Úrslit teiknisamkeppni grunnskólabarna í 4. bekk

15.04.2015

Á dögunum réðust úrslit í árlegri teiknisamkeppni fjórðu bekkinga í grunnskólum landsins en það var menntamálaráðherra og formaður dómnefndar, Illugi Gunnarsson, sem tilkynnti úrslitin. Keppnin er haldin í tengslum við Alþjóðlega skólamjólkurdaginn, sem er í september ár hvert, og var það í fimmtánda sinn sem dagurinn var haldinn hátíðlegur síðastliðið haust. Að sögn Guðnýjar Steinsdóttur, markaðsstjóra MS er markmið keppninnar að vekja athygli á mikilvægi mjólkur og hollustu hennar í daglegu mataræði barna og það hefur sýnt sig að neysla mjólkur hefur aukist í grunnskólum á undanförnum árum. Það er að undirlagi Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem Skólamjólkurdagurinn er haldinn og eru verðlaunateikningarnar notaðar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna hans í framhaldinu, en slíkt vekur bæði stolt og lukku meðal nemendanna.

Í framhaldi af Skólamjólkurdeginum hófst teiknisamkeppnin og höfðu nemendurnir góðan tíma til að vinna að myndunum og nutu til þess leiðsagnar frá kennurum sínum. Eins og undanfarin ár barst mikill fjöldi teikninga í samkeppnina og hugmyndarflug, sköpunargáfa og litagleði var ótæmandi hjá börnunum. Alls bárust tæplega eitt þúsund myndir í keppnina frá 43 grunnskólum á landinu svo það var mikið og vandasamt verk sem beið dómnefndarinnar,“ segir Guðný. Að lokum eru tíu nemendum veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar og fær hver verðlaunahafi 25.000 kr. sem renna óskiptar í bekkjarsjóð viðkomandi.

Haft hefur verið samband við skólastjórnendur allra vinningshafa í teiknisamkeppninni 2014 en þeir eru:

Arion Aron Veselaj – Fellaskóla, Reykjavík
Ella Rose T. Patambag – Fellaskóla, Reykjavík
Ragnhildur Guðrún Guðmundsdóttir – Flataskóla, Garðabæ
Anna Nguyen Ngoc Ha – Fossvogsskóla, Reykjavík
Sindri Sigurðsson – Hrafnagilsskóla, Eyjafjarðarsveit         
Auður Dís Kristjánsdóttir – Húsaskóla, Reykjavík
Heiða María Hannesdóttir – Lágafellsskóla, Mosfellsbæ
Markús Birgisson – Lindaskóla, Kópavogi
Saule Viktoría Tyscenko – Snælandsskóla, Kópavogi
Markús Heiðar Ingason – Víðistaðaskóla, Hafnarfirði

Meðfylgjandi eru myndir af dómnefndinni við störf sín og tvær þeirra mynda sem hlutu verðlaun að þessu sinni en allar tíu myndirnar má sjá á vef Skólamjólkur, www.skolamjolk.is

Dómnefndin að störfum; f.v. Illugi Gunnarsson,
menntamálaráðherra;Guðríður Halldórsdóttir, fulltrúi frá MS;
Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS og
Gréta Björg Jakobsdóttir, markaðsfulltrúi MS.

Mjólkursamsalan þakkar 4. bekkingum kærlega fyrir þátttökuna og óskar vinningshöfum og skólunum þeirra innilega til hamingju.

Fleiri fréttir