Mjólk hjálpar við þyngdarstjórnun

28.03.2008

Offita hefur verið nefnd alheimsfaraldur, og hefur tíðni hennar farið stigvaxandi undanfarin ár og áratugi, jafnt hérlendis sem erlendis. Eins og gefur að skilja er mataræði nátengt offitu og gildir almennt að meiri orkuinntaka en orkueyðsla til lengri tíma leiði til þyngdaraukningar og síðar offitu.
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að kalk úr fæðu virðist hafa hlutverki að gegna við þyngdarstjórnun. Þetta hefur meðal annars sést í ýmsum faraldsfræðilegum rannsóknum, þar sem þeir sem neyta meira kalks virðast ólíklegri til að vera feitir. Ekki er ljóst hvernig nákvæmlega áhrif kalks séu tilkomin en talið er að það geti með óbeinum hætti aukið niðurbrot og brennslu fitu í frumum og um leið dregið úr fitumyndun. Einnig virðist sem kalk geti bundið fitu í smáþörmum og átt þátt í að skila henni út með hægðum í stað þess að hún sé tekin upp inn í líkamann.
Mjólkurafurðir eru bestu kalkgjafar sem völ er á og því eðlilegt að álíta að mjólkurneysla geti stuðlað að svipuðum áhrifum og kalk til þyngdarstjórnunar. Og rannsóknir sýna að mjólkurneysla gerir það og jafnvel gott betur, því ýmsar rannsóknanna benda til meiri áhrifa neyslu mjólkurafurða á þyngdarstjórnun en hægt er að skýra með kalkinnihaldi þeirra einu saman. Til að mynda sýndi ný rannsókn að þeir sem fengu kalk á formi fæðubótarefnis (kalkinntaka um 1200-1300 mg/dag) töpuðu 26% meiri þyngd en viðmiðunarhópur (kalkinntaka 400-500 mg/dag) á 24 vikum sem rannsóknin stóð yfir, meðan þyngdartap þeirra sem neyttu mjólkurvara (kalkinntaka 1200-1300 mg/dag) var 70% meira. Hvað veldur þessum meiri áhrifum mjólkur til þyngdarstjórnunar er ekki þekkt, þar sem upptaka líkamans á kalki úr mjólk er lítt frábrugðið upptöku þess úr flestum öðrum matvælum. Því telja vísindamenn að mjólkurafurðir innihaldi einhverja aðra þætti ótengda kalki, sem hafa einnig áhrif á líkamsþyngd. Ekki hafa verið borin kennsl á þessa þætti, hugsanlega er um að ræða prótein eða amínósýrur eða lífvirk peptíð (próteinhluta), en frekari rannsókna er þörf til að skera úr um það.

Mynd 1. Sýnir hlutfallslega hættu (e. relative risk RR) á offitu eftir fjórðungum kalkneyslu (1=minnst kalkneysla; 4=mest kalkneysla). Úr síðustu landskönnun á mataræði Bandaríkjamanna (NHANES III).


Ítarefni

Zemel MB, Shi H, Greer B, Dirienzo D, Zemel PC. Regulation of adiposity by dietary calcium. FASEB J 2000;14:1132-8.

Carruth BR, Skinner JD. The role of dietary calcium and other nutrients in moderating body fat in preschool children. Int J Obes Relat Metab Disord 2001;25:559-66.

Pereira MA, Jacobs DR Jr,  Van Horn L, Slattery ML, Kartashov AI, Ludwig DS. Dairy consumption, obesity, and the insulin resistance syndrome in young adults: the CARDIA Study. JAMA 2002;287:2081-9.

Zemel MB, Thompson W, Zemel PC, et al. Dietary calcium and dairy products accelerate weight and fat loss during energy restriction in obese adults. Am J Clin Nutr 2002;75(suppl):342S.

Zemel MB. The role of dairy foods in weight management. J Am Coll Nutr 2005;24(6 Suppl):537S-46S.

Astrup A. How to maintain a healthy body weight. Int J Vitam Nutr Res 2006;76:208-15.

Pfeuffer M, Schrezenmeir J. Milk and the metabolic syndrome. Obes Rev 2007;8:109-18.

Lorenzen JK, Nielsen S, Holst JJ, Tetens I, Rehfeld JF, Astrup A. Effect of dairy calcium or supplementary calcium intake on postprandial fat metabolism, appetite, and subsequent energy intake. Am J Clin Nutr 2007;85:678-87.

Fleiri heilsugreinar