Útflutningur


Einungis lítið brot af heimsmarkaðsframleiðslu á mjólk er selt milli landa. Ísland er þar engin undantekning og í gegnum tíðina hefur útflutningur íslenskra mjólkurafurða fyrst og fremst snúist um sölu á umframmagni, sem ekki hefur nýst á innanlandsmarkaði.

Undanfarin ár hefur hinsvegar verið unnið markvisst að því að auka útflutning og sölu á skyri til nágrannalanda okkar. Með skyrútflutningi nær MS betra skilaverði á mjólk til eigenda sinna heldur en ef umframframleiðsla er t.d. flutt út sem undanrennuduft.
Mjólkursamsalan hefur á undanförnum árum einbeitt sér mest að uppbyggingu skyrmarkaða á Norðurlöndunum.  Til að anna þeirri eftirspurn, er það gert með útflutningi á skyri frá Íslandi, eins og tollfrjáls kvóti inn á Evrópu heimilar, auk þess sem MS hefur selt framleiðslusérleyfi til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.
Heildarsala á skyri hefur margfaldast á Norðurlöndunum á síðastliðnum árum og því virðist sem eiginleikar skyrsins falli mjög vel að núverandi tíðaranda og smekk neytenda - próteinrík, fitulaus, holl og bragðgóð matvara.  Skyr framleitt af MS hefur líka á undanförnum árum sópað til sín verðlaunum á stórri alþjóðlegri mjólkurvörusýningu, sem haldin er árlega í Herning í Danmörku.
Finna má skyr í eftirfarandi löndum í dag: Bandaríkjunum, Danmörku, Grænlandi, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Færeyjum, Sviss, Bretlandi, Írlandi og Möltu.