Beint í efni
En

Árveknisátak um forvarnir gegn sjálfsvígum

Nú fer í hönd sá tími árs sem getur verið hvað erfiðastur fyrir þá fjölmörgu sem glíma við þunglyndi og sálræna erfiðleika af einhverjum toga. Einar Hansberg Árnason hefur á undanförnum árum lagt sitt að mörkum til að vekja athygli á mikilvægum málefnum með því að skora á sjálfan sig með erfiðum æfingum og beinir nú sjónum sínum að því gríðarlega mikilvæga starfi sem Píeta-samtökin á Íslandi vinna. Í 50 klukkutíma ætlar Einar að framkvæma æfingu sem inniheldur 56 kaloríur á Concept2-tæki, 10 upphífingar og 11 réttstöðulyftur á 15 mínútna fresti og þegar upp er staðið verður hann búinn með 11.200 kaloríur, 2.000 upphífingar og 2.200 réttstöðulyftur. Viðburðurinn fer fram í húsakynnum Afreks við Skógarhlíð og hefst fimmtudaginn 10. nóvember klukkan 16:00. Streymt verður beint frá verkefninu og koma Mjólkursamsalan og Krónan að kostun útsendingarinnar.

Fylgjast með streymi - 50 klst. fyrir Píeta

„Einar Hansberg er einstakur samstarfsmaður og vinur okkar í Mjólkursamsölunni og óhætt að segja að við séum stolt af framtaki okkar manns en á sama tíma þakklát og klökk. Einar lætur sig annað fólk varða; fjölskyldu, vini og vinnufélaga, og hvetur okkur til að gera slíkt hið sama. Mjólkursamsalan leggur mikið upp úr því að styðja við íslenskt samfélag á margvíslegan hátt og með þátttöku í verkefni Einars viljum við leggja okkar af mörkum og aðstoða hann og Píeta við að vekja athygli á þeim úrræðum sem í boði eru fyrir fólk með sjálfsvígshugsanir og ekki síður að hvetja alla til að láta sig fólk varða. Við getum öll tekið okkur Einar til fyrirmyndar og opnað á samtalið við fólkið í kringum okkur. Það geta allir upplifað sjálfsvígshugsanir en það er alltaf von og því fleiri sem vita af þeim úrræðum sem í boði eru þeim mun meiri líkur eru á að við björgum mannslífum – okkar eigin eða annarra,“ segir Gréta Björg Jakobsdóttir hjá Mjólkursamsölunni.

Píeta-samtökin vinna mikilvægt starf í að færa umræðuna um sjálfsvíg upp á yfirborðið og eru leiðandi í forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum hér á landi. Frá árinu 1999 hafa meira en 850 einstaklingar fallið fyrir eigin hendi sem jafngildir þremur mannslífum í hverjum mánuði. „Þetta er mál­efni sem snertir okkur öll og ætti ekki að liggja í þagnar­­gildi. Ég reyni að nýta þessi verkefni mín til að vekja fólk til umhugsunar í þágu einhvers góðs málefnis hverju sinni,“ segir Einar.

Ef þú eða einhver sem þú þekkir ert að glíma við sjálfsvígshugsanir eða vilt leita þér aðstoðar eða fá upplýsingar um málið bendum við á Píeta símann sem er opinn allan sólarhringinn.

  • Píeta síminn 552-2218 – hafðu samband!
  • Reikningsnúmer Píeta fyrir frjáls framlög: 0301-26-041041, Kt: 410416-0690
  • Píeta samtökin á AUR – sláðu inn notendanafnið @pieta og sendu þitt framlag.