Íslenskuátak

Íslenska er okkar mál

Hvort sem við höfum talað íslensku frá blautu barnsbeini eða numið hana
síðar er ræktun málsins lífstíðarverkefni.  Að rækta tungumál, aga hugsun sína og skerpa tjáningu er besta leiðin til betri samskipta og gagnkvæms skilnings. Við erum ólík að uppruna en tengjumst í gegnum tungumálið.

Frá árinu 1994 hefur Mjólkursamsalan beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins á grundvelli samstarfssamnings við Íslenska málnefnd. Samningurinn var endurnýjaður í mars 1999 og aftur í maí 2004 til fimm ára. Rekstrarfélagið
Mjólkursamsalan ehf mun halda því starfi áfram. Það er ljóst að samstarf MS og Íslenskrar málnefndar um íslenska málrækt er verðmætt og mikilvægt verkefni, þar á MS að bakhjarli úrvalssveit fagmanna á þessu sviði.

MS mun áfram leggja sitt af mörkum til að örva umræðu um íslenskt mál og efla þekkingu sem fyrr t.d. með því að birta fræðsluefni í auglýsingum, á mjólkurfernum og á heimasíðu MS. Önnur verkefni eru málræktarauglýsingar í tengslum við dag íslenskrar tungu og aðra hátíðadaga  og þátttaka í  Málræktarþingi sem fram fer í Háskóla Íslands en í tilefni þess viðburðar hefur MS veitt námsstyrk til háskólanema sem vinnur að lokaverkefni um íslenskt mál.
 

MS styður íslenskt mál einkum með þrennum hætti:

 • Með íslenskuábendingum á mjólkurumbúðum. MS beinir vopnum sínum að því
  að styrkja íslenska tungu og skapa umræðu um hana með málfars ábendingum á 
  mjólkurfernum. Ábendingarnar koma úr ýmsum áttum og er ætlað að rækta og
  draga fram  fjölbreytileika íslenskrar tungu. Með þessu móti útvegar Mjólkursamsalan
  neytendum stöðugt bæði andlega og líkamlega næringu á u.þ.b. tuttugu milljónum
  ferna á hverju ári. 
   
 • Málvernd er lagt lið með beinum fjárframlögum, gjöfum og styrkjum.
   
 • MS leggur jafnfram sitt af mörkum með auglýsingum til hvatningar um árvekni og
  samstöðu allra landsmanna um að standa vörð um móðurmálið.