðið karakterseinkenni á útlitið. Það mikilvægasta við hönnun á umbúðum er að þær séu vel sýnilegar og skýrar svo auðvelt sé að nálgast þær í búðarhillum og með nýju merki, leikandi litríkri grafík og fljótandi bragðefni teljum við okkur hafa tekist vel til“
