12 grunnskólanemar vinna til verðlauna í árlegri teiknisamkeppni
Nú liggja fyrir úrslit í teiknisamkeppni 4. bekkinga en um er ræða keppni sem haldin er í tengslum við Alþjóðlega skólamjólkurdaginn ár hvert. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók þátt í valinu á verðlaunamyndunum líkt og undanfarin ár og hafði hann sérstaklega orð á því hve gaman væri að sjá vinnuna og metnaðinn sem nemendur leggja í myndir sínar.
Yfir 1.200 myndir bárust í keppnina frá 70 skólum um land allt og var einkar ánægjulegt að sjá nýja skóla bætast á lista yfir þátttakendur. Eftir mikið og krefjandi starf dómnefndar voru að lokum tíu verðlaunamyndir valdar og skólastjórnendum í viðkomandi skólum færð gleðitíðindin.
Verðlaunahöfum eru veitt viðurkenningarskjöl fyrir teikningar sínar og til viðbótar er hver mynd verðlaunuð með 40.000 kr. peningagjöf frá Mjólkursamsölunni. Verðlaunaféð rennur óskipt í bekkjarsjóð teiknaranna og getur bekkurinn nýtt þá upphæð í að gera sér glaðan dag saman og efla liðsheild í samráði við umsjónakennara og skólastjórnendur.
„Hugmyndaflug og litagleði einkennir myndirnar og óhætt að segja að við bíðum spennt eftir þessu verkefni á hverju ári,“ segir Guðlín Ósk Bragadóttir, bókhaldsfulltrúi og einn af fulltrúum í dómnefnd keppninnar og bætir við að það komi dómnefnd alltaf jafn mikið á óvart hversu hæfileikaríkir krakkarnir eru.
Verðlaunahafar í teiknisamkeppni 4. bekkinga skólaárið 2023-2024 eru:
- Emma Marie Freysdóttir – Hrafnagilsskóla
- Hjörtur Snær Sigurðsson – Njarðvíkurskóla
- Íris Ruth Helgadóttir – Flataskóla
- Ísabella Mist Valdimarsdóttir og Sara Björk Kristjánsdóttir – Síðuskóla
- Karen Ósk Sigurðardóttir – Vallaskóla
- Magnús Darri Hallgrímsson og Stefán Ellertsson – Öldutúnsskóla
- Óliver Friðriksson – Hamarsskóla
- Snædís Eva Hillers – Árbæjarskóla
- Tómas Ingi Davíðsson – Húsaskóla
- Viktor Árni Ástþórsson – Hrafnagilsskóla
Dómnefndin þakkar öllum þátttakendum kærlega fyrir fallegar myndir og óskar vinningshöfum og skólunum þeirra innilega til hamingju.
Meðfylgjandi er mynd af dómnefndinni með vinningsmyndir ársins, en allar myndirnar má sjá hér fyrir neðan og á vef verkefnisins skolamjolk.is.
Guðlín Ósk Bragadóttir, Ásmundur Einar Daðason og Steinunn Þórhallsdóttir, með verðlaunamyndirnar.