Tímalína

Ákvarðanir, úrskurðir, álit og umsagnir Samkeppniseftirlitsins (áður Samkeppnisráðs) og áfrýjunarnefndar samkeppnismála varðandi mjólkuriðnaðinn og fyrirtæki innan hans frá árinu 1996 til ársins 2016

Tímalína


1996

Álit Samkeppnisráðs nr. 3/1996, Erindi Bónusar hf. varðandi viðskiptaskilmála Mjólkursamsölunnar og Osta- og smjörsölunnar.

 

 

 

Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 5/1996, Erindi Bónusar hf. varðandi viðskiptaskilmála Osta- og smjörsölunnar.

 

 

 

Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 21/1996, Kvörtun Vífilfells varðandi framleiðslu og dreifingu Mjólkursamsölunnar á ávaxtasafa.

 

 

 

Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 26/1996, Erindi Sólar hf. um starfsemi mjólkursamlaga – Mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga.

 

 

 

Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 27/1996, Erindi Sólar hf. um starfsemi mjólkursamlaga – Mjólkurfélag Sölufélags A-Húnvetninga, Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga.

 

 

1997

Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 32/1997, Smásala mjólkurafurða, afnám hámarksálagningar.

 

 

1998

Hæstaréttardómur í máli nr. 297/1998, Samkeppnisráð gegn Myllunni-Brauði hf., Mjólkursamsölunni í Reykjavík og áfrýjunarnefnd samkeppnismála.

 

 

2002

Álit Samkeppnisráðs nr. 2/2002, Erindi Samtala verslunar og þjónustu vegna verðlagningar verðlagsnefndar búvara á mjólkurvörum í heildsölu.

 

 

2006

Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2006, Opinberar samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði.

 

 

 

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 39/2006, Erindi Mjólku ehf. vegna misnotkunar Osta- og smjörsölunnar á markaðsráðandi stöðu.

 

 

2008

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 24/2008, Kaup Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson ehf. á hlut af rekstri Bako ehf.

 

 

 

Hæstaréttardómur í máli nr. 558/2007, Samkeppniseftirlitið gegn Mjólkursamsölunni ehf., Auðhumlu svf. og Osta- og smjörsölunni ehf.

 

 

2009

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 40/2009, Samruni Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku ehf./Eyjabú ehf.

 

 

 

Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2009, Skaðleg samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni.

 

 

2010

Umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarp til breytinga á búvörulögum, dags. 5. ágúst 2010.

 

 

 

Ákvörðun SE nr. 17/2010, Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintri misnotkun Mjólkursamsölunnar ehf. á markaðsráðandi stöðu.

 

 

2014

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 26/2014, Misnotkun Mjólkursamsölunnar ehf. á markaðsráðandi stöðu sinni.

 

 

 

Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 5/2014, Mjólkursamsalan ehf. gegn Samkeppniseftirlitinu.

 

 

2016

Umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum, dags. 6. júní 2016.

 

 

 

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 19/2016, Brot Mjólkursamsölunnar ehf. á samkeppnislögum.

 

 

 

Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 5/2016, Mjólkursamsalan gegn Samkeppniseftirlitinu.

 

I.Tímabilið frá 1996 - 2006

Á árunum eftir 1990 hófst samruni afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Til dæmis keypti Mjólkurbú Flóamanna mjólkursamlagið á Höfn í Hornafirði á árinu 1991. Eftir að Samkeppnisstofnun var stofnuð var tekin sú ákvörðun hjá Mjólkursamsölunni að tilkynna öll slík kaup (alla samruna) til Samkeppnisstofnunarinnar, þrátt fyrir að slíkir samrunar féllu ekki undir tilkynningarskyldu samkvæmt samkeppnislögum. Samkeppnisstofnun tók við slíkum tilkynningum en aðhafðist ekki frekar í málunum.

1996. Álit Samkeppnisráðs nr. 3/1996: Erindi Bónusar hf. varðandi viðskiptaskilmála Mjólkursamsölunnar og Osta- og smjörsölunnar. Bónus kvartaði undan því að fá ekki magnsafslátt af þeim vörum sem verðlagðar voru af fimmmannanefnd samkvæmt búvörulögum. Samkeppnisráð sagði að fyrirtækjunum væri óheimilt að selja þær framleiðsluvörur sem bundnar væru ákvörðunum fimmmannanefndar á lægra eða hærra verði en því sem nefndin kvæði á um. Þá sagði í áliti Samkeppnisráðs að ákvæði 18. gr. búvörulaga nr. 99/1993 sem bannaði kaup og sölu á þeim búvörum sem verðlagðar eru samkvæmt lögunum á öðru verði en ákveðið er af verðlagsnefndum landbúnaðarins væri skaðleg samkeppnishindrun á viðkomandi markaði og gengi gegn markmiði samkeppnislaga nr. 8/1993, sbr. 1. gr. laganna. Á sama hátt færu ákvæði 7. gr. og 13. gr. búvörulaga, um að verðlagsnefndir landbúnaðarins, sexmannanefnd og fimmmannanefnd, skuli ákveða afurðaverð til búvöruframleiðenda og heildsöluverð búvara, gegn markmiði samkeppnislaga.

1996. Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 5/1996: Erindi Bónusar hf. varðandi viðskiptaskilmála Osta- og smjörsölunnar. Í málinu byggði Samkeppnisráð á því að þegar sérákvæðum búvörulaga sleppir, í þessu tilviki 13. og 18. gr. búvörulaga nr. 99/1993, eigi ákvæði samkeppnislaga að fullu við um viðskipti með búvörur, með vísan til 2. mgr. 17. gr. búvörulaga. Í ljósi þessa var það niðurstaða Samkeppnisráðs að ákvæði Samkeppnislaga tækju til viðskipta OSS með þær vörur sem ekki væru verðlagðar á grundvelli búvörulaga. Komst Samkeppnisráð að þeirri niðurstöðu að OSS væri markaðsráðandi á Íslandi í dreifingu á smjöri, smjörvörum og osti og að verðlagsstefna fyrirtækisins færi gegn b-lið 17. gr. samkeppnislaga. Auk þess var það mat Samkeppnisráðs að synjun OSS um magnafslátt, þegar slíkt ætti við á grundvelli sanngjarnra viðskiptalegra sjónarmiða, væri til þess fallin að skaða viðskipti á viðkomandi markaði. Mælti Samkeppnisráð fyrir um að OSS skyldi bjóða viðskiptavinum sínum viðskiptakjör til samræmis við hagræði sem magn viðskiptanna gæfi tilefni til, þegar um væri að ræða viðskipti með vörur sem væru ekki verðlagðar á grundvelli 13. gr. búvörulaga. Viðskiptakjör skyldu vera almenn og bjóðast öllum þeim sem ættu í samskonar viðskiptum við OSS. Ákvörðun Samkeppnisráðs var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti hana með úrskurði nr. 3/1996.

1996.   Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 21/1996, Kvörtun Vífilfells varðandi framleiðslu og dreifingu Mjólkursamsölunnar á ávaxtasafa. Vífilfell taldi að Mjólkursamsalan, sem átti og rak Samsöluvörur sem framleiddu ávaxtasafa, samnýtti sölu- og dreifingarkerfi fyrirtækisins við sölu- og dreifingu á mjólkurvörum annars vegar og ávaxtasafa hins vegar og að slíkt fæli í sér brot á þágildandi 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga. Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu að á milli Mjólkursamsölunnar og Samsöluvara hf. væri fjárhagslegur aðskilnaður í skilningi 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga og að ekki væri tilefni til íhlutunar af hálfu Samkeppnisráðs í málinu.

1996.   Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 26/1996: Erindi Sólar hf. um starfsemi mjólkursamlaga – Mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga. Með vísan til 2. mgr. þágildandi 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, mælti Samkeppnisráð fyrir um fjárhagslegan aðskilnað milli reksturs mjólkursamlags Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri og annars reksturs kaupfélagsins með nánar tilgreindum hætti, m.a. að stofnuð skyldi sérstök eining utan um rekstur mjólkursamlagsins þar sem reiknishald væri sjálfstætt. Í málinu kemur m.a. fram að það sé mat Samkeppnisráðs að mjólkursamlög á Íslandi njóti margháttaðrar verndar í starfsemi sinni. Ákvörðunin var kærð til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem staðfesti hana að mestu leyti með úrskurði nr. 13/1996.

1996. Ákvörðun Samkeppnisráðs nr. 27/1996. Erindi Sólar hf. um starfsemi mjólkursamlaga – Mjólkursamlag Sölufélags A- Húnvetninga, Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga. Af hálfu Sólar var krafist fjárhagslegs aðskilnaðar milli þess hluta mjólkurbúanna sem félli undir vinnslu á mjólk og hreinum mjólkurvörum og þess hluta sem er í samkeppni við aðra. Í þessu máli kemur fram í niðurstöðu Samkeppnisráðs það mat að mjólkursamlögin njóti margháttaðrar verndar í starfsemi sinni, með sama hætti og í ákvörðun nr. 26/1996. Samkeppnisráð taldi hins vegar ekki ástæðu til að hafast nokkuð að í þessu máli, eins og atvikum í því var háttað. Hvað varðar MS sérstaklega þá vísaði Samkeppnisráð til þess að í ákvörðun 21/1996 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að fjárhagslegur aðskilnaður væri á milli MS og Samsöluvara hf. Því væri ekki ástæða til að fjalla frekar um MS í málinu.

1997. Ákvörðun samkeppnisráðs nr. 32/1997. Samkeppnisráð ákvað, með vísan til markmiðs samkeppnislaga nr. 8/1993, að fella úr gildi hámarksálagningu á mjólk og mjólkurvörum í smásölu frá 1. október 1997.

1998.   Hæstaréttardómur í máli nr. 297/1998. Samkeppnisráð áfrýjaði frávísunardómi héraðsdóms vegna samruna Myllunnar-Brauð hf. og Samsölubakarís sem var í eigu Mjólkursamsölunnar. Samkeppnisráð ógilti samrunann, en gætti ekki að lögboðnum frestum. Samkeppnisráð tapaði málinu og var dæmt til greiðslu málskostnaðar.

2002. Álit samkeppnisráðs nr. 2/2002: Erindi Samtaka verslunar og þjónustu vegna verðlagningar verðlagsnefndar búvara á mjólkurvörum í heildsölu. Með erindi SVÞ frá 15. nóvember 2001 var þess farið á leit að Samkeppnisráð felldi úrskurð um það hvort framlenging verðlagningar verðlagsnefndar búvara á mjólkurvörum bryti í báða við samkeppnislög. Í erindinu var vísað til þess að samkvæmt búvörusamningi frá árinu 1997 væri gert ráð fyrir að verðlagsnefnd hætti að verðleggja mjólkurvörur á heildsölustigi árið 2001 en að saminn hefði verið viðauki við samninginn þar sem verðlagningin var framlengd til 30. júní 2004. Þótti SVÞ opinber verðstýring mjólkurvara á heildsölustigi vera tímaskekkja, bæði með tilliti til samkeppnislaga, almennra viðskiptahátta og hagsmuna neytenda.

Í niðurstöðu samkeppnisráðs kemur m.a. fram:

„Samkeppnislög nr. 8/1993 eru almenn lög og ganga því skýr sérákvæði búvörulaga nr. 99/1993 framar ákvæðum samkeppnislaga ef ákvæðin stangast á, sbr. t.d. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 3/1996, Osta- og smjörsalan gegn samkeppnisráði og ákvörðun samkeppnisráðs nr. 3/1996, Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda-viðskiptakjör við sölu eggja, sbr. úrskurð áfrýjunarnefndar nr. 4/1996, Félag eggjaframleiðenda gegn samkeppnisráði. Hins vegar er ljóst að þegar heildsöluverðlagning á mjólkurvörum verður gefin frjáls gilda ákvæði samkeppnislaga um verðlagningu á heildsölustigi.“

Þá er jafnframt fjallað um það í áliti Samkeppnisráðs að þrátt fyrir framangreint þurfi að túlka heimildarákvæði búvörulaga til samræmis við samkeppnislög og markmið þeirra þegar ákvæði þessara laga stangast á. Í því sambandi er vísað til úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 3/1996 og dregin sú ályktun að niðurstaða þess máls, sem varðaði heimild til verðtilfærslu á grundvelli 59. gr. búvörulaga[1], ætti einnig við um 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. búvörulaga. Í því felist að verðtilfærsla eða verkaskipting verði að taka mið af ákvæðum samkeppnislaga nema skýr heimild standi til annars. Má m.a. ráða af umfjöllun í niðurstöðukafla Samkeppnisráðs að ákvæði 71. gr. búvörulaga sé í andstöðu við 10. gr. samkeppnislaga. Þá kemur fram það mat Samkeppnisráðs að verðlagning verðlagsnefndar búvara á mjólkurvörum í heildsölu fari gegn markmiðum samkeppnislaga. Beindi Samkeppnisráð þeim tilmálum til landbúnaðarráðherra að hann beitti sér fyrir því að heildsöluverðlagning á búvöru yrði gefin frjáls svo fljótt sem auðið væri. Auk þess var m.a. óskað eftir því að ráðuneytið beiti heimildum sínum samkvæmt 71. gr. búvörulaga til að tryggja eftir föngum að samningar um verkaskiptingu samkvæmt ákvæðinu raski ekki samkeppni og vinni þar með gegn markmiðum þess að gefa heildsöluverðlagningu á mjólk frjálsa. Í því sambandi yrði reynt að vinna gegn samráði afurðastöðva um framleiðslu og sölu og aðra lykilþætti í samkeppni.

2006. Álit Samkeppniseftirlitsins nr. 1/2006, Opinberar samkeppnishömlur í mjólkuriðnaði. Í álitinu kom fram það mat Samkeppniseftirlitsins að ákvæði búvörulaga viðvíkjandi vinnslu og sölu mjólkur- og mjólkurafurða raski samkeppni og feli í sér mismunun gagnvart einstökum fyrirtækjum í mjólkuriðnaði, og fari því gegn markmiðum samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið beindi því eftirfarandi tilmælum til landbúnaðarráðherra:

1.    Ráðherra beiti sér fyrir því að afnema verð- og magntolla á mjólkurdufti í því skyni að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði.

2.    Ráðherra beiti sér fyrir því að afnema 3. mgr. 13. gr. búvörulaga viðvíkjandi verðtilfærslu afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

3.    Ráðherra beiti sér fyrir því að afnema 71. gr. búvörulaga viðvíkjandi samráð og samruna afurðastöðva í mjólkuriðnaði.

4.    Ráðherra beiti sér fyrir því að öðru leyti að jafna samkeppnisstöðu afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem starfa annars vegar innan Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og hins vegar þeirra er starfa utan samtakanna.

Í álitinu er m.a. vísað til áðurgreinds álits nr. 2/2002 og tekið fram að „þrátt fyrir“ það álit, þá hafi verið gerðar breytingar á búvörulögum árið 2004 og búvörusamningur endurnýjaður, sem gerði meðal annars ráð fyrir áframhaldandi opinberri verðstýringu til ársins 2012. Þá segir: „Samhliða voru einnig gerðar þær breytingar á búvörulögunum að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga yrði mjólkursamlögum heimilt að gera samninga um verðtilfærslu milli afurða auk þess sem þeim er nú heimilt að sameinast og gera með sér samkomulag um verka- og markaðsskiptingu í framleiðslu án mögulegrar íhlutunar samkeppnisyfirvalda, sbr. lög nr. 85/2004. Í þessari lagabreytingu felst í eðli sínu að heimildir mjólkursamlaga til þess að grípa til aðgerða sem raska með alvarlegum hætti samkeppni og skaða hagsmuni neytenda voru verulega auknar og tilmæli samkeppnisyfirvalda um að efla samkeppni á þessu sviði voru virt að vettugi“. Í álitinu kemur fram hörð gagnrýni Samkeppniseftirlitsins á 71. gr. búvörulaga. Þá segir að Samkeppniseftirlitið telji þá stöðu sem sé komin upp í starfsemi Mjólku kalla enn frekar á þær aðgerðir sem mælt var fyrir um í áliti nr. 2/2002.

2006. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 39/2006, Erindi Mjólku ehf. vegna misnotkunar Osta- og smjörsölunnar á markaðsráðandi stöðu. Í þessu máli taldi Samkeppniseftirlitið Osta- og smjörsöluna sf. hafa misnotaði markaðsráðandi stöðu sína gagnvart Mjólku ehf. og þannig brotið gegn samkeppnislögum. Þegar Mjólka hóf störf með framleiðslu á fetaosti þurfti fyrirtækið að kaupa mjólkurduft hjá Osta- og smjörsölunni. Var Mjólku gert að greiða hið hærra verð, sem er til fyrirtækja í mjólkuriðnaði, á meðan annað fyrirtæki í ostaframleiðslu, Ostahúsið, hafði hins vegar verið látið greiða hið lægra verð, sem er til fyrirtækja í annarri matvælaframleiðslu, vegna sinnar framleiðslu og hafði svo verið um margra ára skeið. Þetta varð tilefni til þess að Mjólka kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir mismunun Osta- og smjörsölunnar. Osta- og smjörsalan brást við með þeim hætti að hækka verðið á mjólkurdufti til Ostahússins til að jafna samkeppnisstöðu Mjólku og Ostahússins enda verðlagningin til Ostahússins mistök af hálfu starfsmanna fyrirtækisins. Samkeppniseftirlitið taldi Osta- og smjörsöluna allt að einu hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína þegar fyrirtækið seldi Mjólku annars vegar og Ostahúsinu hins vegar mjólkurduft á misháu verði og þannig brotið gegn samkeppnislögum. Ákvörðun SE var staðfest af áfrýjunarnefnd samkeppnismála með úrskurði nr. 8/2006.

II.Tímabilið frá 2007 - 2016

2008. Ákvörðun nr. 24/2008, Kaup Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson ehf. á hlut af rekstri Bako ehf. Samkeppniseftirlitið taldi ekki ástæðu til að aðhafast nokkuð vegna kaupa Ölgerðarinnar á Samsöluvörum ehf.

2008. Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 558/2007 frá 10. apríl 2008, Samkeppniseftirlitið gegn Mjólkursamsölunni ehf., Auðhumlu svf. og Osta- og smjörsölunni ehf., lét MS reyna á sérstakt hæfi forstjóra SE til að fara með stjórnsýslumál þar sem MS var einn aðila. Þar byggði krafa MS um vanhæfi á því að draga mætti í efa óhlutdrægni forstjóra SE á grundvelli ummæla sem forstjórinn lét falla í garð MS á fundi með lögmanni félagsins og fleirum þann 1. desember 2006. Í forsendum Hæstaréttar í málinu var talið að ummælin, sem ekki voru talin samræmast reglum um háttvísi opinberra starfsmanna, hefðu fallið í kringumstæðum er vörðuðu fyrra mál MS og SE. Voru ummælin því ekki talin í tengslum við það stjórnsýslumál sem reyndi á í því máli. Í forsendum segir dómurinn að atvik málsins bentu ekki til þess að forstjóri SE bæri slíkan hug til MS að óhlutdrægni hans mætti með réttu draga í efa og var SE því sýknað.

2009. Ákvörðun SE nr. 40/2009, Samruni Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku ehf./Eyjabú ehf. Í þessu máli var það mat Samkeppniseftirlitsins að samruni Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólku ehf./Eyjabú ehf. væri í andstöðu við markmið samkeppnislaga. Samruninn féll hins vegar ekki undir gildissvið samkeppnislaga vegna undanþáguákvæðis búvörulaga og því skorti Samkeppniseftirlitið lagaheimild til að grípa til íhlutunar. Samkeppniseftirlitið beindi aftur á móti tilmælum til landbúnaðarráðherra í áliti nr. 1/2009,  Skaðleg samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni, um að samkeppnishamlandi ákvæðum búvörulaga yrði breytt, að sögn Samkeppniseftirlitsins „þannig að samkeppni [fengi] þrifist í mjólkuriðnaði til hagsbóta fyrir bændur og neytendur“.

2009. Álit nr. 1/2009, Skaðleg samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni. Samkeppniseftirlitið beindi eftirfarandi tilmælum til landbúnaðarráðherra:

1.      Ráðherra beitti sér tafarlaust fyrir afnámi 71. gr. búvörulaga sem heimilar mjólkurafurðastöðvum samruna og samkeppnishamlandi samráð utan gildissviðs samkeppnislaga. Jafnframt að ráðherra beitti sér fyrir því að ryðja úr vegi öðrum samkeppnishindrunum sem líklegar væru til að koma í veg fyrir samkeppni á þessu sviði.

2.      Ráðherra beitti sér fyrir breytingum á búvörulögum með setningu ákvæða sem fælu í sér heimild til að skipta upp mjólkurafurðastöðvum þannig að koma mætti við samkeppni í vinnslu og sölu mjólkur og mjólkurafurða neytendum og bændum til hagsbóta.

3.      Ráðherra beitti sér fyrir því að við undirbúning lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla á sviðum sem varða vinnslu og sölu mjólkur og mjólkurafurða yrði tryggt að jafnræðis sé gætt, þannig að allir hagsmunaaðilar á markaði hefðu sama tækifæri til að koma að sjónarmiðum sínum.

2010. Samkeppniseftirlitið skrifar umsögn um frumvarp til breytinga á búvörulögum, dags. 5. ágúst 2010. Í umsögninni lætur Samkeppniseftirlitið í té eftirfarandi mat sitt á mjólkurmarkaði á Íslandi: „Að mati SE hefur íslenskur mjólkurmarkaður mörg einkenni samráðshrings (e. cartel) sem á heilbrigðum samkeppnismarkaði brýtur í bága við 10. gr. skl.“

2010. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 17/2010, Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintri misnotkun Mjólkursamsölunnar ehf. á markaðsráðandi stöðu. Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á meintri misnotkun Mjólkursamsölunnar á markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir framleiðslu og heildsölu á mjólkurvörum með húsleit i júní 2007. Tilefni húsleitarinnar munu hafa verið ábendingar frá Mjólku ehf. Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að þau gögn sem aflað var í málinu gæfu til kynna að Mjólkursamsalan hefði brugðist við aukinni samkeppni á markaði sem ríkti eftir innkomu Mjólku á markað árið 2005 og stóð til ársins 2009 af festu og afli. Hin aukna samkeppni veitti Mjólkursamsölunni umtalsvert og nauðsynlegt aðhald á markaði sem neytendur nutu góðs af með auknu vöruúrvali og lægra verði og ennfremur hærra mjólkurverði til bænda. Gögn málsins gáfu hins vegar ekki til kynna að Mjólkursamsalan hefði farið út fyrir ramma samkeppnislaga. Þannig væri ekki leitt í ljóst að Mjólkursamsalan hefði með kerfisbundnum og skipulögðum aðgerðum reynt að útiloka keppinauta frá markaði með samkeppnishamlandi aðgerðum. Með vísan til þess taldi Samkeppniseftirlitið ekki tilefni til frekari aðgerða.

2014. Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn á verðlagningu hrámjólkur í upphafi árs 2013. Þeirri rannsókn lauk með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 26/2014, dags. 22. september 2014, þar sem Mjólkursamsalan var sektuð um 370 milljónir vegna ætlaðra brota gegn c-lið 2. mgr. 11. gr. samkeppnislaga, fyrir að hafa mismunað viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum. Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 5/2014 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka málið að nýju, þar sem það þótti ekki hafa verið rannsakað til hlítar af hálfu Samkeppniseftirlitsins áður en ákvörðun var tekin í því.

2016. Samkeppniseftirlitið skrifaði umsögn, dags. 6. júní 2016, um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum. Í umsögninni kemur fram sú skoðun Samkeppniseftirlitsins að með umræddu frumvarpi væri Alþingi að staðfesta undanþágu sem væri „án fordæma“ og „til þess fallin að grafa undan réttarvörslukerfinu“. Þá spyr stofnunin hvort Alþingi væri reiðubúið að samþykkja lög sem „gerði stjórnendum fjármálafyrirtækja refsilaust að framkvæma umboðssvik“ í skilningi hegningarlaga. Einnig kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins að ákvæði frumvarpsins skapi „verulega óvissu um framkvæmd banns við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, skv. 11. gr. samkeppnislaga“. Því til viðbótar segir í umsögninni: „Alþingi verður að taka afstöðu til þess hvort það telur eðlilegt að setja framangreindar sérreglur um háttsemi markaðsráðandi fyrirtækis áður en rannsókn á þessu sama fyrirtæki vegna hugsanlegs brots á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu er lokið.“ Samkeppniseftirlitið lýkur umsögn sinni með eftirfarandi orðum: „Hafa ber í huga að MS hefur í eldri málum verið talið markaðsráðandi og keppinautur annarra minni aðila á markaði í framleiðslu og sölu mjólkurafurða og því óeðlilegt að þeir séu einnig háðir MS um hráefni til starfsemi sinnar á meðan starfsemi félagsins heyrir ekki að öllu leyti undir samkeppnislög.“

2016. Hinn 7. júlí 2016 birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun nr. 19/2016, í því máli sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi fyrri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins úr gildi með úrskurði nr. 5/2014 vegna ófullnægjandi rannsóknar. Með hinni nýju ákvörðun komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu á ný að Mjólkursamsalan hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með sama hætti og fjallað hafði verið um í ákvörðun nr. 26/2014 og var félagið sektað um 440 milljónir króna. Þóttu gögn sem komu fram undir rannsókn málsins að mati Samkeppniseftirlitsins benda til þess að ætluð brot væri enn alvarlegri en byggt var á í hinni fyrri ákvörðun, sem skýrir hækkun hinnar álögðu sektar. Þá var einnig lögð 40 milljón króna sekt á félagið vegna ætlaðra brota gegn 19. gr. samkeppnislaga fyrir að veita ekki fullnægjandi upplýsingar við rannsókn málsins.

2016. Með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 5/2016 var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 19/2016 að fullu felld úr gildi að því er meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu varðar. Hins vegar staðfesti áfrýjunarnefndin niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um upplýsingabrot gegn 19. gr. samkeppnislaga.[1] Í umræddri 59. gr. búvörulaga var að finna sambærilegt ákvæði og var að finna í 71. gr. búvörulaga nr. 99/1993 árið 2002: Afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er heimilt að gera samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara fyrir innlendan og erlendan markað. Samkomulagið öðlast ekki gildi fyrr en landbúnaðarráðherra hefur staðfest það.