Beint í efni
En

Fernuflug gerir orðin fleyg

Mjólkursamsalan hefur um langa hríð lagt íslenskri tungu lið og nýtt fjölmörg tækifæri til að vekja athygli á fjölbreytileika móðurmálsins og hve gaman það getur verið að leika sér, skapa og nota tungumálið. Mjólkurfernur MS hafa verið hluti af því sem landinn les og er það okkur því sönn ánægja að færa landsmönnum 48 framúrskarandi texta eftir grunnskólanema sem nú prýða mjólkurfernurnar okkar.

Á haustmánuðum var textasamkeppnin Fernuflug endurvakin og nemendur í 8.-10. bekk hvattir til að velta fyrir sér spurningunni ‚Hvað er að vera ég?‘. Rúmlega 1.200 textar bárust í keppnina og óhætt að segja að sköpunargleðin hafi verið virkjuð. Þrír textar af þeim 48 sem valdir voru til birtingar á fernunum voru verðlaunaðir sérstaklega með veglegri peningagjöf og mun verðlaunaféð án efa efla og styrkja höfundana til frekara náms.

Í textum grunnskólanemanna heyrast nýjar raddir og bindum við vonir við að þeir veki lesendur til vitundar um hvernig viðhorf okkar til málsins hafa áhrif á það hvernig það dafnar, en með því að sem flest skrifi, tali og skapi á íslensku á tungumálið okkar bjarta framtíð.

Fernuflug er hvatning til að gefa orðunum byr undir báða vængi og saman gerum við orðin fleyg.

Hér er hægt að skoða alla Fernuflugstextana sem prýða mjólkurfernur MS