Um Íslenskuljóðið

 

Andlit Alexöndru Gunnlaugsdóttur er kunnugt flestum landsmönnum sem tengja það laginu um fjölbreytileika íslenskrar tungu.

Íslenskuljóðið
Sjónvarps- og kvikmyndahúsaauglýsingar MS um íslenskt mál, sem fyrst komu fyrir augu þjóðarinnar í október 1994, fengu frábærar viðtökur. Auglýsingunum var ætlað að vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi þess að varðveita tunguna.

Horfa á auglýsinguna.

 
Höfundar lags og ljóðs
Alexandra Gunnlaugsdóttir flytur í auglýsingunum ljóð sem Þórarinn Eldjárn samdi sérstaklega fyrir MS í tilefni af íslenskusamstarfi MS og Íslenskrar málnefndar. Ljóðið er ort við þekkt lag eftir Atla Heimi Sveinsson.

Kennsluefni
Síðan þá hefur auglýsingin birst í sjónvarpi á stórhátíðum og tyllidögum og orðið til þess að Íslenskuljóðið hefur fest í sessi sem eitt af þeim lögum er vekja þjóðerniskennd með landsmönnum. Þá hafa grunnskólar um allt land unnið með þetta fallega lag og ljóð í tónmenntakennslu sinni og sömuleiðis hefur ljóðið orðið tilefni til ýmissa verkefna í móðurmálskennslunni.

Alexandra Gunnlaugsdóttir
Þessi geðþekka unga stúlka hefur vakið mikla athygli með framkomu sinni og söng í auglýsingu MS. Alexandra fæddist í Frakklandi og átti síðan heima í Danmörku til átta ára aldurs. Seinna flutti hún í Kópavoginn, og þegar hún var 11 ára hóf hún að syngja með Skólakór Kársness. Alexandra hefur mikinn áhuga á leiklist og tónlist og hún hefur lært á fiðlu í fjölmörg ár.
Í dag er Alexandra búsett í Kaupmannahöfn með manni og tveimur yndislegum sonum. Hún er deildarstjóri í alþjóðlegum skóla og kennir jafnframt tónlist og tungumál. Hún er mikill tungumálaunnandi og barnalagahöfundur í frístundum.