Yfirlýsing frá Mjólkursamsölunni vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur

Desember 2016

MS vann eftir gildandi lögum

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í nóvember 2016, að fella úr gildi þá ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SE) frá júlí sama ár., að MS hefði misbeitt markaðsráðandi stöðu sinni, með framgöngu á markaði á árunum 2008-2013. Þetta felur í sér algeran viðsnúning á efnislegri niðurstöðu málsins frá útspilinu í júlí og sú þunga sekt sem SE lagði á MS vegna þessa, 440 milljónir króna, hefur nú verið endurgreidd að fullu með vöxtum.

Þessi niðurstaða er auðvitað gríðarlegur sigur fyrir málstað MS, sem alla tíð hefur haft metnað til þess að fara að lögum í hvívetna. Hefur komið fram á fundum með starfsfólki félagsins að miklu fargi er af því létt, enda hafa þungar ásakanir og upphrópanir aðila sem oft hafa lítið kynnt sér hvað málið snýst um, lagst þungt á margt af okkar starfsfólki um allt land. Það getur nú sett þetta mál aftur fyrir sig og einbeitt sér að þjónustu við okkar viðskiptavini. Bændum hefur líka sviðið ósanngjörn umræða um þennan rekstur.

Framkvæmd samstarfs ekki ómálefnalegt

Því hefur ranglega verið haldið fram að niðurstaða um misbeitingu markaðsráðandi stöðu hefði verið önnur, ef 71. gr. búvörulaga veitti ekki undanþágu frá samkeppnislögum. Þetta er alls ekki rétt. Búvörulögin veita heimild til verkaskiptingar og samstarfs í því skyni að lækka kostnað og vöruverð til neytenda, undir eftirliti Verðlagsnefndar búvöru. Allar mælingar sýna að þessi markmið hafa gengið vel eftir. Þessi ákvæði leyfa því með skilyrðum samstarf sem annars væri bannað. Þau leyfa ekki misbeitingu á aðstöðu. Áfrýjunarnefnd fór vel ofan í saumana á því hvernig framkvæmd hafi verið háttað til að finna út hvort hún rúmaðist innan heimilda búvörulaga, sem vanrækt hafði verið við fyrri rannsókn málsins. Niðurstaða áfrýjunarnefndar byggist einmitt á því að SE hafi ekki hugað að þessu og að ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmd samninganna og nánari útfærsla hafi verið ómálefnaleg eða að öðru leyti óforsvaranleg. Það var því einfaldlega ekki um misbeitingu markaðsráðandi stöðu að ræða.

Stjórnendur MS gerðu sér hins vegar grein fyrir því að lagaumhverfi mjólkuriðnaðar er flókið og álitaefni geta ráðist af túlkun á samspili mismunandi laga. Sérstaklega búvörulaga og samkeppnislaga, í þessu samhengi. Það réttlætir hins vegar ekki það offors sem einkennt hefur málatilbúnað hins opinbera eftirlits, í raun allar götur frá því áður en Mjólkursamsalan var sett á stofn í núverandi mynd. Þegar úrskurður áfrýjunarnefndar lá fyrir tókst SE að senda frá sér tilkynningu þar sem ekkert var fjallað um þá meginniðurstöðu áfrýjunarnefndar að efnisleg niðurstaða stofnunarinnar var ógilt, en bara fjallað um að áfrýjunarnefnd hefði klofnað í meirihluta og minnihluta og um mistök MS við upplýsingagjöf undir rekstri málsins, en MS fékk 40 m.kr. sekt fyrir það upplýsingabrot.

Fjallað var um málið í leiðara Morgunblaðsins 24. Nóvember og sagði m.a.: „Augljóst er, ekki síst af viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins eftir ógildingu áfrýjunarnefndarinnar,að Samkeppniseftirlitinu er með öllu ómögulegt að fjalla um málefni Mjólkursamsölunnar af því hlutleysi sem gera verður kröfu um til stofnunar á vegum ríkisins.“

Áframhald málsins

SE hefur nú lýst því yfir að það muni höfða dómsmál gegn MS til ógildingar á framangreindum úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi.  Ef til þess kemur mun MS  „gagnstefna“ sem kallað er, til að fá úrlausn dómstóla um þá sekt sem lögð var á MS vegna upplýsingabrotsins.

Af yfirlýsingu SE um málshöfðun má ráða að eftirlitið hafnar í raun þeim skilningi á samspili samkeppnislaga og búvörulaga sem niðurstaða áfrýjunarnefndar byggðist á. Í reynd hafa orðið það miklar breytingar á sölu hrámjólkur frá 2008-2013 að dómsmálið snýr ekki að fyrirkomulagi framtíðar, heldur að afmörkuðu máli í liðnum tíma. Í því sambandi má nefna:

  • Breytt fyrirkomulag við sölu á hrámjólk hefur verið tekið upp síðan málið hófst til þess að tryggja sem mest gagnsæi. Auðhumla svf. selur öllum framleiðendum hrámjólk á sama verði og til MS. Sala hrámjólkur hefur því verið færð í það horf sem hin ógilta ákvörðun SE gerði ráð fyrir.
  • Þá ákvað MS fyrir rúmu ári síðan að bjóða lægsta verð, svokallað bændaverð til minni framleiðenda upp að 300.000 lítrum á ári. Því fyrirkomulagi var svo viðhaldið eftir að Auðhumla tók við sölu á hrámjólk nú í haust. Þannig búa minni framleiðendur við lægra verð á hrámjólk en MS í dag, sjá nánar: (https://www.ms.is/frettir/breyttar-aherslur-hja-ms/331)
  • MS er vel meðvitað um þá stöðu sem fyrirtækið er í og þá ábyrgð sem henni fylgir. Ákvæði samkeppnislaga eiga við um starfsemi fyrirtækisins þar sem undanþáguákvæðum búvörulaga sleppir og hagar MS starfsemi sinni að öllu leyti í samræmi við það.

Það eru hagsmunir kúabænda, eigenda MS, að sem flestir aðilar starfi að nýsköpun í greininni, að vöruframboð sé fjölbreytt og smærri fyrirtæki skili árangri í nýtingu mjólkurafurða. Það er von MS að hið góða samstarf við bændur og aðra framleiðendur, eflist með tíð og tíma og skili sér áfram í nýsköpun í iðnaðinum og fjölbreyttu vöruúrvali til neytenda.

Egill Sigurðsson, formaður stjórnar
Ari Edwald, Forstjóri

29.05.2018

Vegna máls Samkeppniseftirlitsins gegn MS til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála vill MS taka fram.

Eftir að hafa yfirfarið forsendur dómsins telur MS óhjákvæmilegt að áfrýja niðurstöðunni sem fer þvert gegn úrskurði fjölskipaðs stjórnvalds. MS telur sem fyrr að fyrirtækið hafið starfað í samræmi við skýr ákvæði búvörulaga og að engin brot hafi verið framin. Var það niðurstaða fjölskipaðrar áfrýjunarnefndar samkepnnismála, sem er lokaniðurstaða á stjórnsýslustigi og MS telur vera rétta.

 

Forsaga málsins: https://www.ms.is/um-ms/samkeppnismal/timalina

 

Fleiri fréttir