
Dala Auður með chili
Dala Auður með chili er nýjasta viðbótin í Dalaostalínunni en osturinn hefur notið mikilla vinsælda í Ostóber síðustu tvö ár og er nú loks kominn í fast vöruúrval. Dala Auður með chili er millisterkur ostur og óhætt að segja að bragðlaukarnir fari í stórkostlegt ferðalag með rjómakenndu bragði og viðbættu chili og því lýkur ekki fyrr en síðasti bitinn er búinn.
Dala Auður með chili smakkast vel ein og sér en þegar osturinn er bakaður með hunangi og hnetum gerast einhverjir töfrar svo úr verður einhver besti bakaði ostur sem við höfum smakkað.
Við deilum með ykkur uppskrift að ljúffengu ostagóðgæti sem við mælum með að þið prófið við fyrsta tækifæri því að okkar mati eru allir dagar ostadagar.

Bökuð Dala Auður með chili og heitu hunangi
1 stk. Dala Auður með chili
1 dl gróft saxaðar salthnetur
1 rauður chilipipar í sneiðum
1 msk. ólífuolía
3 msk. hunang
Ferskt timían (má sleppa)
Aðferð:
- Kveikið á ofni á 180 gráðum með blæstri.
- Leggið Dala Auði í lítið eldfast mót og skerið litlar rifur í toppinn á ostinum.
- Hrærið saman í skál salthnetum, chili, ólífuolíu og hunangi.
- Setjið blönduna ofan á ostinn og bakið í u.þ.b 15 mínútur eða þar til osturinn er mjúkur og fallega gylltur.
- Berið fram heitt með niðurskornu snittubrauði eða kexi