Beint í efni
En

Til hamingju með dag íslenskrar tungu

Frá árinu 1994 hefur Mjólkursamsalan beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins á grundvelli samstarfssamnings við Íslenska málnefnd. Hvort sem við höfum talað íslensku frá blautu barnsbeini eða numið hana síðar er ræktun málsins lífstíðarverkefni. Að rækta tungumál, aga hugsun sína og skerpa tjáningu er besta leiðin til betri samskipta og gagnkvæms skilnings. Við erum ólík að uppruna en tengjumst í gegnum tungumálið. Árið 1994 var framleidd sérstök sjónvarpsauglýsing sem ætlað var að vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi þess að varðveita tunguna. Alexandra Gunnlaugsdóttir flutti í auglýsingunni ljóð sem Þórarinn Eldjárn samdi sérstaklega fyrir MS í tilefni af samstarfi fyrirtækisins og íslenskrar málnefndar. Ljóðið er ort við þekkt lag eftir Atla Heimi Sveinsson og er Íslenskuljóðið nú sungið í tilefni dags íslenskrar tungu í fjölmörgum skólum land allt. Hér fyrir neðan má lesa ljóðið.

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var,
og hún á orð sem geyma gleði´ og sorg,
um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

Á vörum okkar verður tungan þjál,
þar vex og grær og dafnar okkar mál.
Að gæta hennar gildir hér og nú,
það gerir enginn - nema ég og þú.

Íslenska er mál okkar allra og það erum við sem höldum henni lifandi með því að leyfa henni að vaxa með okkur. Til hamingju með dag íslenskrar tungu.