Beint í efni
En
Alþjóðlegur dagur mjólkur 1. júní

Alþjóðlegur dagur mjólkur 1. júní

1.júní ár hvert er alþjóðlegi mjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur. Það er Matvælastofnun sameinuðu þjóðanna sem hvetur til þess að dagurinn sé haldinn hátíðlegur. Markmið dagsins er að vekja athygli á hollustu mjólkur og mikilvægi hennar í mataræði fólks um allan heim.

Mjólk er ein næringarríkasta einstaka fæðutegundin sem völ er á. Mjólk er mikilvæg uppspretta próteina og 11 lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni og má þar nefna kalk, joð, fosfór, B2- og B12-vítamín.

Mjólk er eins og flestir vita góður kalkgjafi. Kalk er nauðsynlegt fyrir eðlilegan vöxt og viðhald beina og tanna. Það stuðlar að eðlilegri vöðvastarfsemi, orkubúskap og flutningi taugaboða í líkamanum. Mjólk er góður próteingjafi. Prótein gegna mikilvægum hlutverkum í líkamanum, eins og vexti og viðhaldi vöðvamassa. Einnig eru prótein nauðsynleg fyrir vöxt og þroska beina hjá börnum og viðhaldi beina hjá fullorðnum. Mjólk er enn fremur mikilvæg uppspretta joðs. Joð er mikilvægt fyrir orkubúskap líkamans, starfsemi taugakerfisins sem og vitsmunastarfsemi. Þar að auki stuðlar joð að eðlilegu viðhaldi húðar. Í mjólk eru ýmis nauðsynleg vítamín á borð við B12 og B2 vítamín. B12 er lífsnauðsynlegt næringarefni sem nær eingöngu finnst náttúrulega í dýraafurðum. Það er mikilvægt fyrir orkubúskap líkamans og stuðlar að eðlilegri starfsemi ónæmis- og taugakerfisins sem og eðlilegri myndun rauðra blóðkorna. B2 hefur margs konar mikilvæg hlutverk í líkamanum og stuðlar að eðlilegum orkubúskap líkamans og eðlilegri starfsemi taugakerfisins. Einnig stuðlar það að viðhaldi sjónar og getur hjálpað til við að draga úr þreytu. Í D-vítamínbættu mjólkinni er svo auðvitað D-vítamín sem er hefur margvísleg jákvæð áhrif á líkamann, það er m.a. nauðsynlegt fyrir vöxt og þroska beina og eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins.

Það er því ekki að undra að almennar ráðleggingar um mataræði hafi almennt mjólkurmat sem hluta af heilsusamlegu mataræði. Embætti landlæknis ráðleggur að neyta tveggja skammta af mjólk eða mjólkurmat á dag. Byggja þessar ráðleggingar á bestu fáanlegu vísindalegu þekkingu sem tiltæk er í dag. Þessar ráðleggingar hérlendis eru í samræmi við ráðleggingar á öðrum Norðurlöndum og Vesturlöndum almennt, sem ráðleggja neyslu 2-3 mjólkurskammta á dag.